199. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

20.09.2016

199. fundur

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

haldinn í Kjarna þriðjudaginn 20. september kl. 16:00

Fundarmenn
  • Arnór Benónýsson
  • Margrét Bjarnadóttir
  • Ásvaldur Ævar Þormóðsson
  • Árni Pétur Hilmarsson
  • Heiða Guðmundsdóttir
  • Ragnar Bjarnason
  • Sigurður Hlynur Snæbjörnsson.
Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri
(fundarritari)

Oddviti setti fund. Hann óskaði eftir að bæta á dagskrá undir 5. lið; Áskorun

Samþykkt samhljóða. 

 

Dagskrá:

1.      Fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar frá 16.09.2016

2.      Endurnýjun á rekstrarleyfi – Hótel Rauðaskriða

3.      Endurnýjun á rekstrarleyfi – Langavatn

4.      Aðalfundur Samtaka orkusveitarfélaga 2016

5.      Áskorun

1.      Fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar frá 16.09.2016

Lögð fram fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar frá 16. september s.l. Ásvaldur gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í 5 liðum.

3. liður fundargerðar; Sorpflokkunarsvæði í landi Stóru-Tjarna, umsókn um framkvæmdaleyfi.

Sveitarstjórn samþykkir erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfið skv. 13.-16. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmaleyfi nr. 772/2012,  komi ekki fram neinar athugasemdir í fyrirhugaðri grenndarkynningu.

4. liður fundargerðar; Ljósleiðari í Þingeyjarsveit, umsókn um framkvæmdaleyfi.

Sveitarstjórn samþykkir erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir væntanlegri ljósleiðaralögn skv. 13.-16. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmaleyfi nr. 772/2012 á grundvelli framangreindra framlagðra gagna. Í framkvæmdaleyfi verði lögð sérstök áhersla á eftirtalin atriði:

·         Við val lagnaleiða verði lögð áhersla á lágmarks röskun á landi. Þar sem ekki verður komist hjá sýnilegu raski skal græða upp plóg- og hjólför með tilliti til staðargróðurs.

·         Hafa skal samráð við landeigendur eða umráðamenn landeigna við val á lagnaleiðum.

·         Hafa skal samráð við minjavörð Norðurlands eystra varðandi hugsanlegar fornminjar á lagnaleiðinni.

·         Þar sem fyrirhugað er að leggja ljósleiðara um svæði sem eru á náttúruminjaskrá eða um svæði sem njóta sérstakrar verndar skv. lögum ber að hafa samráð við fulltrúa Umhverfisstofnunar á svæðinu.

5. liður fundargerðar; Rangá, breyting á aðal- og deiliskipulagi.

Sveitarstjórn samþykkir að heimila umsækjanda að vinna og leggja fram skipulagslýsingu vegna breytinga á aðalskipulagi og vegna nýs deiliskipulags skv. 1. mgr. 30. gr. og 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga  nr. 123/2010. Vakin er athygli á því að umsækjandi skal samhliða því að leggja fram skipulagslýsingu óska eftir heimild sveitarstjórnar til að vinna deiliskipulag af svæðinu sbr. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina að öðru leyti. Ásvaldur vék af fundi við afgreiðslu       3. liðar fundargerðar vegna vanhæfis. Margrét vék af fundi við afgreiðslu 4. liðar fundargerðar vegna vanhæfis.

2.      Endurnýjun á rekstrarleyfi – Hótel Rauðaskriða

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 9. september s.l.  þar sem Harald R. Jóhannesson, f.h. Rauðuskriðu 1 ehf. sækir um endurnýjun á rekstrarleyfi til sölu gistinga og veitingu veitinga á Hótel Rauðuskriðu í Þingeyjarsveit.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við endurnýjun rekstrarleyfis fyrir sitt leyti.

3.      Endurnýjun á rekstrarleyfi - Langavatn

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 15. september s.l.  þar sem Gunnar Hallgrímsson sækir um endurnýjun á rekstrarleyfi til sölu gistinga og veitingu veitinga fyrir Langavatn í Þingeyjarsveit.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við endurnýjun rekstrarleyfis fyrir sitt leyti.                                                                                                                       

4.      Aðalfundur Samtaka orkusveitarfélaga 2016

Lagt fram aðalfundarboð Samtaka orkusveitarfélaga sem haldinn verður þann 21. september n.k. á Hilton Reykjavík Nordica.

Samþykkt að sveitarstjóri fari með umboð Þingeyjarsveitar á fundinum.

5.      Áskorun

Sveitarstjórn samþykkti eftirfarandi áskorun:

Sveitarstjórnir Skútustaðahrepps, Þingeyjarsveitar og Norðurþings lýsa þungum áhyggjum af þeirri stöðu sem áform um nýtingu og vernd háhitasvæða í Þingeyjasýslum eru komin í og fara fram á að ríkisvaldið grípi til ráðstafana til að bæta þar úr.   

Árið 2006, eftir marga ára undirbúning, skipuðu sveitarfélögin þrjú og Aðaldæla­hreppur samvinnunefnd um gerð landnýtingar- og verndaráætlunar vegna fyrir­hugaðra virkjanna á Þeistareykjum og Gjástykki, ásamt frekari virkjunum í Kröflu og Bjarnarflagi.  Auk fulltrúa sveitarfélaganna átti fulltrúi Skipu­lagsstofnunar sæti í nefndinni en auk nefndarmanna unnu fjölmargir fræðimenn og aðrir álits- og umsagnaraðilar að gerð áætlunarinnar, þ.m.t. sameiginleg náttúrverndarnefnd Þingeyjasýslna. Sú vinna hefur miðað að því að almenningur, hagsmunaaðilar, félagasamtök og aðrir hafi haft tækifæri til að koma að athugasemdum um fyrirhugaða landnotkun.  Áætlunin var unnin sem  svæðisskiplag sveitarfélaganna fjögurra með hliðsjón af lögum um umhverfismat áætlana og var því í henni m.a ítarleg umhverfisskýrsla.   Áætlunin var auglýst og kynnt með fyrir­skrifuðum hætti, fjallað var um innsendar athugasemdir að því loknu, áætlunin staðfest í viðkomandi sveitar­stjórnum, afgreidd formlega af Skipulagsstofnun og loks staðfest af Umhverfis­ráðherra þann 16. 1. 2008 sem svæðisskipulag háhitasvæða Þingeyjasveita 2007 - 2025.  Efnisþættir úr áætluninni hafa í framhaldinu verið teknir upp í deili- og aðalskipulög sveitarfélaganna, eins og við hefur átt, og á þeim hefur skipulagsvinna háhita­svæðanna byggt.  Skipulögin eru m.a byggð á gildandi raforkulögum, kerfisáætlun og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku staðfestri af Alþingi. Sveitarfélögunum er skylt að samræma skipulagsáætlanir við kerfisáætlun og tryggja að skipulagsákvarðanir hindri ekki framgang verkefna sem eru í þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar.

Á vordögum bárust sveitarfélögunum þremur umsóknir frá Landsneti hf. um leyfi til lagningar flutningsmannsvirkja til að tengja Þeistareykjavirkjun með háspennulínum við iðnaðarsvæðið á Bakka og við Kröfluvirkjun og þar með við byggðalínuna.  Sveitarfélögin hafa öll orðið við beiðni Landsnets hf. um útgáfu framkvæmdaleyfis (með ýmsum skilyrðum), enda liggja fyrir ítarlegar umhverfismatsskýrslur framkvæmdaaðila í samræmi við lög nr. 106/2000 og álitsgerðir umsagnaraðila um þær.  Allt var þetta gert í samræmi við gildandi lög á hverjum tíma.  Fyrirhugað lagnastæði háspennulína er í samræmi við gildandi aðalskipulög sveitarfélaganna allra og sérstaks deiliskipulags fyrir Þeistareykjasvæðið.  

Framkvæmdir við línulagnir á grundvelli leyfanna hófust þegar í vor, en aðrir þættir í uppbyggingaráætlunum í tengslum við iðnaðarsvæði á Bakka við Húsavík eru langt komnir.  Má þar nefna byggingu Þeistareykjavirkjunar, verksmiðjuhúsa á Bakka, hafnar- og jarðgangagerðar á Húsavík, auk fjölda afleiddra verkþátta.  Allar þessar framkvæmdir hafa haft mjög jákvæð áhrif á atvinnustigið á svæðinu og aukið fólki bjartsýni á að í framtíðinni geti það fundið störf í hátækiiðnaði á svæðinu, en á slíkt hefur mjög skort. 

Ástandið nú virðist að einhverju leyti vera tilkomið vegna stirðleika í samskiptum framkvæmdaaðila og náttúruverndarsamtaka, sem verður að harma. Sveitarstjórnir telja að lærdóm megi draga af stöðu mála, m.a. að mikilvægt sé að hagsmunaaðilar, félagasamtök og framkvæmdaaðilar taki þátt í ferli skipulags- og umhverfismála á grunni gagnkvæmrar virðingar fyrir sjónarmiðum hvers annars. Jafnframt að betur verði gætt að því að ný löggjöf skapi ekki óvissu um þá vinnu sem felst í fyrra ferli skipulags- og umhverfismála. 

Hins vegar eru sveitarstjórnirnar sammála um að við þetta ástand verði ekki búið og fara þess á leit við ríkisstjórn og/eða Alþingi að gripið verði til viðeigandi ráðstafanna til að leysa þann hnút sem upp er kominn, enda verði framfylgt stefnu hvers sveitarfélags um landnotkun,

samkvæmt gildandi skipulagsáætlunum, sem koma fram í framkvæmdaleyfum útgefnum af sveitarfélögunum.

Ragnar Bjarnason vék af fundi vegna vanhæfis.

Til kynningar:

a)      Fundargerð 842. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga 

b)     Fundargerð 185. fundar HNE

c)      Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 2016

d)     Fundargerð 25. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga

e)      Ársreikningur og fjárhagsáætlun Samtaka orkusveitarfélaga

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:12