1.fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags

10.06.2022

1.fundur

Sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags

Fundarmenn

Anna Bragadóttir, varamaður
Árni Pétur Hilmarsson
Eyþór Kári Ingólfsson
Gerður Sigtryggsdóttir
Helgi Héðinsson
Jóna Björg Hlöðversdóttir
Knútur Emil Jónasson
Ragnhildur Hólm Sigurðardóttir
Sigfús Haraldur Bóasson, varamaður

Starfsmenn

Tryggvi Þórhallsson lögfræðingur

Fundargerð ritaði: Tryggvi Þórhallsson

Árni Pétur Hilmarsson sem setti fundinn og gerði grein fyrir dagskrárbreytingartillögu sem borist hafði frá meirihluta sveitarstjórnar.

Gerður Sigtryggsdóttir gerði grein fyrir tillögunni sem felur í sér að tveimur málum verði bætt á dagskrá fundarins með afbrigðum:

  1. Prókúruumboð. Tillagan felur í sér, með vísan til 4. mgr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga að sveitarstjórn veiti Gísla Sigurðssyni, skrifstofustjóra, prókúruumboð fyrir hið nýja sveitarfélag þar til framkvæmdastjórn hefur tekið til starfa.

  2. Yfirdráttarheimild. Tillagan felur sér að endurnýja gildandi heimild fyrir skrifstofur sveitarfélaganna, í nafni nýs sveitarfélags, til að mæta sveiflum í greiðsluflæði í daglegri fjármálastjórnun sveitarfélagsins. Bókun: Sveitarstjórn samþykkir að veita Gísla Sigurðssyni skrifstofustjóra heimild til að sækja yfirdráttarheimild hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga, allt að 50 milljónir króna og gildi heimildin í allt að 6 mánuði.

Gengið var til atkvæða um dagskrártillöguna.

Dagskártillagan var samþykkt samhljóða, Tvö mál bætast við dagskrá sem liðir númer 5 og 6.

Gengið var til dagskrár.

1. Kjör oddvita og varaoddvita.

 
Árni Pétur Hilmarsson lagði til að kosningin yrði leynileg.
Engar athugasemdir við það gerðar og fór kjörið fram. Niðurstöður þess voru lesnar.

Gerður Sigtryggsdóttir lýstur réttkjörinn oddviti og tók hún við stjórn fundarins.

Gerður Sigtryggsdóttir stýrði kjöri varaoddvita. Óskað var eftir því að kosningin yrði leynileg og fór kjörið þannig fram. Niðurstöður þess voru lesnar.

Knútur Jónasson lýstur réttkjörinn varaoddviti.

2. Gildandi samþykktir sameinaðs sveitarfélags.

Eyþór lagði fram tillögu til kynningar varðandi breytingar á gildandi samþykktum. Breytingarnar fela í sér að fallið verði frá stjórnsýslutilraun skv. 132. gr. sveitarstjórnarlaga og horfið verði til hefðbundins stjórnskipulags. Tillagan er lögð fram til kynningar og verður tekin til formlegrar umræðu á næsta fundi sveitarstjórnar sem verði þá fyrri umræða.

Helgi Héðinsson óskaði eftir að eftirfarandi yrði fært til bókar:

Ánægjulegur tónn var sleginn í kosningabaráttu fyrir þessar fyrstu kosningar í sameinuðu sveitarfélagi Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Þar var áhersla beggja lista einfaldlega á að gera gott, enn betra.

Öllum má vera ljóst að hlutverk sveitarstjórna er að þyngjast. Það stafar af auknum skyldum vegna tilfærslu verkefna frá ríkinu, auknum kröfum um góða stjórnarhætti sem fylgt er eftir með eftirliti og skýrari lagaramma m.a. um fjármál sveitarfélaga. Þá gera íbúar auknar kröfur um skilvirka þjónustu og framúrskarandi umhverfi fyrir börn og fjölskyldur. Í því ljósi hefur nýtt sveitarfélag verið undirbúið í víðtæku samráði íbúa, kjörinna fulltrúa og starfsmanna sveitarfélagsins. Undirbúningur sameiningar sveitarfélaganna hefur gengið vel, en hann hefur staðið í rúm þrjú ár og jafnvel enn lengur ef litið er til góðs samstarfs liðinn áratug. Það er því stórundarlegt að horfa upp á fulltrúa E-lista, gera það að sína fyrsta verki að kúvenda og rífa niður það sem gert hefur verið á liðnum árum. Að því er virðist án samráðs við starfsfólk sveitarfélagsins og án þess að kynna sér hvað býr að baki því stjórnskipulagi sem staðfest var af innviðaráðuneytinu þann 3. mars síðastliðinn. Stjórnskipulagið var mótað með það að markmiði að nýtt sveitarfélag færi hratt og vel af stað og væri undirbúið fyrir krefjandi áskoranir framtíðar með skilvirkni og hagkvæmni að leiðarljósi.

Á fundi sem haldinn var að frumkvæði undirbúningsstjórnar um sameiningu sveitarfélaganna ásamt kjörnum fulltrúum þann 1. júní var lögð þung áhersla á að stjórnskipulagið sem þegar er í gildi stæði áfram tímabundið og yrði endurskoðað að ári liðnu. Tilraunaákvæðin tvö, annars vegar um stjórnskipulagið og hins vegar um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn gilda í 8 ár, nema veigamiklar ástæður séu til að hverfa frá þeim. Þá fylgir töluvert umstang afturförinni sem nú er boðuð, ef hún er yfirleitt fær. Á sama tíma hefur E-lista ekki lánast að halda reynslumestu starfsmönnum sveitarfélaganna og við blasir áskorun um að halda starfsemi hins nýja sveitarfélags í lagi til skemmri og lengri tíma.

Málið var rætt nánar á óformlegum fundi sem haldinn var í kjölfarið, síðdegis sama dag. Þar var áherslan sú sama og virtist sæta nokkrum skilningi, enda sjónarmið e-lista óútfærð, óraunhæf og mun kosta mikla fjármuni umfram það að halda sjó að sinni. Niðurstaða fundarins var að skipa 2-3 fulltrúa af hvorum lista til nánara samtals um samstarfsflöt. Sá fundur var haldinn síðdegis föstudaginn 3. júní. Fundurinn sá var stuttur, enda boðaði talsmaður e-lista strax afdráttarlausa afstöðu þeirra um að halda til streitu illa ígrunduðu kosningaloforði, án viðleitni til að koma til móts við sjónarmið K-lista og undirbúningsstjórnar. Það þýðir í stuttu máli að verið er að gera lítið úr vinnu síðustu ára og stefna sveitarfélaginu í vegferð sem er ekki vænleg til framdráttar. Hvað varð um að gera gott enn betra? Þessa vegferð geta fulltrúar k-lista ekki stutt og munu ekki styðja, en það var talsmanni E-lista gert ljóst í tölvupósti að kvöldi þann 5. júní, eftir fund listans í heild.

Knútur og Gerður veittu andsvör.

Tillögu varðandi breytingar á gildandi samþykktum vísað til umræðu á næsta fundi sveitarstjórnar.

3. Heiti hins sameinaða sveitarfélags

Gerður gerði grein fyrir þeirri tillögu að heiti nýs sveitarfélags verði Þingeyjarsveit.

Sveitarstjórn samþykkti með níu samhljóða atkvæðum að heiti nýs sveitarfélags verði Þingeyjarsveit.

4. Sleppingar á Austurfjöllum sbr. erindi umhverfisfulltrúa

Lögð fram skýrsla skoðunarmanna ásamt tillögu að sleppingaráætlun.

Vegna kosninga og fyrsta sveitarstjórnarfundar ekki fyrr en 10. júní, hefur staðfesting áætlunarinnar ekki verið gerð en þegar er byrjað að vinna eftir henni samkvæmt óformlegu samþykki sveitarstjórnar. Bændur sem nýta Austurafréttinn og eru jafnframt í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu skulu haga sleppingum skv. áætlun hvers árs eða eiga á hættu að réttur til aðildar í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu falli niður skv. Búvörulögum nr. 99/1993 og reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu nr. 1160/2013.

Lagt er til staðfesta samþykki sveitarstjóramanna á tillaga skoðunarmanna um áætlun sleppinga.

Varðandi meint brot á áætlun. þá er því almennt beint til bænda að fara að tilmælum um sleppingar samanber skýringar hér að ofan.

5. Prókúruumboð

Sveitarstjórn samþykkir með vísan til 4. mgr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga að veita Gísla Sigurðssyni, skrifstofustjóra, prókúruumboð fyrir hið nýja sveitarfélag þar til framkvæmdastjórn hefur tekið til starfa.

6. Yfirdráttarheimild

Sveitarstjórn samþykkir að veita Gísla Sigurðssyni skrifstofustjóra heimild til að sækja yfirdráttarheimild hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga, allt að 50 milljónir króna og gildi heimildin í allt að 6 mánuði.

Fundi var slitið kl. 13:38.