196. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn

11.08.2016

196. fundur

sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar

haldinn í Kjarna fimmtudaginn 11. ágúst 2016 


Fundinn sátu:

Arnór Benónýsson, Margrét Bjarnadóttir, Ásvaldur Ævar Þormóðsson, Árni Pétur Hilmarsson, Nanna Þórhallsdóttir í forföllum Heiðu Guðmundsdóttur, Ragnar Bjarnason og Sigurður Hlynur Snæbjörnsson.

Að auki sat fundinn Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.


 

Oddviti setti fund. 

Dagskrá:

1.      Erindi frá Sparisjóður Suður-Þingeyinga
2.      Drög að samningi um styrkveitingu til uppbyggingar ljósleiðaranets í Þingeyjarsveit
3.      Úrskurður frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál nr. 632/2016
4.      Kærur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála
5.      Endurnýjun á rekstrarleyfi – Fosshóll
6.      Nýtt rekstrarleyfi – Hvítafell
7.      Drög að lokaskýrslu verkefnastjórnar 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar

 

1.      Erindi frá Sparisjóði Suður-Þingeyinga

Tekið fyrir erindi frá Ara Teitssyni, f.h. stjórnar Sparisjóðs- Suður-Þingeyinga dags. 29. júní s.l. þar sem óskað er eftir því að Þingeyjarsveit taki þátt í stofnfjáraukningu sparisjóðsins. Á aðalfundi Sparisjóðs Suður- Þingeyinga sem haldinn var 2. maí s.l. var samþykkt að auka stofnfé sjóðsins um allt að 140 milljónir króna. Áformað er að selja a.m.k. helming þess stofnfjár til nýrra stofnfjárhafa. 

Sveitarstjórn felur sveitarstjóra og oddvita að vinna málið áfram til afgreiðslu á næsta fundi sveitarstjórnar           

 

2.      Drög að samningi um styrkveitingu til uppbyggingar ljósleiðaranets í Þingeyjarsveit

Lögð fram drög að samningi milli Þingeyjarsveitar og Tengis hf. um styrkveitingu til uppbyggingar ljósleiðaranets í Þingeyjasveit. Margrét vék af fundi vegna vanhæfis.

Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi drög og felur sveitarstjóra að ganga til samninga við Tengi hf. á grundvelli draganna.

 

3.      Úrskurður frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál nr. 632/2016

Úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingarmál nr. 632/2016 í máli nr. ÚNU15060002 lagður fram til kynningar. Með erindi dags. 10. júní 2015 kærði Ásta Svavarsdóttir synjun Þingeyjarsveitar á aðgangi að starfslokasamningi sveitarfélagsins við Hörpu Þorbjörgu Hólmgrímsdóttur fráfarandi skólastjóra Þingeyjarskóla.

Úrskurðaorð eru eftirfarandi:

„Þingeyjarsveit ber að afhenda kæranda, Ástu Svavarsdóttur, starfslokasamning sem gerður var af Þingeyjarsveit við Hörpu Þorbjörgu Hólmgrímsdóttur fráfarandi skólastjóra Þingeyjarskóla 25. febrúar 2015.“

Sveitarstjórn unir úrskurðinum og sveitarstjóri hefur nú þegar afhent viðkomandi umrædd gögn.

 

4.      Kærur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála

Lagðar fram til kynningar tvær kærur sem hafa borist úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júlí s.l. þar sem annars vegar er kærð útgáfa framkvæmdaleyfis fyrir framkvæmdinni Kröflulínu 4 og hins vegar útgáfa framkvæmdaleyfis fyrir framkvæmdinni Þeistareykjalínu 1. Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands (kærandi) kærir ofangreindar ákvarðanir sveitarstjórnar og krefst stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða. Ekki liggur fyrir niðurstaða frá úrskurðarnefndinni.

Ragnar Bjarnason vék af fundinum vegna vanhæfis.  

                                                                                                                

5.      Endurnýjun á rekstrarleyfi – Fosshóll

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 28. júlí s.l. þar sem Gestur Helgason sækir um endurnýjun á rekstrarleyfi til sölu gistingar og veitingu veitinga fyrir Fosshól ehf. í Þingeyjarsveit.  

 

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við endurnýjun rekstrarleyfisins fyrir sitt leyti. 

 

6.      Nýtt rekstrarleyfi – Hvítafell

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 23. júní s.l.  þar sem Kristjana Kristjánsdóttir sækir um nýtt rekstrarleyfi til sölu gistinga í Hvítafelli í Þingeyjarsveit. Sveitarstjórn afgreiddi erindið milli funda í tölvupósti þann 5. júlí s.l. og gerði ekki athugasemd við nýtt rekstrarleyfi fyrir sitt leyti.

Sveitarstjórn staðfestir afgreiðslu erindisins.

 

7.      Drög að lokaskýrslu verkefnastjórnar 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar

Sveitarstjórn samþykkti í tölvupósti milli funda þann 2. ágúst s.l. og sendi frá athugasemd við drög að lokaskýrslu verkefnisstjórnar 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar:

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar lýsir vonbrigðum sínum með að ekki hafi verið sinnt öllum lögbundum þáttum í vinnu verkefnisstjórnar áður en lagt er til að Skjálfandafljót verði sett í verndarflokk. Þrátt fyrir það sem fram kemur í kafla 9.4.2. í drögum að lokaskýrslu verkefnisstjórnar verður ekki séð að  lagafyrirmælum í 4. mgr. 3. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun sé fullnægt en þar er skýrt kveðið á um að það ber að leggja mat á efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif. 

Fram kemur í drögunum að faghópur nr. 3 sem fjalla á um efnahagsleg og samfélagsleg áhrif og faghópur nr. 4 sem á að fjalla um þjóðhagsleg áhrif telja sig skorta tíma til að vinna frekar að upplýsingaöflun og rannsóknum til þess að geta skilað niðurstöðum sínum.

Í greinargerð faghóps 3 í drögum að lokaskýrslu verkefnisstjórnar er greint frá íbúafundum í sveitarfélögum við neðri hluta Þjórsár, í Skaftárhreppi og í Skagafirði og lagt út frá þeim.

Ekki er að finna í fundargerðum faghóps 3 rökstuðning fyrir því hvers vegna ekki var haldinn sambærilegur fundur eða fundir með íbúum Þingeyjarsveitar og/eða landeigendum við Skjálfandafljót í þessu ferli og getum við ekki sætt okkur við þessa málsmeðferð.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar krefst þess að verkefnisstjórnin leggi ekki fram lokaskýrslu sína fyrr en öllum þáttum verkefnavinnunnar er lokið og lýsir sig reiðubúna til samstarfs til að svo megi verða.

Mikilvægt er að vinnubrögð verkefnisstjórnar séu fagleg og gagnsæ og tryggi að fulls jafnræðis sé gætt áður en tillögur hennar eru lagðar fram.

Ragnar Bjarnason tók ekki þátt í  afgreiðslunni vegna vanhæfis. Hlynur Snæbjörnsson fulltrúi T lista lagði fram eftirfarandi bókun: 

„Ég greiði atkvæði gegn þessari umsögn enda var það ljóst að ekki þurfti að eyða tíma og peningum í að láta meta samfélagsleg og efnahagsleg áhrif þegar búið var að meta fljótið sjálft of dýrmætt til að virkja það.

Nær væri að við íbúar á svæðinu fögnuðum þessari friðun og horfðum til framtíðar enda getum við nú vonandi treyst því að Skjálfandafljót verði áfram óskaddað.“

Sveitarstjórn staðfestir ofangreinda afgreiðslu.    

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14:25

Til kynningar:

a)      Bréf frá Innanríkisráðuneytinu – Bárðardalsvegur vestari nr. 842