113. fundur

Fundargerð

Skipulagsnefnd

17.04.2019

113. fundur

Skipulagsnefnd

haldinn í Kjarna miðvikudaginn 17. apríl kl. 10:00

Fundarmenn

Ásvaldur Ævar Þormóðsson, Sæþór Gunnsteinsson, Nanna Þórhallsdóttir, Hlynur Snæbjörnsson, Sigurlína Tryggvadóttir, Guðjón Vésteinsson og Helga Sveinbjörnsdóttir.

Starfsmenn

Guðjón Vésteinsson skipulagsfulltrúi og Helga Sveinbjörnsdóttir byggingarfulltrúi.

Fundargerð ritaði: Helga Sveinbjörnsdóttir byggingarfulltrúi.

Dagskrá:

1. Endurskoðun Aðalskipulags Þingeyjarsveitar 2010-2022 - 1903011

Bjarni Reykjalín kom inn á fund nefndarinnar og kynnti minnisblað sem hann hefur unnið að varðandi endurskoðun aðalskipulags Þingeyjarsveitar.

Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar Bjarna fyrir vel unnið minnisblað sem mun nýtast vel í endurskoðun aðalskipulagsins.

Bjarni yfirgaf fundinn.

                              

2. Rarik - Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna strenglagningar - 1904004

Tekið fyrir erindi frá Rögnvaldi Guðmundssyni fyrir hönd RARIK ohf. dags. 2. apríl 2019 þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi vegna strenglagnar að Hólsvirkjun í Fnjóskadal. Sótt er um leyfi til að plægja niður 36 kV háspennustreng frá Hólsvirkjun að Rangárvöllum ofan Akureyrar. Hluti þeirrar framkvæmdar er innan Þingeyjarsveitar. Með strengnum verða lagðir 12 kV dreifistrengir sem munu taka við af núverandi loftlínu sem verður fjarlægð að strenglögn lokinni.

Gert er ráð fyrir að leggja strengina yfir Fnjóská áður en meginverkefnið hefst áður en veiðitímabilið hefst, síðan áfram vestan Fnjóskár að Vaðlaheiði. Þá er gert ráð fyrir að leggja yfir Vaðlaheiði með því móti að byrja efst á heiðinni og leggja til beggja átta (undan brekku) að tengistöðum báðum megin. Auk þess á að leggja 12 kV rafstreng frá tengistað við Þverá og með 36 kV strengjunum milli stöðvarhúss og Fnjóskár og milli Fnjóskár að ákveðnum stað í landi Vatnsleysu austan við Vaðlaheiði. Frá þeim stað og að tengistað við jarðspennistöð sunnan við Hrísgerði í Fnjóskadal á að plægja þennan 12kV streng einan og einnig er um að ræða uppsetningu á undirstöðum fyrir jarðspennistöðvar. Að austanverðu í Fnjóskadal verður einnig plægður 12kV strengur að frá Veisuseli að Sólvangi og núverandi loftlína verður fjarlægð að því loknu.

Innan Þingeyjarsveitar liggja fyrir leyfi allra landeigenda, Vegagerðar vegna framkvæmda í og við veghelgunarsvæði, Fiskistofu vegna þverunar Fnjóskár og leyfi Minjastofnunnar vegna hugsanlegra fornminja.

Meðfylgjandi eru afrit af áðurnefndum leyfum og yfirlitsmynd af fyrirhugaðri framkvæmd.

Í áliti Skipulagsstofnunnar vegna mats á umhverfisáhrifum Hólsvirkjunar segir m.a.:

„Í matsskýrslu kemur fram að samhliða gerð virkjunarinnar verði lagður um 30 km langur 33 kV jarðstrengur að Rangárvöllum á Akureyri sem verði plægður niður á um 90 cm dýpi líkt og gert sé með aðra dreifistrengi og verði rask vegna lagnarinnar tiltölulega lítið. Virkjunaraðili sjái ekki um framkvæmdir í dreifikerfinu heldur sé útfærsla og undirbúningur þess, þ.m.t. leyfisveitingar, alfarið í höndum viðkomandi dreifiveitu, í þessu tilfelli Rarik. Lagnaleiðin liggi innan Akureyrar frá Rangárvöllum með Miðhúsabraut, Drottningarbraut og Leiruvegi. Um Eyjafjarðarsveit í landi Ytri Varðgjár. Í Svalbarðsstrandarhreppi liggi lagnaleiðin með gömlum vegslóða á um 4,5 km kafla vel ofan byggðar og komi inn í Þingeyjarsveit á Vaðlaheiði. Þaðan fari lagnaleiðin norður Fnjóskadal ofan byggðar að Vatnsleysu.“

„Jafnframt er ljóst að vettvangsskoðun fornleifafræðings þarf að fara fram áður en endanleg lega jarðstrengs sem tengir virkjun við flutningskerfið verður valin.“

„Fyrirhugaður jarðstrengur sem tengir Hólsvirkjun við tengivirki að Rangárvöllum liggur um fjögur sveitarfélög: Þingeyjarsveit, Svalbarðsstrandarhrepp, Eyjafjarðarsveit og Akureyri. Skipulagsstofnun telur mikilvægt að sveitarfélögin sem strengurinn er fyrirhugaður um, standi samhliða að leyfisveitingum til framkvæmdanna.“

Skipulags- og umhverfisnefnd hefur kynnt sér álit Skipulagsstofnunnar vegna mats á umhverfisáhrifum Hólsvirkjunar og umfjöllun um lagningu jarðstrengs frá Hólsvirkjun að aðveitustöð Rarik á Rangárvöllum, Akureyri. Jarðstrengurinn verður plægður niður og fellur því ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Fyrirliggjandi gögn um legu jarðstrengsins sýna ekki á fullnægjandi hátt hvort votlendi verði raskað en nefndin leggur til að skilyrði verði sett í framkvæmdaleyfi að ekki sé heimilt að raska votlendi eða öðrum svæðum sem njóta sérstakrar verndar í samræmi við 61. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013. Minjastofnun hefur þegar kannað áhrifasvæði fyrirhugaðra framkvæmda og gerir ekki athugasemdir við framkvæmdina.

Í breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 sem staðfest var af Skipulagsstofnun þann 23. nóvember 2018 segir m.a.: „Gert er ráð fyrir að virkjunin verði tengd dreifikerfi RARIK með jarðstreng að Rangárvöllum á Akureyri“. Framkvæmdin er því í samræmi við gildandi aðalskipulag.

Nefndin leggur til við sveitarstjórn að umsókn Rarik vegna strenglagar að Hólsvirkjun í Fnjóskadal og lagningu 12kV dreifistrengja sem taka við af núverandi loftlínu sem verður fjarlægð að framkvæmd lokinni verði samþykkt þar sem samþykki allra landeigenda, Vegagerðar, Fiskistofu og Minjastofnunnar liggur fyrir. Jafnframt verði skipulagsfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við fyrirliggjandi drög að framkvæmdaleyfi, reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og einnig 13.-16. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Einnig leggur nefndin til að skipulagsfulltrúi verði í áframhaldandi samstarfi við skipulags- og byggingarfulltrúa Svalbarðsstrandahrepps og Eyjafjarðarsveitar vegna leyfisveitingar til framkvæmdanna skv. áliti Skipulagsstofnunar.

                              

3. Hólsvirkjun - Breyting á deiliskipulagi - 1904030

Tekið fyrir erindi frá EFLU f.h. Arctic Hydro dags. 11.4.2019 þar sem sótt er um heimild til að breyta deiliskipulagi fyrir Hólsvirkjun. Við hönnun á vél- og rafbúnaði er orðið ljóst að umfang þeirra er töluvert stærri en áætlað var í upphafi, m.a. vegna lægri snúningshraða. Hverfill og rafall eru í nokkurri yfirstærð til að bæta nýtni við hámarksálag og til að tryggja örugga eyjarkeyrslu við hátt fasvik (vegna lengdar jarðstrengs). Auk þess hefur þjónusturými verið stækkað og gert ráð fyrir sérstöku rofarými að kröfu dreifiveitu. Breytingin felst í því að hámarksstærð stöðvarhúss eykst úr 110m2 í 150 m2 og hámarksmænishæð þess hækkar úr 7,5m í 9,0m. Lóð verður skilgreind utan um stöðvarhús. Byggingarreitur verður óbreyttur.

Einnig er óskað eftir breytingu á skipulagi þannig að gert verði ráð fyrir svæði fyrir starfsmannabúðir þar sem verktaki áætlar að hafa aðstöðu á svæðinu þar sem unnið verður á vöktum. Gert er ráð fyrir aðstöðu fyrir allt að 25 manns.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggst ekki gegn fyrirhuguðum breytingum á deiliskipulagi Hólsvirkjunar og leggur nefndin til við sveitarstjórn að hún samþykki að um óverulega breytingu á deiliskipulagi Hólsvirkjunar sé um að ræða skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að hún samþykki jafnframt að skipulagsfulltrúa verði falið að grenndarkynna fyrirhugaða breytingu fyrir nágrönnum og öðrum hagsmunaaðilum eins og 44. gr. fyrrnefndra laga mælir fyrir um. Nefndin sammælist um að tillagan verði grenndarkynnt fyrir Veiðifélagi Fnjóskár, Vegagerðinni og landeigendum.

                              

4. Ljótsstaðir - Endurheimt votlendis - 1904003

Tekið fyrir erindi frá Bjarna Jónssyni f.h. Votlendissjóðs dags. 25.03.2019 þar sem Þingeyjarsveit var tilkynnt um að Votlendissjóður gerði ráð fyrir endurheimt votlendis á Ljótsstöðum í Laxárdal í Þingeyjarsveit á næstu mánuðum.

Við ákvörðun um framkvæmdina, sem tekin er í samráði við landeigendur, hefur Fagráð Votlendissjóðsins unnið eftir gögnum sem aflað var á staðnum og gert tillögu að framkvæmdaáætlun. Votlendissjóðurinn vaktar umrædd svæði í 3 ár eftir framkvæmd.

Fagráð Votlendissjóðsins vann verklýsingu þar sem flatarmál endurheimtar er áætlað 13,1 hektari. Stífla á 1332m af skurðum með 9 stíflum.

Skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 er endurskipulagning á landsvæði í dreifbýli undir 20ha ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 5 gr. í reglugerð nr. 772/2012 getur endurheimt votlendis verið háð framkvæmdarleyfi og er það mat skipulags- og umhverfisnefndar að fyrirhuguð framkvæmd teljist það umfangsmikil að hún sé framkvæmdaleyfisskyld skv. 13.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Nefndin leggur til að skipulagsfulltrúi tilkynni umsækjanda að sækja þurfi um framkvæmdaleyfi og leyfi allra landeigenda þurfi að liggja fyrir áður en málið verður tekið fyrir að nýju.

                              

5. Yztafell 3a - stofnun lóðar - 1904031

Tekið fyrir erindi móttekið 11.04.2019 þar sem sótt er um stofnun lóðar utan um einbýlishús mhl.02 á Yztafelli 3. Meðfylgjandi eru hnitsettur lóðauppdráttur og útfyllt eyðublað F550 með samþykki allra landeigenda.

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við stofnun lóðarinnar í samræmi við fyrirliggjandi gögn og leggur til við sveitarstjórn að hún verði samþykkt og jafnframt verði byggingarfulltrúa falið að annast málsmeðferð vegna hennar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

                              

6. Björg land - nafnbreyting - 1904032

Tekið fyrir erindi mótt. 29.3.2019 frá Þorgeiri Birni Hlöðverssyni varðandi nafnabreytingu á fasteign F2161835 sem heitir í dag Björg land. Beðið er um að fasteignin verði skráð sem Björg III.

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við nafnabreytingu lóðarinnar í samræmi við fyrirliggjandi gögn og leggur til við sveitarstjórn að hún verði samþykkt og jafnframt verði byggingarfulltrúa falið að annast málsmeðferð vegna hennar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

                              

7. Sandur - yfirlýsing um landamerki - 1904039

Tekið fyrir erindi frá Guðmundi Heiðrekssyni móttekið 22.febrúar 2019 varðandi staðfestingu á landamerkjum Sands 1-3 og Bergs. Meðfylgjandi er hnitsettur uppdráttur af umræddri landeign og staðfesting allra hlutaðeigandi landeigenda.

Óskað er eftir að Þingeyjarsveit staðfesti landamerkin og þau verði síðan skráð hjá Þjóðskrá Íslands.

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við hnitsetningu landamerkja jarðarinnar í samræmi við fyrirliggjandi gögn og leggur til við sveitarstjórn að umsóknin verði samþykkt og jafnframt verði byggingarfulltrúa falið að annast málsmeðferð vegna hennar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

               

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 12:07