82. fundur

Fundargerð

Skipulags- og umhverfisnefnd

12.10.2016

82. fundur

haldinn í Kjarna miðvikudaginn 12. október kl. 10:00

Fundarmenn

Ásvaldur Ævar Þormóðsson, formaður.
Jóhanna Sif Sigþórsdóttir
Nanna Þórhallsdóttir      
Sigurður Hlynur Snæbjörnsson                           
Sæþór Gunnsteinsson

Starfsmenn

Jónas Halldór Friðriksson, umsjónarmaður fasteigna og framkvæmda

Fundargerð ritaði: Jónas Halldór Friðriksson, umsjónarmaður fasteigna og framkvæmda

Dagskrá:

  1. Hólsvirkjun.  Aðal- og deiliskipulag.
  2. Þingey-Skuldaþingey.  Tillaga að deiliskipulagi.
  3. Rauðá, lóð 216-2264.  Umsókn um byggingarleyfi.

 

1. Hólsvirkjun.  Aðal- og deiliskipulag.            S20160401

Tekið fyrir að nýju erindi dags 10. maí 2016 frá Brynju Dögg Ingólfsdóttur hjá Eflu verkfræðistofu þar sem lögð er fram kynningarskýrsla dags. í maí 2016 f.h. Arctic Hydro ehf vegna áforma um að reisa 5,2 MW vatnsaflsvirkjun í landi jarðanna Yrta-Hóls, Syðra-Hóls og Garðs í Fnjóskadal.  Erindið var síðast tekið til umfjöllunar á fundi nefndarinnar 20. júní s.l.  Áformað er að virkja Hólsá og Gönguskarðsá ofan Garðsfells og leiða vatn í þrýstipípu að stöðvarhúsi við Fnjóská.  Í skýrslunni er tilhögun virkjunar og áætlaðar framkvæmdir kynntar lauslega.  Um leið er óskað eftir samstarfi við sveitarfélagið vegna samráðs og kynninga fyrir hagsmunaaðila á svæðinu.

Skipulags- og umhverfisnefnd færði eftirfarandi til bókar á fundi sínum 11. maí s.l:  Skipulags- og umhverfisnefnd tekur ekki afstöðu til málsins á þessu stigi en lýsir yfir vilja sínum til að hafa samstarf við framkvæmdaaðila fyrirhugaðrar virkjunar m.a. að hafa samvinnu um almennan kynningarfund þar sem tillagan og forsendur hennar verði kynntar fyrir íbúum svæðisins og öðrum hagsmunaaðilum áður en lengra verður haldið í framkvæmda- og undirbúningsferlinu.

Boðað var til almenns kynningarfundar í Stórutjarnaskóla  mánudaginn 6. júní s.l. þar sem

fulltrúar Arctic Hydro ehf og Eflu verkfræðistofu kynntu virkjunarhugmyndirnar og sátu fyrir svörum.

Innkomið nýtt erindi dags. 20. júní frá Brynju Dögg Ingólfsdóttur hjá Eflu verkfræðistofu þar sem hún sækir um f.h. Arctic Hydro ehf heimild til að vinna deiliskipulag af fyrirhuguðu virkjanasvæði á kostnað framkvæmdaaðila skv. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Með umsókn fylgir skipulagslýsing vegna nýs deiliskipulags og breytingar á aðalskipulagi.

Sveitarstjórn staðfesti samþykkt skipulags- og umhverfisnefndar um að heimila umsækjanda að vinna deiliskipulag á sinn kostnað af fyrirhuguðu virkjanasvæði í samræmi við framlagða skipulagslýsingu og með vísan í 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti lýsinguna vegna breytingar á aðalskipulagi fyrir íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum eins eins 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um með umsagna- og athugasemdafresti frá og með 30. júní til og með 21. júlí s.l.

Athugasemdir/umsagnir komu frá eftirfarandi aðilum:  Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Vegagerðinni, Minjastofnun Íslands og náttúruverndarnefnd Þingeyinga.

Vegagerðin og Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra gerðu engar athugasemdir.  Umhverfisstofnun telur að í lýsingunni sé gerð grein fyrir þeim þáttum sem þörf er á og í því umfangi sem væntanlegar tillögur gefa tilefni til.  Ítarlegri umsagnir komu frá Skipulagsstofnun, Minjastofnun Íslands og náttúruverndarnefnd Þingeyinga.

Skipulags- og byggingarfulltrúi kom athugasemdunum/umsögnunum á framfæri við skipulagsráðgjafana til efnislegrar úrvinnslu þar sem  nefndin lagði áherslu á að að við breytingu á aðalskipulagi og gerð nýs deiliskipulags yrðu innkomnar umsagnir/athugasemdir umsagnaraðila hafðar að leiðarljósi.

Innkomin eftirfarandi ný gögn 13. september 2016:

  • Tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2023.  Efla verkfræðistofa.
  • Tillaga að deiliskipulagi, uppdráttur með greinargerð.  Efla verkfræðistofa.
  • Jarðfræði, gróðurfar og fuglalíf á áhrifasvæði Hólsvirkjunar.  Náttúrstofa Norðausturlands.
  • Sérfræðiskýrsla vatnalíf.  Tumi Tumason fiskifræðingur.
  • Fornleifaskráning.  Fornleifastofnun Íslands.

Haldinn var kynningarfundur í Stórutjarnaskóla 3. október s.l. eins og 2. mgr. 30. gr. og 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mæla fyrir um.  Ekki komu fram neinar athugasemdir á fundinum sem gáfu tilefni til breytinga á tillögunum.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til að eftirfarandi kafla verði bætt inn í greinargerð með aðalskipulagsbreytingunni:

Jarðstrengur:

Samhliða gerð virkjunarinnar verður lagður 33 kV jarðstrengur frá stöðvarhúsi virkjunarinnar að Rangárvöllum á Akureyri.  Strengurinn verður plægður eða grafinn niður eftir aðstæðum á lagnaleiðinni.   Lagning jarðstrengs tilheyrir virkjunarframkvæmdunum og er því hluti af framkvæmdaleyfisskyldri heildarframkvæmd.  Áður en framkvæmdaleyfi virkjunarinnar verður gefið út skal leggja fram uppdrátt sem sýnir lagnaleiðina ásamt yfirlýsingu landeigenda/umráðamanna landeigna og sveitarfélaga á strengleiðinni um að þau leggist ekki gegn framkvæmdinni.

Nefndin gerir ekki aðrar athugasemdir við tillögurnar á þessu stigi og leggur til við sveitarstjórn að skipulags- og byggingarfulltrúa verði falið að senda Skipulagsstofnun tillögu að breytingu á aðalskipulagi svo breytta til athugunar eins og. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.  Jafnframt verði skipulags- og byggingarfulltrúa falið að auglýsa samhliða breytingu á aðalskipulagi og tillögu að deiliskipulagi að lokinni athugun Skipulagsstofnunar á breytingartillögu aðalskipulagsins.

2. Þingey-Skuldaþingey.  Tillaga að deiliskipulagi                               S20160904

Erindi dags 30. september 2016 frá Ómari Ívarssyni hjá Landslagi ehf, f.h. Héraðsnefndar Þingeyinga, þar sem sótt eru um heimild til að vinna deiliskipulag á kostnað nefndarinnar skv. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 af Þingey og Skuldaþingey skv. meðfylgjandi skipulagslýsingu dags 3. október 2016 frá frá Landslagi ehf.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagslýsingin verði samþykkt og jafnframt verði skipulags- og byggingarfulltrúa falið að leita umsagnar um hana hjá Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum og kynna hana fyrir almenningi eins og 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um. Einnig skuli vera gerð grein fyrir aðkomu að svæðinu og að samþykki allra landeigenda á svæðinu liggi fyrir.

3. Rauðá, lóð 216-2264.  Umsókn um byggingarleyfi.                   S20160803.

Tekið fyrir að nýju erindi dags. 4. ágúst 2016 frá Sigurði Arnari Jónssyni, f.h. Goðafoss ehf þar sem hann sækir um heimild til að stækka verslun og byggja viðbyggingu austan við núverandi verslun fyrir salerni og setja nýjan kvist vestan á verslun í staðinn fyrir núverandi sólskála, skv. meðfylgjandi teikningum frá Kollgátu arkitektastofu.

Skipulags- og umhverfisnefnd lagðist ekki gegn erindinu á fundi sínu, 18. ágúst s.l. en þar sem ekkert deiliskipulag er til af svæðinu fól hún skipulags- og byggingarfulltrúa að grenndarkynna byggingaráformin fyrir nágrönnum og öðrum hagsmunaaðilum eins og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.

Grenndarkynningu lauk 21. september s.l. en engar athugasemdir bárust vegna fyrirhugaðra byggingaráforma.

Vegna óvissu á skipulagssvæðinu leggst skipulags- og umhverfisnefnd gegn fyrirhugaðri viðbyggingu.  Niðurstaða nefndarinnar er sú að engar varanlegar byggingar verði samþykktar á svæðinu fyrr en samþykkt deiliskipulag liggi fyrir.  Nefndin mun þó ekki leggjast gegn því að reistar verði tímabundnar byggingar til að þjónusta ferðamenn þar til lokið hefur verið gerð deiliskipulags af svæðinu.

Fundi slitið.