83. fundur

Fundargerð

Skipulags- og umhverfisnefnd

10.11.2016

83. fundur

haldinn í Kjarna fimmtudaginn 10. nóvember kl. 10:00

Fundarmenn

Ásvaldur Ævar Þormóðsson, form.
Jóhanna Sif Sigþórsdóttir
Nanna Þórhallsdóttir
Sigurður Hlynur Snæbjörnsson
Sæþór Gunnsteinsson

Aðrir fundarmenn:
Jón Jónsson hrl. hjá Sókn lögmannsstofu á Egilsstöðum   

Starfsmenn

Jónas Halldór Friðriksson, umsjónarmaður fasteigna og framkvæmda
Bjarni Reykjalín, skipulags- og byggingafulltrúi, í símasambandi

Fundargerð ritaði: Jónas Halldór Friðriksson, umsjónarmaður fasteigna og framkvæmda

 Dagskrá:

 1. Þeistareykjalína 1.  Umsókn um framkvæmdaleyfi.
 2. Kvíaból.  Umsókn um byggingarleyfi fyrir gripahúsi
 3. Norðurhlíð Aðaldal.  Umsókn um landskipti.
 4. Þeistareykjavirkjun.  Breyting á deiliskipulagi.

1. Þeistareykjalína 1.  Umsókn um framkvæmdaleyfi.       S20160303

Tekið fyrir að nýju erindi erindi dags 18. mars 2016 frá Guðmundi Inga Ásmundssyni forstjóra, f.h. Landsnets þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1, 220 kV háspennulínu, sbr. einnig erindi Landsnets dags. 28. október 2016, um að framkvæmdaleyfisumsókn skuli tekin til málsmeðferðar að nýju, eftir að úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. október 2016,  í máli nr. 95/2016, felldi ákvörðun sveitarstjórnar, dags. 13. apríl 2016, úr gildi.

Sótt er um framkvæmdaleyfi á grundvelli 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sbr. og 6. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 fyrir framkvæmdinni Þeistareykjalína 1, 220 kV háspennulína.  Framkvæmdin er matsskyld skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og er matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar fyrirliggjandi og meðfylgjandi. Sótt er um framkvæmdina á grundvelli Aðalskipulags Þingeyjarsveitar 2010-2022 þar sem gert er ráð fyrir háspennulínum, sbr. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.  Í aðalskipulagi nágrannasveitarfélagsins, Norðurþings, er einnig gert ráð fyrir framkvæmdinni.

Meðfylgjandi eru gögn vegna framkvæmdaleyfisumsóknar, sbr. sérstaklega 2. og 3. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2000.  Lýsing mannvirkja vegna útgáfu framkvæmdaleyfis, dags mars 2016, sem er aðalþáttur gagnanna er tekin saman af verkfræðistofunni Mannviti f.h. Landsnets hf.  Er vísað til hennar um frekari skýringar og lýsingar á framkvæmdinni, þ.m.t. 6. kafla lýsingarinnar þar sem fjallað er um mótvægisaðgerðir og skilyrði sem Skipulagsstofnun telur að setja þurfi við leyfisveitingu framkvæmdarinnar, sbr. mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Lýsingin, þ.m.t. hvernig mætt skuli skilyrðum Skipulagsstofnunar, eru þannig hluti umsóknar Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi.

Við málsmeðferð framkvæmdaleyfisumsóknar að nýju, hafa komið fram fleiri gögn:

 • Úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, í máli nr. 95/2016, dags. 27. október 2016.
 • Umsögn Náttúruverndarnefndar Þingeyinga, dags. 4.11.2016.
 • Erindi Landsnets, dags. 4. 11.2016, Þeistareykjalína 1, - frekari gögn, ásamt fylgiskjölum.
  • Jarðfræði Landflokkun og yfirlitskort.
  • Minnispunktar um möguleika á minnkun áhrifa vegna framkvæmda við KR4 og TR1.
  • Athugun á jarðastrengs sem kost í 220 kv Kröflulínu 4, Landsnet og Efla maí 2016.
  • Umhverfisáhrif jarðstrengs innan Skútustaðahrepps, Minnisblað Eflu, 20.10.2016.
  • Alta, rýni minnisblað dags. 6.7.2016.
  • Lota, rýni – minnisblað dags. 6.7.2016.
  • Orkustofnun, rýni – minnisblað dags. 6.7.2016.

 

Bókun Skipulags- og umhverfisnefndar

Skipulags- og umhverfisnefnd telur að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2020, sbr. einnig svæðisskipulag fyrir háhitasvæði í Þingeyjarsýslu 2007-2025. Þá er framkvæmdin í samræmi við deiliskipulag Þeistareykjavirkjunar, staðfest 8.3.2012, en hluti framkvæmdar er innan þess svæðis.

Skipulags- og umhverfisnefnd hefur kynnt sér matsskýrslu framkvæmdar og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar: Háspennulínur (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Skútustaðahreppi, Aðaldælahreppi, Þingeyjarsveit og Norðurþingi. Einnig hefur komið til skoðunar álit Skipulagsstofnunar vegna sameiginlegs mats, álvers á Bakka, háspennulína, virkjana í Kröflu og á Þeistareykjum, en framkvæmd samkvæmt fyrirliggjandi umsókn er ekki gerð í tengslum við álver á Bakka.

Við samanburð á framkvæmd sem fyrirliggjandi umsókn lýsir og matsskýrslu vegna framkvæmdarinnar Háspennulínur (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Skútustaðahreppi, Aðaldælahreppi, Þingeyjarsveit og Norðurþingi, er sýnt að framkvæmdin varðar einungis hluta þeirrar framkvæmdar, þ.e. Þeistareykjalínu 1 sem liggur frá Þeistareykjum að Bakka, innan sveitarfélaganna Norðurþings og Þingeyjarsveitar.

Samkvæmt úrskurði UUA, voru annmarkar á áliti Skipulagsstofnunar þar sem í álitinu var ekki vikið að framlögðum kosti Landsnets um lagningu línu í jarðstreng og þar sem Skipulagsstofnun lét í ljós það álit að Landsnet eigi að kanna möguleika á annarri útfærslu Þeistareykjalínu 1, þ.e. skoðun valkosts línuleiðar fyrir Höfuðreiðarmúla. Umhverfismat framkvæmdar gerir ráð fyrir legu línu yfir Jónsnípuskarð, en valkostir höfðu áður verið til umfjöllunar við gerð Svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum. Í úrskurðinum kemur fram að annarmarkar á áliti Skipulagsstofnunar séu ekki svo verulegir að á álitinu verði ekki byggt.

Nefndin telur að annmarki á álitinu hafi takmarkaða þýðingu við afgreiðslu fyrirliggjandi framkvæmdaleyfisumsóknar. Umsótt framkvæmd varðar háspennulínur í lofti í samræmi við skipulagsáætlanir, sem hafa verið umhverfismetnar og að hluta til staðfestar eftir að álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar lá fyrir. Þá skiptir máli að um þá tegund framkvæmda sem umsókn varðar gilda sérlög. Í 9. gr. c. í raforkulögum nr. 65/2003 er m.a. kveðið á um að sveitarstjórnum beri að tryggja að skipulagsákvarðanir hindri ekki framgang þeirra verkefna sem eru í staðfestri þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar. Í 9. gr. a. er lagagrundvöllur fyrir kerfisáætlun þar sem gert er ráð fyrir umsóttri framkvæmd. Kerfisáætlun hvílir jafnframt á þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, frá 28.5.2015. Þýðing annmarka á áliti Skipulagsstofnunar verður að skoða út frá því hvort þeir geti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins. Slíkt er vandséð þegar bein afleiðing þess er þörf á nýjum skipulagsákvörðunum og þar af leiðandi að sveitarfélag tryggir ekki að skipulagsákvarðanir hindri framgang framkvæmdar á framkvæmdaáætlun Kerfisáætlunar. Þá hefur Norðurþing veitt framkvæmdaleyfa fyrir Þeistareykjalínu 1, sem gerir ráð fyrir línu um Jónsnípuskarð og með úrskurði UUA í máli nr. 54/2016, var kröfu um ógildingu þeirrar ákvörðunar hafnað. Þeistareykjalína 1, liggur því að Jónsnípuskarði innan Norðurþings og hafa nú þegar farið fram framkvæmdir og röskun lands miðað við það. Við málsmeðferð framkvæmdaleyfisumsóknar eru markmið skipulagslaga grundvöllur að ákvarðanatöku.

Við málsmeðferð umsóknarinnar hefur á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga verið aflað gagna til að tryggja enn frekar að ákvörðun verði byggð á fullnægjandi grundvelli. 

Skipulags- og umhverfisnefnd tekur undir þá niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar að umsótt framkvæmd muni hafa veruleg neikvæð og óafturkræf áhrif á svæði við Þeistareyki og landslagsheildina Þeistareykjahraun. Jafnframt að áhrif framkvæmdar verði verulega neikvæð á jarðmyndunina Þeistareykjahraun. Leiðarval flutningsmannvirkja á raforku var til umfjöllunar við gerð Svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslu 2007-2025. Skipulagsáætlunin var umhverfismetin. Við slíkt mat vegna áhrifa flutningsmannvirkja raforku getur falist meiri nákvæmni en þegar umhverfismat áætlana varðar landnotkun eða tegund framkvæmda sem ekki eru eins þekktar á áætlanastigi. Umhverfismat framkvæmdar felur þó í sér meiri nákvæmni en mat á áætlunum. Afstaða skipulags- og umhverfisnefndar til gagna um umhverfisáhrif framkvæmdar hvílir jafnframt á því að umhverfismat Svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum gerði ráð fyrir neikvæðum umhverfisáhrifum vegna lagningar háspennulína. Umhverfismat framkvæmdar lýsir þeim áhrifum nákvæmar, en ekki er um ræða óvænt eða verulega frávik frá þeim áhrifum sem skipulagsáætlanir sveitarfélagsins hvíla á.  

Skipulags- og umhverfisnefnd telur ekki ástæðu til að taka afstöðu til annmarka á áliti Skipulagsstofnunar varðandi jarðstrengi sem valkosts framkvæmdar innan Þingeyjarsveitar, með vísan til fyrirliggjandi gagna og úrskurðar UUA.

Val á lagnaleið Þeistareykjalínu 1 samkvæmt aðalskipulagi og umsóttri framkvæmd um Jónsnípuskarð er að rekja til umfjöllunar um kostinn A1d í Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslu, sem m.a. var valinn þar sem hann samræmdist betur stefnu Norðurþings og að hann færi um hraun á minna svæði en kosturinn A1c, þ.e. leið norðan Höfuðreiðarmúla. Við umhverfismat framkvæmdar komu til umfjöllunar sjónarmið um sjónræn áhrif leiðar fyrir Höfuðreiðarmúla. Í matsskýrslu og gögnum Landsnets kemur jafnframt fram samanburður á leiðum, s.s. vegna sjónrænna áhrifa. Vegna áhrifa á jarðmyndanir er m.a. bent á að leið fyrir Höfuðreiðarmúla væri lengri en um Jónsnípuskarð og lægi um Þeistareykjahraun á lengra svæði, en álit Skipulagsstofnunar víkur sérstaklega að neikvæðum áhrifum á það. Þótt komi til framkvæmdaleyfisveitingar tveggja sveitarfélaga vegna Þeistareykjalínu 1, er ljóst að grunnrök fyrir gerð svæðisskipulags er samræming á hagsmunum hlutaðeigandi sveitarfélaga og við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sem liggja innan tveggja sveitarfélaga, er litið heildstætt á umhverfisáhrif framkvæmdar. Við umfjöllun um framkvæmdaleyfisumsókn verður Þingeyjarsveit með ákveðnum hætti að líta heildstætt til gagna um umhverfisáhrif framkvæmdar nærri mörkum sveitarfélags, þótt hluti umhverfisáhrifa komi fram í Norðurþingi.

Skipulags- og umhverfisnefnd hefur farið yfir gögn um valkosti og útfærslu framkvæmda við umhverfismat áætlana, umhverfismat framkvæmdar, auk gagna sem aflað hefur verið á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Með vísan til þess og fyrri umfjöllunar telur skipulags- og umhverfisnefnd að umhverfisáhrif leiðar um Jónsnípuskarð séu ásættanleg vegna framkvæmdarinnar og gögn um umhverfisáhrif leiðar fyrir Höfuðreiðarmúla styrki þá niðurstöðu.

Með vísan til 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga er gætt að því að fylgt sé ákvæðum náttúrverndarlaga. Umsótt framkvæmd hefur verið umhverfismetin og ekki er óvissa um áhrif framkvæmdar. Framkvæmd fer um svæði sem njóta verndar skv. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013, m.a. Þeistareykjahraun, Stóravítishraun og Skildingahraun.

Við málsmeðferð skipulagsákvarðana hefur verið leitað umsagna Umhverfisstofnunar, sbr. 2. mgr. 68. gr. náttúrverndarlaga, þ.e. við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, aðalskipulagi og deiliskipulagi vegna Þeistareykjavirkjunar. Vegna málsmeðferðar sveitarfélagsins var óskað eftir umsögn náttúruverndarnefndar Þingeyinga, en auk þess liggur fyrir umsögn nefndarinnar um deiliskipulagið.

Skipulags- og umhverfisnefnd vísar til þess að málsmeðferð samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga varðar framkvæmdaleyfisumsóknir, óháð því hvort mat á umhverfisáhrifum hefur farið fram. Umrædd framkvæmd hefur fengið ítarlega málsmeðferð við umhverfismat áætlana og umhverfismat framkvæmdar. Sú vinna hefur að áliti skipulags- og umhverfisnefndar hvílt á því markmiði að forðast rask á eldhraunum, þó í því ljósi að slíkt rask sé nauðsynlegt vegna markmiða að baki framkvæmd og jarðfræðilegum staðháttum við Þeistareykjasvæðið. Það er álit skipulags- og umhverfisnefndar að sú málsmeðferð sem farið hefur fram við undirbúning framkvæmdarinnar hafi leitt fram það rask á eldhraunum og tengdum jarðmyndunum sem brýn nauðsyn ber til í ljósi markmiða framkvæmdar.

Skipulags- og umhverfisnefnd aflaði upplýsinga um hugmyndir um breytingu legu Þeistareykjalínu 1, í ljósi umfjöllunar sem kom fram í frumvarpi að lögum um raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka, 876. mál, á 145. löggjafarþingi. Þar er gerð grein fyrir möguleika á færslu Þeistareykjalínu 1, þannig að komist yrði hjá því að mastur yrði staðsett í hrauntungu Þeistareykjahrauns. Lega línu vegna slíkrar breytingar yrði þannig að sveigt yrði fyrir hrauntunguna og línulögn yrði í hraunjaðrinum. Sjónarmið um þessa færslu lagnaleiðar hafa hvorki komið fram í umsögnum Umhverfisstofnunar né náttúruverndarnefndar Þingeyinga. Þá er lagnaleið, sem umsótt framkvæmd nær til, í samræmi við deiliskipulag Þeistareykjavirkjunar, sem m.a. gerir nákvæmlega grein fyrir legu lína yfir hverfisverndarsvæði. Hugmynd um breytta lagnaleið, gerir ráð fyrir að lína liggi á lengri kafla yfir hverfisverndarsvæðið, HV4, þ.e. misgengi, hún lægi um Stóravítishraun sem einnig nýtur verndar skv. 61. gr. náttúrverndarlaga, hún væri lengri, möstur væru einu fleiri eða hæð mastra aukin, og viðbótarhornmastur tæki meira svæði. Óafturkræf áhrif virðast aukast og sveigur línu fyrir hrauntungu mun mögulega auka sjónræn áhrif af línu og liggja nær vegi. Í ljósi þessa og umfjöllunar um fyrirliggjandi umhverfismat áætlana og framkvæmdar er ekki tilefni til að víkja frá umsóttri lagnaleið samkvæmt deiliskipulagi svæðisins.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til að við útgáfu framkvæmdaleyfis, verði auk skilyrða sem getið er í áliti Skipulagsstofnunar og eiga við framkvæmdasvæðið, eftirfarandi skilyrði sett. Vegna framkvæmda innan hverfisverndarsvæða HV-2 og HV-4, sbr. deiliskipulag Þeistareykjavirkjunar, gildir að við alla mannvirkjagerð skal leitast við að viðhalda einkennum svæðanna og skal gætt fyllstu varúðar við allar framkvæmdir.  Hafa skal samráð við skipulagsfulltrúa og eftirlitsmann Umhverfisstofnunar vegna framkvæmda á hverfisverndarsvæðunum áður en þær hefjast.

Fyrir liggur samningur Landsnets og Umhverfisstofnunar um sérstakt eftirlit Umhverfisstofnunar vegna framkvæmda við Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4, sem hefur það markmið að tryggja frágang einstakra verka og verkþátta m.t.t. náttúruverndarlaga. Í umsóttri framkvæmd er m.a. fjallað um vöktunaráætlun vegna áflugs fugla. Í ofangreindum samningi er vikið að hlutverki Umhverfisstofnunar vegna samskipta við vöktunaraðila. Í ljósi þessa er lýsing á fyrirkomulagi vöktunar áflugs nægjanleg við afgreiðslu framkvæmdaleyfisumsóknar.

Skipulags- og umhverfisnefnd  vísar til stefnu Þingeyjarsveitar sem mörkuð var með svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum. Með orkunýtingu á Þeistareykjasvæði skapast nauðsyn á raforkuflutningsmannvirkjum þaðan að sveitarfélagamörkum við Norðurþing. Sú stefna tengist jafnframt uppbyggingu í Þingeyjarsýslum með framkvæmdum á Bakka. Undirbúningur þessara uppbyggingar hefur staðið yfir í áratug á grunni lögbundinnar málsferðar samkvæmt skipulags- og umhverfislöggjöf. Umsótt framkvæmd er í beinum tengslum við uppbygginu á Bakka. Verulegir fjárhagslegir og samfélagslegir hagsmunir mæla með framkvæmdinni og að ekki verði ófyrirséðar tafir á henni.

Lagaskilyrði eru til útgáfu umsótts framkvæmdaleyfis, sbr. 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 Nefndin leggur til við sveitarstjórn að umsókn Landsnets vegna Þeistareykjalínu 1 verði samþykkt og jafnframt verði skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

2. Kvíaból.  Umsókn um byggingarleyfi fyrir gripahúsi.                                    S20161002

Erindi dags 8. nóvember rá Marteini Sigurðssyni á Kvíabóli þar sem hann sækir um byggingarleyfi fyrir gripahúsi á Kvíabóli sunnan núverandi fjóss og hlöðu á jörðinni skv. meðfylgjandi teikningum frá Eflu verkfræðistofu dags 11.10.2016.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggst ekki gegn byggingaráformunum en þar sem ekkert deiliskipulag liggur fyrir felur hún skipulags- og byggingarfulltrúa að grenndarkynna áformin eins og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.

3. Norðurhlíð, Aðaldal.  Umsókn um landskipti.                                                 S20161001

Erindi dags. 18. október 2016 frá Agnari Kristjánssyni og Elínu Kjartansdóttur, Norðurhlíð Aðaldal, þar sem þau sækja um heimild til að skipta út 12,6 ha spildu út úr landi Norðurhlíðar.  Fylgigögn með umsókn eru hnitsett mæliblað dags. 11.10.2016 frá Búgarði (GHG), útfyllt eyðublað F-550 frá Þjóðskrá og þinglýsingarvottorð.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggst ekki gegn landskiptunum og leggur til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt.  Jafnframt leggur nefndin til við sveitarstjórn að skipulags- og byggingarfulltrúa verði falin málsmeðferð vegna landskiptanna.

4. Þeistareykjavirkjun.  Breyting á deiliskipulagi.                                               S20120101.

Erindi dags 9. nóvember 2016 frá Landsvirkjun þar sem óskað er eftir breytingu á deiliskipulagi vegna stækkunar lóðar undir tengivirki skv. meðfylgjandi breytingarblaði frá Teiknistofu arkitekta Gylfa Guðjónssyni og félögum ehf.  Breytingin felst í því að lóð L-02 er stækkuð um 3 m til vesturs auk þess sem 1 m hliðrun til vestur er leiðrétt.  Byggingarreitur er stækkaður til vesturs vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar.  Hann er einnig stækkaður lítillega til norðurs með möguleika á síðari tíma viðbyggingu.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt þar sem breytingin er óveruleg sbr. ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og varðar ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og framkvæmdaaðila og er því fallið frá grenndarkynningu sbr. ákvæði 3. mgr. 44. gr. fyrrgreindra laga.

 

Fundi slitið.