3. fundur

Fundargerð

Skipulagsnefnd

07.09.2022

3. fundur

Skipulagsnefnd

haldinn í Kjarna miðvikudaginn 07. september kl. 09:30

Fundarmenn

Agnes Einarsdóttir, Einar Örn Kristjánsson var fjarverandi en í staðinn sat fundinn Ingi Yngvason, Helgi Héðinsson, Knútur Emil Jónasson og Jóna Björg Hlöðversdóttir

Starfsmenn

Atli Steinn Sveinbjörnsson og Helga Sveinbjörnsdóttir.

Fundargerð ritaði: Atli Steinn Sveinbjörnsson

1.

Efnistaka í Garði - Breyting á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011 - 2023 - 2202014

 

Tekin fyrir að nýju tillaga dags. 9. maí 2022 frá Teiknistofu Arkitekta að breytingu á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011 - 2023 vegna skilgreiningar efnistökusvæðis að Garði, Mývatnssveit.
Tillagan felur í sér afmörkun 2,4 ha efnistökusvæðis þar sem heimiluð verði efnistaka allt að 49.900 m3. Fyrirhugað efnistökusvæði tekur yfir eldri námu innan skilgreinds athafnasvæðis þar sem áður hefur verið tekið um 19.000 m3 efnis á um 7,8 ha svæði.
Skipulags- og matslýsing var auglýst með umsagnarfresti frá og með 28. febrúar til og með 21. mars 2022. Í skipulags- og matslýsingu var gert ráð fyrir allt að 120.000 m3 efnistöku. Við yfirferð umsagna og greiningu á efnisþörf var fyrirhugað efnistökusvæði minnkað. Sveitarstjórn samþykkti þann 11. maí 2022 að tillagan skyldi auglýst í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að undangenginni matsskyldu ákvörðun Skipulagsstofnunar. Þann 16. júní 2022 barst ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að efnistaka allt að 120.000 m3 efnis skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Tillagan var auglýst í frá og með 21. júní 2022 til og með 2. ágúst 2022. Erindið var síðast tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar þann 24. ágúst s.l. Í auglýsingaferli tillögunnar bárust engar athugasemdir.
Skipulagsnefnd fól skipulagsfulltrúa að óska eftir viðbrögðum umsagnaraðila við tillögunni og lagði til við sveitarstjórn að skipulagsnefnd taki tillöguna fyrir að nýju ef bregðast þarf við þeim athugasemdum sem berast.
Athugasemdir/umsagnir bárust frá eftirtöldum aðilum: Minjastofnun, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruverndarnefnd Þingeyinga og Landgræðslunni.

 

Minjastofnun
Með tölvupósti sendum 23. ágúst 2022 óskaði Atli Steinn Sveinbjörnsson skipulagsfulltrúi eftir umsögn Minjastofnunar Íslands um breytingu á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023. Meðfylgjandi var tillaga að breytingu dagsett 9. maí 2022. Minjastofnun hefur þegar skrifað umsögn um skipulags- og matslýsingu fyrir þessa breytingu dagsett 2. mars 2022. Þar segir: „Í 16. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 segir að skráning fornleifa, húsa og mannvirkja skuli fara fram áður en gengið er frá aðalskipulagi eða deiliskipulagi. Til er fornleifaskráning fyrir svæðið. Hún uppfyllir ekki staðla Minjastofnunar um skráningu en gefur engu að síður góða mynd af stöðunni, en engar fornleifar eru skráðar á framkvæmdasvæðinu og litlar líkur á að þar séu aldursfriðaðar fornleifar en minjavörður mun taka svæðið út þegar snjóa léttir.“Vettvangskönnun minjavarðar fór fram 9. maí og fundust ekki merki um aldursfriðaðar fornleifar á skipulagssvæðinu og hefur Minjastofnun því ekki athugasemdir við breyting á aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023.


Svar skipulagsnefndar
Umsögn krefst ekki efnislegs svars.

Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra
Undirritaður heilbrigðisfulltrui hefur skoðað tillögu að breytingu aðalskipulags Skútustaðahrepps, vegna efnistöku í landi Garðs í Mývatnssveit.
HNE gerir ekki athugasemd við framkomnar tillögur.
Hjálögð er umsögn HNE til skipulagsstofnunar vegna sama máls frá 24.maí 2022, þar koma fram helstu áhersluatriði HNE í þessu máli.

Svar skipulagsnefndar
Tekið verður tillit til fyrri umsagnar Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra við útgáfu framkvæmdaleyfis til efnistöku og gerðar kröfur til verktaka á svæðinu um að vélar og tæki séu í góðu lagi og hafi hlotið skoðun Vinnueftirlits.
Umsögn krefst ekki efnislegs svars.

Umhverfisstofnun
Vísað er til erindis Þingeyjarsveitar dags. 23. ágúst sl. þar sem óskað er umsagnar Umhverfisstofnunar um breytingu á aðalskipulagi Skútustaðahrepps sem felst í því að efnistöka í námu við Garð sem átti að vera allt að 120.000 m3 verður í stað þess 50.000 m3. Um er að ræða frekari efnistöku í gamalli námu. Þarna má sjá hvernig gengið verður frá námunni og er eldri frágangur nokkuð góður. Í fyrri umsögn1 dags. 25. maí sl. um framkvæmdina benti Umhverfisstofnun á að völ er á gríðar miklu efni á Hólasandi, en náman í Garði var talin hentugri vegna minni brennslu jarðefnaeldsneytis vegna nálægðar við Mývatn þar sem ráðgert er að nota efnið. Það er því álit sveitarstjórnar að frekari óafturkræft rask á hrauni væri léttvægari en útblástur vörubíla. Umhverfisstofnun gerir ekki athugasemdir við breytinguna en vill benda sveitarstjórn á að í nágrenni Mývatns virðist svo sem enn sé krafsað í gamla námu í Jarðbaðshólum sem ætti skilyrðislaust að hætta og reyna í stað þess að bæta ásýnd svæðisins. Við nýjan glæsilegan veg að Dimmuborgum er lítil gryfja sem lýti er að. Efnistöku ætti að hætta þarna og mögulega væri hægt að milda ásýndina með að færa frákast sem fellur til í Garði í gryfjuna og setja að stáli. Draga mætti fyrst laust efni úr botninum og þekja með því grófara efni. Mývatn er það fjölsóttur ferðamannastaður að nauðsynlegt er að sýna meiri metnað þegar að ásýnd svæðisins kemur. Bent skal á að hjá verktaka sem vinna mun efni í Garði vinnur vélamaður sem hefur einstakt lag á að móta land að nýju á efnistökusvæðum og ætti að nýta þessa hæfileika sem ekki er öllum gefin til að ganga frá námunni í Jarðbaðshólum

Svar skipulagsnefndar
Skipulagsnefnd leggur sérstaka áherslu á góða umgengni við efnistökusvæði innan sveitarfélagsins og beinir því til sveitarstjórnar að unnið verði að endurheimt eldri efnistökusvæða.
Umsögn krefst ekki efnislegs svars

Náttúrufræðistofnun Íslands
Vísað er til tölvupósts frá skipulagsfulltrúa Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar, dags 23. ágúst 2022, þar sem óskað er eftir umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands um tillögu að breytingu á aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2030, efnisnáma í landi Garðs.
Fyrirhuguð er efnistaka í landi Garðs þar sem nýta á efni á svæði sem hefur að hluta verið raskað með efnistöku, uppgræðslu og öðrum framkvæmdum.
Nýja efnistökusvæðið, 383-E, er 2,4 ha og að hluta til inni á athafnasvæði, auðkennt sem 373-A og er 8,7 ha að stærð. Ráðgert er að vinna um 49 900 m3 af muldu hrauni úr námunni á um 17 200 m2. Fyrir er eldra efnistökusvæði og verður samanlagt flatarmál efnistökusvæðisins tæplega 25 000 m2. Að efnistöku lokinni getur landið nýst sem viðbót við athafnasvæðið. Náttúrufræðistofnun veitti umsögn um skipulags- og matslýsingu vegna þessa máls þann 21. mars 2022. Í umsögninni benti Náttúrufræðistofnun á að Mývatn er ein af náttúruperlum landsins og að um svæðið Mývatn og Laxá gildi sérstök lög um verndun þess (https://www.althingi.is/altext/stjt/2004.097.html). Þá er svæðið Mývatn og Laxá á yfirlitsskrá heimsminja um fyrirhugaðar tilnefningar Íslands á heimsminjaskrá UNESCO (https://heimsminjar.is/index.php?option=com_content&view=article&id=22&Itemid=51). Fyrirhugað efnistökusvæði liggur rétt utan við mörk friðlýsta svæðisins, en er innan grannsvæðis vatnsverndar. Þá er fyrirhugað efnistökusvæði í nútímahrauni sem nýtur sérstakrar verndar skv. náttúruverndarlögum. Það var mat Náttúrufræðistofnunar að forðast ætti að fara í efnistöku í svo mikilli nálægð við verndarsvæði Mývatns og innan vatnsverndarsvæðis. Þá réttlætti rask á yfirborði hraunsins ekki frekari efnisvinnslu. Of mikið væri í húfi að mati Náttúrufræðistofnunar t.d. ef mengunarslys yrði innan svæðisins þar sem grunnt er á grunnvatnið og hraunin lek. Því mæltist Náttúrufræðistofnun til þess að frekar verði leitað að heppilegu efnistökusvæði utan vatnsverndarsvæðis Mývatns og Laxár. Náttúrufræðistofnun hefur kynnt sér skipulagstillöguna og vill koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri: Þó að núverandi tillaga að breytingu á aðalskipulagi geri ráð fyrir talsvert minni efnistöku en skipulags- og matslýsingin gerði (49 900 m3 í stað 120 000 m3) ítrekar Náttúrufræðistofnun það sem fram kom í fyrri umsögn. Gæta þarf sérstaklega vel að öllum mengunarvörnum vegna nálægðar við Mývatn.

Svar skipulagsnefndar
Í vinnu við undirbúning framkvæmda vegna lagningu göngu- og hjólastígs umhverfis Mývatn var litið til þeirra möguleika sem í boði væru til efnistöku og lagt mat á kosti og galla með tilliti til efnisgæða efnistökusvæða, verndargildis Mývatns og rask á hrauni sem nýtur verndar, kostnaðar og losunar gróðurhúsalofttegunda vegna flutnings efnis. Það er mat skipulagsnefndar að þungaflutningar um vatnsbakka Mývatns séu varasamari kostur en efnistaka innan vatnsverndarsvæðis Mývatns, að uppfylltum skilyrðum sem sett verða við útgáfu framkvæmdaleyfis. Nefndin telur landslagsmótun og endurheimt gróðurlendis líkt og átt hefur sér stað í námunda við fyrirhugað efnistökusvæði geta unnið á móti því raski sem efnistakan felur í sér. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu vegna 120.000 m3 efnistöku á svæðinu var það niðurstaða Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind eru í 2 viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana og að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Náttúruverndarnefnd Þingeyinga
Náttúruverndarnefnd Þingeyinga þakkar fyrir að fá að veita umsögn við tillöguna.
Nefndin hefur kynnt sér gögn málsins og gerir eftirfarandi athugasemdir.
Nefndin fagnar því að fallist hafi verið frá fyrri áformum um efnistöku allt að 120.000 m3 og einungis verði um að ræða efnistöku allt að 50.000 m3. Nefndin fagnar því einnig að gerðar verði sérstakar ráðstafanir og sett skilyrði í framkvæmdaleyfi til að koma í veg fyrir mengun grunnvatns innan vatnsverndarsvæðis Mývatns.
Nefndin gerir hinsvegar athugasemdir við að í kafla 6.2 skuli grunnvatn ekki vera talinn upp sem einn af þeim umhverfisþáttum sem geti orðið fyrir áhrifum af efnistökunni og áhrifin á þann þátt því ekki metin. Einnig telur nefndin að sveitarfélagið ætti ekki eingöngu að horfa til markmiða um hagkvæmni og öryggi við val á efnistökustaðum heldur einnig markmiða um náttúruvernd á þessu viðkvæma svæði sem Mývatn og umhverfi þess er. Þó þetta efnistökusvæði stytti vegalengdir fyrir efnisnámið sem ætlað er í hjólastíg sunnan Mývatns, þá telur nefndin að hagsmunir lífríkis Mývatns vegi þyngra. Við hefðum talið æskilegra að þessari efnistöku hefði verði fundinn annar staður utan vatnsverndarsvæðis Mývatns.

Svar skipulagsnefndar
Í vinnu við undirbúning framkvæmda vegna lagningu göngu- og hjólastígs umhverfis Mývatn var litið til þeirra möguleika sem í boði væru til efnistöku og lagt mat á kosti og galla með tilliti til efnisgæða efnistökusvæða, verndargildis Mývatns og rask á hrauni sem nýtur verndar, kostnaðar og losunar gróðurhúsalofttegunda vegna flutnings efnis. Það er mat skipulagsnefndar að þungaflutningar um vatnsbakka Mývatns séu varasamari kostur en efnistaka innan vatnsverndarsvæðis Mývatns, að uppfylltum skilyrðum sem sett verða við útgáfu framkvæmdaleyfis. Nefndin tekur undir að í áhrifamati umhverfisþátta hefði mátt tilgreina áhrif á grunnvatn vegna fyrirhugaðrar efnistöku. Nefndin telur að neikvæð áhrif á grunnvatn megi lágmarka með skilyrðum í framkvæmdaleyfi og starfsleyfi. Þar er lagt til að takmarka dýpt efnistökusvæðisins þannig að 50 cm jarðvegur verði ávallt yfir grunnvatni. Einnig að geymsla olíubirgða og spilliefna tengt efnistöku á svæðinu verði óheimil á og við skilgreint efnistökusvæði sem og geymsla vinnuvéla sem ekki eru í notkun.

Landgræðslan
Landgræðslan vísar í fyrri umsögn.
Svar skipulagsnefndar
Tekið verður tillit til fyrri umsagnar Landgræðslunnar við útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir efnistökunni að skilyrtar verði mótvægisaðgerðir og leitast verði við að lágmarka rask á jarðvegi og gróðri á efnistökusvæðinu eins og kostur er.
Umsögn krefst ekki efnislegs svars.

Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011 - 2023 verði samþykkt í samræmi við 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

Samþykkt

 

   

Fundi slitið kl. 10:00.