213. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn

06.04.2017

213. fundur

haldinn í Kjarna fimmtudaginn 06. apríl kl. 13:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson
Margrét Bjarnadóttir
Árni Pétur Hilmarsson
Ásvaldur Ævar Þormóðsson
Heiða Guðmundsdóttir
Sigurður Hlynur Snæbjörnsson
Ketill Indriðason í forföllum Ragnars Bjarnasonar

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri

Oddviti setti fund.

Dagskrá:

  1. Rekstrarleyfi – Bollastaðir
  2. Flugklasinn Air 66N
  3. Framsýn – keðjuábyrgð verktaka
  4. Vegvísir samstarfsnefndar
  5. Fundargerð Dvalarheimilis aldraðra sf. 
  6. Þingsályktunartillaga um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða

 

Til kynningar:

a)      Fundargerð 848. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

 

1. Rekstrarleyfi – Bollastaðir

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 27. mars s.l. þar sem Bryndís Pétursdóttir sækir um rekstrarleyfi, flokkur III – gististaður með veitingum, á Bollastöðum í Þingeyjarsveit.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við veitt rekstrarleyfi með fyrirvari um að jákvæðar umsagnir berist frá skipulags- og byggingarfulltrúa og heilbrigðis- og eldvarnareftirlitinu sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007.

 

2. Flugklasinn Air 66N

Fyrir fundinum liggur erindi frá Hjalta Páli Þórarinssyni, verkefnastjóra Air 66N, dags. 29. mars. sl. þar sem óskað er eftir aðkomu sveitarfélagsins að starfi Flugklasans Air 66N með framlagi sem nemur 300 kr. á hvern íbúa á ári í tvö ár. Markaðsstofa Norðurlands hefur um árabil haft umsjón með starfi flugklasans á norðurlandi. Markmið klasans er að koma á beinu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll allt árið um kring til framtíðar. 

Sveitarstjórn samþykir að taka þátt í verkefninu samkvæmt fyrirliggjandi erindi og vísar til gerðrar fjárhagsáætlunar 2018.

 

3. Framsýn – keðjuábyrgð verktaka

Lagt fram bréf frá Aðalsteini Á. Baldurssyni f.h. Framsýnar stéttarfélags þar sem skorað er á sveitarstjórnir á félagssvæðinu að samþykkja keðjuábyrgð verktaka. Keðjuábyrgð er eitt allra mikilvægasta verkfæri sem völ er á til að tryggja lögbundin réttindi og kjör.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkir að innleiða keðjuábyrgð hjá sveitarfélaginu. Þetta gildir um alla samninga um verklegar framkvæmdir og kaup á þjónustu á vegum sveitarfélagsins. Þannig verði sett inn í slíka samninga ákvæði um keðjuábyrgð þeirra seljenda sem sveitarfélagið semur við. Með þessu vill Þingeyjarsveit tryggja að allir starfsmenn, hvort sem það eru starfsmenn verktaka, undirverktaka eða starfsmannaleiga, njóti launa, trygginga og annarra réttinda í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni. Aðalverktakinn verði þannig í verksamningi gerður ábyrgur fyrir að tryggja kjarasamnings- og lögbundin réttindi allra starfsmanna sem að verkinu koma.
Þetta verður gert til að koma í veg fyrir undirboð og óeðlilega samkeppnishætti á vinnumarkaði.

 

4. Vegvísir samstarfsnefndar

Vinnuhópur, skipaður af sveitarstjórn til að vinna verkefni í samræmi við vegvísi samstarfsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara vegna málefna grunnskólans, kynnti niðurstöður, úrbótaáætlun og drög að lokaskýrslum beggja grunnskóla fyrir sveitarstjórn.

Sveitarstjórn samþykkir framlögð drög að úrbótaáætlun og lokaskýrslum með áorðnum breytingum.

 

5. Fundargerð Dvalarheimilis aldraðra sf.

Lögð fram fundargerð Dvalarheimilis aldraðra sf. (DA) frá 29. mars. s.l. ásamt fylgiskjölum. Arnór gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í fimm liðum.

3. liður fundargerðar; framtíð rekstrar og húsnæðismála DA

Sveitarstjórn samþykkir með sex atkvæðum fyrirliggjandi drög að tillögu og viljayfirlýsingu aðildarsveitarfélaganna Norðurþings, Þingeyjarsveitar, Skútustaðahrepps og Tjörneshrepps, um framtíðarskipan hjúkrunarmála í sveitarfélögunum í samstarfi við ríkið.

Ketill Indriðason sat hjá við afgreiðslu málsins.

 

6. Þingsályktunartillaga um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða

Meirihluti sveitarstjórnar samþykkti í tölvupósti eftirfarandi umsögn um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, sbr. 207. mál, þingskjal 291, á 146. löggjafaþingi.  Umsögnin var send nefndarsviði Alþingis og þingmönnum kjördæmisins þann 4. apríl s.l.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar mótmælir því afdráttarlaust að áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða gerir ráð fyrir að allt vatnasvið Skjálfandafljóts verði flokkað í verndarflokk. Þá eru vinnubrögð Verkefnisstjórnar gagnrýnd, en ekki hefur verið leitað eftir samráði við sveitarstjórn Þingeyjarsveitar við gerð áætlunarinnar, þrátt fyrir að fjallað hafi verið um marga virkjunarkosti innan marka sveitarfélagsins. Þetta er sérstaklega ámælisvert, enda verður verndar- og orkunýtingaráætlun sem samþykkt er af Alþingi bindandi við gerð skipulagsáætlana sveitarfélagsins, sbr. 7. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Málefnið hefur bein áhrif á verksvið sveitarstjórnar, sem fer með skipulagsvald innan sveitarfélagsins. Samráðsleysi Verkefnisstjórnar er í ósamræmi við eðlileg samskipti ríkis og sveitarfélaga með hliðsjón af sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga, sem hvílir á 78. gr. stjórnarskrár.

Í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 48/2011 er kveðið á um að Verkefnisstjórn eigi m.a. að leita eftir samráði við stofnanir og stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga. Almenn heimild til að senda inn umsagnir getur ekki fallið þar undir, jafnvel þótt Verkefnisstjórnin hafi haldið almenna kynningarfundi þegar drög að tillögu verkefnisstjórnar lágu fyrir vorið 2016 þar sem fullmótaðar tillögur um flokkun virkjunarkosta komu fram.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar vísar jafnframt til þeirrar gagnrýni sem komið hefur fram á vinnubrögð Verkefnisstjórnar, m.a. frá Orkustofnun. Bent hefur verið á að hlutverk Verkefnisstjórnar samkvæmt lögum sé að móta stefnu um nýtingu landsvæða sem virkjunarkosti er að finna á, en ekki sé lagagrundvöllur fyrir tillögugerð um vernd alls vatnasviðs Skjálfandafljóts með þeim hætti sem Verkefnastjórn viðhefur.

Jafnframt hefur verið gagnrýnt að framkomin tillaga Verkefnisstjórnar um verndar- og orkunýtingaráætlun, hvílir að afar takmörkuðu leyti á mati á samfélags- og efnahagslegum áhrifum virkjunarkosta, þrátt fyrir lagaskyldu um tillit til þeirra þátta, samanber markmið laga nr. 48/2011 og 4. mgr. 3. gr. laganna. Það er í raun ótrúlegt að Verkefnisstjórn hafi ekki leitað álits sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar á samfélagslegum áhrifum varðandi nýtingu skilgreindra virkjunarsvæða, hvort heldur sem er til virkjunar, annarrar nýtingar eða verndar.

Flokkun einstakra virkjunarkosta hvílir einungis á aðferðafræði Faghópa 1 og 2, þar sem fáeinir einstaklingar hafa fengið vald, bæði til að móta aðferðafræði og setja inn forsendur um vægi einstakra þátta. Það mat er á endanum háð persónulegu mati fárra og í raun ógegnsætt á hverju það hvílir. Röðun virkjunarkosta fór ekki fram hjá faghópum 3 og 4, en faghópur 3 átti að fjalla um samfélagsleg áhrif. Tillaga Verkefnisstjórnar sem hvílir ekki á mati á samfélagslegum þáttum er í raun ólýðræðislegt plagg.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar gagnrýnir jafnframt að Alþingi hafi ekki sent umsagnarbeiðni á sveitarfélagið. Fyrirliggjandi þingsályktunartillaga gerir ráð fyrir að víðfeðm landsvæði innan sveitarfélagsins falli í verndarflokk, m.a. hluti vatnasviðs Skjálfandafljóts þar sem

verkefnisstjórn hefur ekki haft nokkra virkjunarkosti til umfjöllunar. Sú flokkun á að leiða til verndunar sbr. 6. gr. laga nr. 48/2011 og 53. gr. náttúrverndarlaga nr. 60/2013.  Þingsályktunartillagna hefur bein áhrif á framkvæmd skipulagsvalds Þingeyjarsveitar og verulega hagsmuni íbúa sveitarfélagsins. Óásættanlegt er að Alþingi hyggist ráða slíku máli til lykta án samráðs við Þingeyjarsveit.

Óskað er eftir því að fulltrúar Þingeyjarsveitar fái að mæta á fund umhverfis- og samgöngunefndar til að kynna nánar sjónarmið sveitarstjórnar.

Hlynur Snæbjörnsson og Ketill Indriðason sátu hjá við afgreiðslu málsins.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14:45