16. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar 2022-2026

19.01.2023

16. fundur

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar 2022-2026

haldinn í Breiðamýri fimmtudaginn 19. janúar kl. 13:00

Fundarmenn

Gerður Sigtryggsdóttir

Eygló Sófusdóttir

Knútur Emil Jónasson

Halldór Þorlákur Sigurðsson

Jóna Björg Hlöðversdóttir

Árni Pétur Hilmarsson

Eyþór Kári Ingólfsson

Arnór Benónýsson

Úlla Árdal 

Starfsmenn

Jón Hrói Finnsson

Fundargerð ritaði: Jón Hrói Finnsson, sveitarstjóri

Í upphafi fundar óskaði oddviti eftir samþykki fundarmanna fyrir því að taka á dagskrá mál nr. 2301012 Starfsmannamál. Samþykkt samhljóða.

Dagskrá:

1.

Samvinna á unglingastigi - 2208016

 

Arnór og Eygló kynna tillögur starfshóps um útfærslu aukins samstarfs Reykjahlíðarskóla og Þingeyjarskóla á unglingastigi.


Verkefnið er til komið vegna erindis frá foreldrum nemenda á unglingastigi í Reykjahlíðarskóla þann 17. nóvember 2023. Þau lýsa yfir áhyggjum sínum á félagslegri stöðu barna á unglingastigi en þar eru nemendurnir fimm, fjögur í 8. bekk og eitt í 10. bekk. Ósk þeirra var að auka samstarf á milli Þingeyjarskóla og Reykjahlíðarskóla.


Skipaður var starfshópur á síðasta fundi sveitarstjórnar þann 12.01.2023. Í starfshópnum sitja, skólastjórar Þingeyjarskóla og Reykjahlíðarskóla, umsjónarkennari unglingastigs í Reykjahlíðarskóla, teymisstjóri unglingastigs í Þingeyjarskóla, Eygló Sófusdóttir og Arnór Benónýsson fyrir hönd sveitarstjórnar. Jóni Hrói Finnsson, sveitarstjóri starfaði með hópnum.


Áður höfðu skólastjórnendur, umsjónarkennari unglingastigs í Reykjahlíðarskóla og teymisstjóri unglingastigs í Þingeyjarskóla fundað og komið með hugmyndir og útfærslu að auknu samstarfi sem var lagt fyrir foreldra og nemendur Reykjarhlíðarskóla. Samstaða var meðal forelda og unglinga Reykjahlíðarskóla um að besta lausnin fyrir nemendur væri að fara í Þingeyjarskóla 4 daga í viku en vera í Reykjahlíðarskóla á föstudögum. Nemendur og umsjónarkennari þeirra ganga alfarið inn í kennslufyrirkomulag Þingeyjarskóla og verða hluti af þeirra nemenda- og starfshópi.
Fundur var haldinn með foreldrum og nemendum á unglingastigi beggja skólanna í Þingeyjarskóla þann 18.01.2023. Þar fór starfshópurinn yfir stöðuna á verkefninu og skólastjóri Þingeyjarskóla, ásamt kennarateymi unglingastigs kynnti kennslufyrirkomulag. Samstaða og jákvætt viðhorf var á meðal fundargesta til tilraunaverkefnisins.


Helsti kostnaður tilraunaverkefnis er akstur og aukin vinna hjá kennsluteymi unglingastigs Þingeyjarskóla við að samræma kennslu og áætlanir.
Tillaga starfshópsins felur í sér að kennt verður fjóra daga í viku í Þingeyjarskóla og að umsjónarkennari unglingastigs Reykjahlíðarskóla verður hluti af kennsluteyminu í Þingeyjarskóla á meðan á tilrauninni stendur. Kostnaður við verkefnið mun liggja fyrir á næsta fundi sveitarstjórnar og lagt er til að honum verði mætt með sameiningarframlögum úr Jöfnunarsjóði sem ekki hefur verið ráðstafað. Lagt er til að starfshópurinn hittist 3 sinnum yfir tímabilið, í byrjun mars, miðjan apríl og loka annar til fari yfir stöðu mála. Í vor verði svo gerð könnun á ánægju nemenda, foreldra og kennara á samstarfinu.


Í lokin viljum við þakka starfsfólki Þingeyjarskóla og Reykjahlíðarskóla fyrir þeirra framtak og gott samstarf.

 

Til máls tóku: Arnór, Eygló og Knútur.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagða tillögu starfshópsins og að kostnaði við verkefnið verði mætt með sameiningarframlögum úr Jöfnunarsjóði.
Sveitarstjórn leggur áherslu á að um tilraunaverkefni er að ræða og að halda þarf vel utan um reynsluna og árangurinn af því.

 

Samþykkt

 

   

2.

Sýslumaðurinn á Norðurlandi Eystra - Umsagnarbeiðni tækifærisleyfi Breiðamýri - 2301007

 

Tekið fyrir erindi Sýslumannsembættisins á Norðurlandi eystra, dagsett 13. janúar 2023, þar sem óskað er umsagnar um umsókn Borgars Þórarinssonar, fyrir hönd Þingeyjarsveitar, um tækifærisleyfi vegna þorrablóts í Þinghúsinu Breiðumýri 28. janúar n.k.

 

Enginn tók til máls.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við útgáfu leyfisins.
Samþykkt samhljóða.

 

Samþykkt

 

   

3.

Gjaldskrá Þingeyjarsveitar 2023 - 2212015

 

Áður á dagskrá 15. fundar sveitarstjórnar þann 12. janúar sl.
Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir sorphirðu og -förgun samkvæmt 5. mgr. 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.
Lagt er til að gjaldskráin gildi þar til þar til fjögurra tunnu sorpkerfi tekur gildi. Jafnframt er lagt til að skipaður verði þriggja manna starfshópur sem fær það hlutverk að vinna að endurskoðun samnings við þjónustuaðila, gerð nýrrar gjaldskrár og undirbúa kynningarefni fyrir íbúa á nýju fyrirkomulagi úrgangsmála.

 

Til máls tóku: Knútur, Árni Pétur, Jóna Björg og Gerður.
Sveitarstjórn samþykkir framlagða gjaldskrá um sorphirðu og förgun. Sorphirðugjald heimila verði kr. 61.971 og sorphirðugjald frístundahúsa verði kr. 34.084.
Sveitarstjórn samþykkir jafnframt að skipa starfshóp til að vinna að endurskoðun samnings við þjónustuaðila, gerð nýrrar gjaldskrár og undirbúa kynningarefni fyrir íbúa á nýju fyrirkomulagi úrgangsmála. Starfshópurinn skili áfangaskýrslu 25. apríl nk. Þá er samþykkt að hópinn skipi Anna Bragadóttir, formaður, Guðrún Sigríður Tryggvadóttir og Jóna Björg Hlöðversdóttir.

 

Samþykkt

 

   

4.

Bygging 60 rýma hjúkrunarheimilis á Húsavík - 2209005

 

Lögð fram til afgreiðslu sveitarstjórnar drög að viðauka við verkkaupasamning VK-20036 frá júní 2020 sbr. minnisblað sveitarstjóra Norðurþings dags. 08.01.2023.

Með fundarboði sveitarstjórnar fylgdi fundargerð fulltrúa aðildarsveitarfélaganna um byggingu hjúkrunarheimilis frá fundi 2. janúar 2023. Einnig minnisblað sveitarstjóra Norðurþings dagsett 8.janúar 2023 og verkkaupasamningur um byggingu hjúkrunarheimilis VK-20036 frá júní 2020.

 

Til máls tóku: Arnór, Árni Pétur, Jóna Björg
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrir sitt leyti fyrirliggjandi tillögu að viðauka við verkkaupasamning VK-20036 frá júní 2020.
Sveitarstjórn ítrekar mikilvægi þess að samningsaðilar óski eftir leyfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins fyrir útboði á verklegri framkvæmd við Hjúkrunarheimilið á Húsavík sem fyrst, byggt á uppfærðum stærðar- og kostnaðartölum í viðauka við verkkaupasamning.

 

   

5.

BH Bygg ehf.- Íbúðir á lóðinni Klappahrauni 9 - 2301003

 

Lögð fram skilalýsing fyrirhugaðra íbúða við Klapparhraun 9 í Mývatnssveit. Knútur gerði grein fyrir viðræðum við framkvæmdaaðila.

 

Til máls tóku: Knútur, Árni Pétur, Gerður, Jóna Björg, Úlla og Jón Hrói.
Knúti og Árna Pétri falið að vinna áfram að málinu.
Samþykkt með átta atkvæðum. Halldór sat hjá.

 

Samþykkt

 

   

6.

Starfsmannamál - 2301012

 

Lagt fram uppsagnarbréf sveitarstjóra ásamt drögum að samkomulagi um starfslok.

 

Jón Hrói vék af fundi og Eygló Sófusdóttir tók við fundarritun. Til máls tóku: Arnór, Jóna Björg, Knútur, Árni Pétur, Gerður, Eygló, Eyþór, Úlla og Halldór.

Sveitarstjóri leggur fyrir sveitarstjórn uppsagnarbréf dagsett 19.01.2023. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða uppsögn sveitarstjóra og felur oddvita að ganga frá starfslokum hans.

Sveitarstjórn þakkar Jóni Hróa Finnssyni fyrir samstarfið og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að oddviti taki tímabundið við starfi sveitarstjóra þar til nýr einstaklingur hefur verið ráðin í starfið.
Jafnframt fer oddviti með prókúru sveitarfélagsins.

 

Samþykkt

 

   

Fundi slitið kl. 14:45.