193. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn

08.06.2016

193. fundur

Fundargerð
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar
8.06.2016


193. fundur
sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar
haldinn í Kjarna miðvikudaginn 8. júní kl. 17:00 


Fundinn sátu:

Arnór Benónýsson, Margrét Bjarnadóttir, Ásvaldur Ævar Þormóðsson, Árni Pétur Hilmarsson, Heiða Guðmundsdóttir, Ragnar Bjarnason og Sigurður Hlynur Snæbjörnsson.

Að auki sat fundinn Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

Oddviti setti fund. Hann óskaði eftir að bæta á dagskrá undir 2. lið; Aðalfundarboð Dvalarheimilis aldraðar sf. og undir 3. lið; Staða framkvæmdaleyfis Kröflulínu 4. Aðrir liðir færast neðar á dagskrá sem því nemur.

Samþykkt samhljóða.

Dagskrá:

  1. Nýtt rekstrarleyfi – Hólmavað
  2. Aðalfundarboð Dvalarheimilis aldraðra sf.
  3. Staða framkvæmdarleyfis Kröflulínu 4
  4. Fundargerð Fræðslunefndar frá 30.05.2016
  5. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða – samningur um styrk
  6. Bárðardalsvegur vestari nr. 842
  7. Ljósleiðaratenging í Þingeyjarsveit – tilboð
  8. Íbúafundir

1. Nýtt rekstrarleyfi – Hólmavað

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 2. júní s.l. þar sem Benedikt Kristjánsson sækir um nýtt rekstrarleyfi til sölu gistingar á Hólmavaði í Þingeyjarsveit.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við nýtt rekstrarleyfi fyrir sitt leyti. 

2. Aðalfundarboð Dvalarheimilis aldraðra sf.

Lagt fram aðalfundarboð Dvalarheimilis aldraðra sf. sem haldinn verður þann 22. júní n.k. í húsnæði félagsins, Miðhvammi á Húsavík.

Samþykkt að sveitarstjóri fari með umboð Þingeyjarsveitar á fundinum.

3. Staða framkvæmdarleyfis Kröflulínu 4

Ragnar Bjarnason vék af fundi undir þessum lið vegna vanhæfis.

Fyrir liggur álit lögmanns, sem skilað hefur umsögn til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir Þingeyjarsveit, að ákvörðun Þingeyjarsveitar geti verið ógildanleg vegna þess galla á málsmeðferð að ekki hafi verið gerð sérstök bókun um framkvæmdaleyfisumsókn í Skipulags- og umhverfisnefnd. Um sé að ræða formgalla, sem bæta þurfi úr, þótt ljóst sé að væntanleg framkvæmd hafi fengið almenna umfjöllun hjá Skipulags- og umhverfisnefnd á fyrri stigum.  

Sveitarstjórn afturkallar samþykkt sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir Kröflulínu 4, dags. 28. apríl 2016, samanber 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Afturköllunin er gerð þar sem ekki liggur fyrir bókun Skipulags- og umhverfisnefndar um umsókn um framkvæmdaleyfið. Jafnframt er lagt fyrir nefndina að taka málið til umfjöllunar og afgreiðslu.

4. Fundargerð Fræðslunefndar frá 30.05.2016

Lögð fram fundargerð Fræðslunefndar frá 30. maí s.l. ásamt tillögum að verklagsreglum fyrir leikskóladeildir Þingeyjarskóla. Margrét gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í sex liðum og verklagsreglunum.

Sveitarstjórn samþykkir framlagðar verklagsreglur fyrir leikskóladeildir Þingeyjarskóla og starfestir fundargerðina.   

5. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða – samningur um styrk

Lagður fram samningur frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða um styrk vegna uppbyggingar og endurbóta við Goðafoss. Styrkurinn er að fjárhæð 26,8 millj.kr.

Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi samning og felur sveitarstjóra að skrifa undir hann.

6. Bárðardalsvegur vestari nr. 842

Bárðardalsvegur vestari er í mjög slæmu ástandi, þar stendur grjótið í burðalaginu upp úr slitlaginu á köflum en samkvæmt upplýsingum frá Gunnari Bóassyni verkstjóra Vegagerðarinnar á Húsavík stendur einungis til að hefla og salta þann veg en engin áform munu vera uppi um að bæta efni í slitlagið þar.

Sveitarstjórn samþykkir eftirfarandi ályktun vegna slæms ástands Bárðardalsvegar vestari.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar skorar á innanríkisráðherra, Samgöngunefnd Alþingis og þingmenn Norðausturkjördæmis að sjá til þess að fjármagni verði veitt til þess að bæta slitlag

á Bárðardalsvegi vestari nr. 842 hið fyrsta og fyrirbyggja þannig að allur leir hreinsist af veginum með tilheyrandi slysahættu og eignatjóni.

Á næstu vikum er fyrirsjáanlegt að umferð mun stóraukast í Bárðardal með auknum ferðamannastraumi, sérstaklega í kjölfar opnunar Sprengisandsleiðar á næstunni.

7. Ljósleiðaratenging í Þingeyjarsveit – tilboð

Þann 31. maí s.l. voru opnuð tilboð í ljósleiðaratenginu í Þingeyjarsveit. Tilboð bárust frá tveimur bjóðendum í leið B, frá Fjarskiptum hf. (Vodafone) að upphæð 204.250.000 og frá Tengi hf. að upphæð 180.340.000. Ekkert tilboð barst í leið A. Samkvæmt mati Ríkiskaupa er tilboð Tengis hf. gilt og uppfyllir hæfiskröfur.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að taka tilboði Tengis hf. og felur sveitarstjóra ásamt Árna Pétri Hilmarssyni og Ragnari Bjarnasyni að ganga til samninga við fyrirtækið á grundvelli tilboðsins. Samþykkt að leysa upp starfshóp um ljósleiðaralagningu sem sveitarstjórn skipaði á fundi sínum þann 4.júní 2015 til þess að vinna að undirbúningi útboðs verkefnisins. Sveitarstjórn þakkar starfshópnum gott starf.

Margrét Bjarnadóttir vék af fundi við afgreiðslu þessa liðar vegna vanhæfis.

8. Íbúafundir

Íbúafundir um kynningar á ljósleiðaralagningu í Þingeyjarsveit teknir til umræðu.

Samþykkt að halda fjóra íbúafundi fyrir júnílok vegna fyrirhugaðrar ljósleiðaralagningar. Fundartími og staðsetning auglýst í næstu viku.

Til kynningar:

a)      Fundargerð 280. fundar stjórnar Eyþings

b)     Fundargerð 839. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:04