131. fundur

Fundargerð

Skipulags- og umhverfisnefnd

12.11.2020

131. fundur

haldinn í fjarfundarbúnaði fimmtudaginn 12. nóvember kl. 10:00

Fundarmenn

Nanna Þórhallsdóttir
Sigríður Hlynur Helguson Snæbjörnsson
Sigurlína Tryggvadóttir
Einar Örn Kristjánsson
Margrét Bjarnadóttir

Starfsmenn

Atli Steinn Sveinbjörnsson
Helga Sveinbjörnsdóttir

Fundargerð ritaði: Helga Sveinbjörnsdóttir

Dagskrá:

 

Skipulagsfulltrúi óskaði eftir að bæta einu máli á dagskrá með afbrigðum undir 9. lið: 2011011- Stóru-Laugar land nafnabreyting. Aðrir liðir færast neðar á dagskrá sem því nemur.

Samþykkt samhljóða.

1.

Einbúavirkjun - 1908034

 

Kynnt voru drög að tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 vegna Einbúavirkjunar dags. 27.október 2020 frá Verkís.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að koma athugasemdum og ábendingum nefndarinnar til skipulagsráðgjafa.

 

Samþykkt

     

2.

Hólasandslína - Beiðni um breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar - 1902013

 

Tekin fyrir tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010 - 2022. Tillagan snýr að erindi dags. 9. október 2020 þar sem Daníel Scheving Hallgrímsson f.h. Landsnets leggur fram beiðni um óverulega breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar. Beiðnin er lögð fram vegna breytinga á efnistökusvæðum vegna framkvæmda við Hólasandslínu 3 og felur í sér opnun tveggja nýrra efnistökusvæða við Eyjardalsá ofan við Bárðardal. Vegna framkvæmda við Hólasandslínu 3 voru gerðar breytingar á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010 - 2022, sem staðfest var 2. júlí 2020, þar sem m.a. var bætt við efnistökusvæðum vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Óskað er eftir tveimur nýjum efnistökusvæðum (við möstur 100 og 102) í stað efnistökusvæðis E- 60 í aðalskipulagi (N 12 í matsskýrslu), sem ekki verður notað.

Tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010 - 2022 frá Hornsteinum dags. 6. nóvember 2020 felur i sér niðurfellingu á efnistökusvæði E-60 (merkt N-12 í matsskýrslu) og afmörkun tveggja nýrra efnistökusvæða; E-68: Eyjardalur, þar er áætlað efnistökusvæði 5.300 m2 að stærð og rúmmál 12.000 m3. E-69: Eyjardalur, þar er áætlað efnistökusvæði 4.900 m2 að stærð og rúmmál 12.000 m3. Efnistökusvæðin eru staðsett á gróðursnauðum malarhjöllum, sem auðvelt er að fella að nærumhverfi að lokinni efnistöku.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd telur að um óverulega breytingu á aðalskipulagi sér að ræða skv. 2. mgr 36. gr skipulagslaga sem segir að við mat á því hvort breyting á aðalskipulagi geti talist óveruleg skal taka mið af því hvort hún hafi verulegar breytingar á landnotkun í för með sér eða sé líkleg til að hafa mikil áhrif á einstaka aðila eða hafa áhrif á stór svæði. Í þessu tilviki snýr breytingin að Hólasandslínu 3 þar sem ítarlega var fjallað um efnistökumál í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir. Þar sem ekki voru burðarhæfir slóðar að þeim námum sem tilgreindar voru í mati á umhverfisáhrifum Hólsandslínu 3 voru ekki gerðar nákvæmar rannsóknir á efnisgæðum námanna. Tillaga að óverulegri breytingu á aðalskipulagi felur í sér að fella út efnistökusvæði sem áætlað var umfangsmeira en það sem tekið er inn í staðinn og því leggur skipulags- og umhverfisnefnd til við sveitarstjórn að samþykkja að auglýsa breytingartillögu á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að lokinni athugun Skipulagsstofnunar á breytingartillögunni eins og 3. mgr. 30. gr. fyrrnefndra laga mælir fyrir um. Jafnframt leggur nefndin til að skipulagsfulltrúa verði falið að sjá um auglýsingu á tillögunni.

 

Samþykkt

     

3.

Arnstapavegur - færsla - 2011010

 

Tekið er fyrir erindi Hauks Jónssonar f.h. Vegagerðarinnar dags. 10. nóvember 2020 þar sem óskað er eftir framkvæmdaleyfi vegna færslu Arnstapavegar (8660-01) við Hringveg.

Færslan fer fram í landi Litlu-Tjarna sem er í eigu sveitarfélagsins og því er óskað eftir leyfi landeiganda samhliða beiðni um framkvæmdaleyfi. Framkvæmdin snýr að færslu vegtengingar Arnstapavegar við Hringveg til norðurs en skv. veghönnunarreglum skal endafrágangur vegriðs við brú vera amk. 60 m m.v. hámarkshraða, 90 km/klst.

Framkvæmdasvæðið er innan svæðis Ljósavatns sem er á náttúruminjaskrá (nr. 520) og því verður einnig leitað eftir umsögn Umhverfisstofnunar.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd harmar og þykir óásættanlegt að framkvæmdin hafi átt sér stað án tilskilinna leyfa og felur skipulagsfulltrúa að vinna áfram að málinu með tilliti til laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, laga um náttúruvernd nr. 93/1996, reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og skipulagslaga nr. 123/2010.
Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulagsfulltrúa að leita álits Skipulagsstofnunnar um næstu skref.

 

Samþykkt

     

4.

Umsögn um lýsingu vegna endurskoðunar aðalskipulags Skútustaðahrepps - 2011006

 

Tekið er fyrir erindi skipulagsfulltrúa Skútustaðahrepps, dag. 5. nóvember 2020 varðandi skipulags- og matslýsingar endurskoðunar aðalskipulags Skútustaðahrepps.
Frestur til athugasemda er til föstudagsins 20. nóvember 2020.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við skipulags og matslýsingu að endurskoðun aðalskipulags Skútustaðahrepps og óskar Skútustaðahreppi velfarnaðar í áframhaldandi vinnu.

 

Samþykkt

     

5.

Reykir 1 - stöðuleyfi - 2010028

 

Tekið fyrir erindi dags. 27.19.2020 frá Stefáni H.Steindórssyni f.h. Norðurorku þar sem sótt er um stöðuleyfi til eins árs fyrir gám við hlöðu á Reykjum 1 í Fnjóskadal.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að veita stöðuleyfi fyrir geymslugám til 12 mánaða. Umsækjandi skal tryggja eldvarnir og aðgang slökkviliðs. Nefndin felur byggingarfulltrúa að gefa út stöðuleyfið.

 

Samþykkt

     

6.

Búvellir - Sameining landeigna - 2011009

 

Tekið fyrir erindi dags. 9.nóvember 2020 frá Sveinbirni Þór Sigurðssyni og Huldu Kristjánsdóttur á Búvöllum þar sem sótt er um að eftirfarandi landeignir í þeirra eigu verði sameinaðar inn í Búvelli L153845:
L214226 Aðalból - Gerðistún
L214227 Aðalból - Litla Mýrarstykki
L214224 Aðalból - Kirkjugarðstún
L214225 Aðalból - Hesthússlétta
L218516 Grenjaðarstaður land
L218515 Búvellir land

 

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við sameininguna í samræmi við fyrirliggjandi gögn og leggur til við sveitarstjórn að þau verði samþykkt og jafnframt verði byggingarfulltrúa falið að annast málsmeðferð eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

 

Samþykkt

7.

Einarsstaðir 2 lóð, stækkun og landskipti - 2011008

 

Tekið fyrir erindi dags. 10.11.2020 þar sem sótt er um stækkun lóðarinnar Einarsstaðir 2 lóð L153726 og landskipti hennar út úr jörðinni Einarsstöðum 2 eftir stækkun hennar. Nafn hennar verði eftir stækkun Einarsstaðir 6.
Fylgigögn eru umsókn til skipulagsnefndar og hnitsettur uppdráttur af fyrirhugaðri lóð.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við stækkunina og landskiptin í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Nefndin felur byggingarfulltrúa að fá staðfestingu á lóðarmörkun frá eigendum Einarsstaða 1. Þegar það liggur fyrir leggur nefndin til við sveitarstjórn að landskiptin verði samþykkt og jafnframt verði byggingarfulltrúa falið að annast málsmeðferð eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

     

8.

Hólar verslunarlóð á Laugum, hnitsetning - 2011007

 

Tekið fyrir erindi þar sem sótt er um staðfestingu hnitsetningar lóðarinnar L153758 Hólar verslunarlóð.
Fylgigögn er hnitsett lóðablað sem hefur verið samþykkt af landeigendum.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja afmörkun lóðarinnar og að byggingarfulltrúa verði falið að annast málsmeðferð vegna hennar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

 

Samþykkt

     

9.

Stóru-Laugar land nafnabreyting - 2011011

 

Tekið fyrir erindi dags. 10.11.2020 frá Rögnu H. Þórisdóttur þar sem sótt er um að lóðin Stóru-Laugar land L153812 fái nafnið Laugagerði.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við nafnabreytingu lóðarinnar í samræmi við fyrirliggjandi gögn og leggur til við sveitarstjórn að hún verði samþykkt og jafnframt verði byggingarfulltrúa falið að annast málsmeðferð vegna hennar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

 

Samþykkt

     

10.

Skýrsla skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa - 1909022

     

 

Fundi slitið kl. 11:50