125. fundur

Fundargerð

Skipulagsnefnd

28.05.2020

125. fundur

Skipulagsnefnd

haldinn Í Seiglu fimmtudaginn 28. maí kl. 10:00

Fundarmenn

Ásvaldur Ævar Þormóðsson
Sæþór Gunnsteinsson
Nanna Þórhallsdóttir
Jóna Björg Hlöðversdóttir
Sigríður Hlynur Helguson Snæbjörnsson

Starfsmenn

Guðjón Vésteinsson, skipulagsfulltrúi
Helga Sveinbjörnsdóttir, byggingarfulltrúi

Fundargerð ritaði: Helga Sveinbjörnsdóttir

 

1.

Endurskoðun Aðalskipulags Þingeyjarsveitar 2010-2022 - 1903011

 

Tekin fyrir ófullunnin drög að lýsingu vegna endurskoðunar aðalskipulags Þingeyjarsveitar frá Alta ehf. Drögin eru enn í vinnslu og eru lögð fram til kynningar fyrir nefndina.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að aukafundur verði haldinn 10. júní þar sem drög að lýsingu verða rýnd og unnin áfram.

     

2.

Hólasandslína - Beiðni um breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar - 1902013

 

Tekið fyrir að nýju erindi frá Árna Jóni Elíassyni f.h. Landsnets dags. 7.febrúar 2019 varðandi breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 vegna Hólasandslínu 3.

Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 30. janúar 2020 að auglýsa tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 vegna Hólasandslínu 3 eins og 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.

Tillagan var auglýst frá og með fimmtudeginum 19. mars 2020 með athugasemdarfresti til og með föstudeginum 1. maí 2020. Athugasemdir bárust við skipulagstillöguna.

 

HNE:
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra gerir ekki athugasemdir við breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 vegna Hólasandsvirkjun 3, sbr. meðfylgjandi erindi
Athygli er vakin á að efnistökusvæði eru háð starfsleyfi heilbrigðisnefndar.

Svar:
Gefur ekki tilefni til svars.
Sett verður ákvæði í framkvæmdarleyfi að efnistaka sé háð starfsleyfi heilbrigðisnefndar.

Jón Benediktsson:
Athugasemd 1:

Skilji ég rétt er fyrirhuguð breyting á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar sú að heimilað verði að víkja frá upphaflega ætlaðri legu Hólasandslínu 3, þ.e. að hún liggi samhliða Kröflulínu 1. Ég mun hér einungis taka til umræðu þá breytingu, sem nú er fyrirhuguð á legu línunnar þar sem hún þverar Laxárdal.
Fyrirhuguð breyting á legu línunnar er sú að austarlega í Laxárdalsheiði verði sveigt til suðausturs frá Kröflulínu 1 í stað þess vera henni samhliða, að mastri sem standi á dalbrún ofan við Varastaðaskóg, ( núorðið venjulega nefndur Ljótsstaðaskógur) og þaðan í 1 km. löngu loti yfir á austurbrún dalsins.
Þessi breyting, ef af verður, mun óhjákvæmilega fylgja miklu meiri röskun á landi en að fara samhliða Kröflulínu. Það er engin tilviljun hvernig sú lína liggur, þar var einfaldlega valið besta línustæðið yfir Laxárdalsheiði, sem einmitt þarna er mjög votlend. Við breytinguna myndu líklega þrjú möstur þurfa að standa í forblautu og sennilega djúpu mýrlendi, sem óhjákvæmilegt yrði þá að leggja veg yfir. Mögulegt er að komast á þann stað þar sem síðasta mastur vestan Laxár á að standa, neðan úr dalnum, hvort heldur er sunnan eða norðan frá en það kostar mikla röskun á landi.

Svar 1:

Engar framkvæmdir, hvorki slóðagerð né annað, eru fyrirhugaðar í Laxárdalnum sjálfum, þ.e. innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár. Aðkoma að möstrum á brúnum dalsins verður ofan frá, úr austri og vestri.
Það er rétt að fyrirhuguð háspennulína liggur yfir votlendi á Laxárdalsheiði. Með því að vanda leiðarval og frágang vinnuslóðar telur framkvæmdaraðili að minni hætta verði á skemmdum á votlendi en ef engar slóðir verða lagðar.
Til að lágmarka umhverfisáhrif á votlendið er fyrirætlun framkvæmdaraðila að leggja eins efnislitla slóð yfir heiðina og mögulegt er og haga hönnun og framkvæmd þannig að burðarþol vegslóðar þar sem mest votlendi er (milli mastra 32 og 35), miðist við léttari umferð en á öðrum svæðum.
Eftirfarandi eru helstu hönnunar- og framkvæmdaþættir sem f hyggst ganga út frá við lokahönnun línunnar á þessu svæði:
- Vegslóð. Gera þarf fært fyrir krana yfir Gunnuvörðumýri til að komast að möstrum við þverun Laxárdals að vestanverðu. Þar sem um botnlanga er að ræða, verður lítil umferð á framkvæmdatíma frá mastri 36 að þverunarmastri við Laxárdal að vestanverðu (mastur 30) og því hægt að komast af með efnisminni slóð. Lagður verður jarðvegsdúkur undir vegslóðina sem minnkar efnisþörf. Gert er ráð fyrir að yfirborðsbreidd slóðar verði að jafnaði 3,5 m og meðalþykkt um 0,4 m.
- Plan í mastursstæði. Gert er ráð fyrir að gerð verði reisingarplön við möstrin á Laxárdalsheiði. Reisingarplönin (eins og slóðin) verða lögð ofan á jarðvegsdúk til að minnka umfang og efnisþörf.
- Stagfestur. Til að lágmarka jarðvinnu í mastursstæði (efnisflutningar og þyngd tækja) verða stagfestur fóðraðir bergboltar. Um er að ræða útfærslu sem notuð er í Kröflulínu 3 á viðkvæmum svæðum, t.a.m. í votlendi og á grónum svæðum. Borvagn á beltum er notaður við að koma fyrir bergboltum. Borað í gegnum mýrina og áfram niður í klöpp/fastan botn þar undir. Ekki er þörf á aðfluttu fyllingarefni.
Allar ráðstafanir sem taldar eru upp hér á undan miða að efnisminni vegslóð en almennt þekkist við byggingu 220 kV loftlína á viðkvæmum svæðum eins og votlendi er. Hönnun og kröfur í útboðsgögnum tryggja að léttari tæki en venjulega munu fara um svæðið og athafna sig. Þannig er komið til móts við kröfur um að hlífa eins og kostur er viðkvæmum svæðum. Enn fremur er dregið úr efnisþörf á aðfluttu fyllingarefni eins og kostur er.


Athugasemd 2:
En óháð því verður línan, ef af breytingu verður að liggja yfir votlendið þar sem það er breiðast, um 1,5 km. Aftur á móti er þörfin fyrir að fara yfir votlendi lágmörkuð með því að halda sig við upphaflega áætlun.

Svar 2:
Það er rétt að loftlínukostur samhliða Kröflulínu 1 var í mati í á umhverfisáhrifum talin hafa heldur minni áhrif á gróður en aðalvalkostur. Framkvæmdaraðili mun kosta framkvæmdir við að endurheimta jafn stórt votlendi og tapast við framkvæmdir í samráði við, Umhverfisstofnun og sveitarfélög á línuleiðinni og mögulega fleiri fagaðila.


Athugasemd 3
Ýmsar rangfærslur vegna þessarar línulagnar hafa verið á kreiki. Nefna má að því hefur verið haldið fram, í andmælaskyni við upphaflega fyrirhugað línustæði að hún eigi að liggja yfir Varastaðaskóg. Þetta er alrangt. Núverandi Kröflulína liggur við norðurenda hans og þar sem Hólasandslínunni var fyrirhugaður staður norðan við hana er þessi staðhæfing því fráleitari. Þar er skóglaust svæði að undanteknum þó örfáum strjálum birkirunnum, hlíð dalsins er annars fjalldrapa og víði vaxin. Mér er einnig kunnugt um að af hálfu Veiðifélags Laxár og Krákár var lagst gegn línunni vegna truflunar sem stangaveiðimenn hefðu af henni. Þetta er tilhæfulaust af þeirri einföldu ástæðu að einmitt þarna, á alllöngum kafla fellur Laxá með samfelldum, stríðum straumi, of hörðum og snauðum af svifum eða smálygnublettum til þess að veiðimönnum komi til hugar að kasta þar öngli í vatn. Á fjörutíu og sjö ára ferli mínum sem stjórnarmaður og formaður Veiðifélags Laxár og Krákár vissi ég aldrei til þess að Kröflulínan yrði veiðimönnum tálmun né þyrnir í augum!

Svar 3
Við val á aðalvalkosti Landsnets í mati á umhverfisáhrifum var m.a. litið til álits veiðifélags Laxár og Krákár en þar segir meðal annars:
„Hægt er að rökstyðja að syðri loftlínukostur (aðalvalkostur LN) sé skárri en sá nyrðri vegna þess að áin fellur bratt á þeim stað og enginn vinsæll veiðistaður er mjög nærri. Breytingin (miðað við nyrðri kostinn) færir línuna 1,2 km nær veiðisvæðinu í Mývatnssveit og þar með lendir neðsti hluti þess svæðis inn á áhrifasvæði línunnar. Frá sjónarhóli veiðimanna í Laxárdal er syðri valkosturinn skárri en frá sjónarhorni veiðimanna á neðsta hluta Mývatnssvæðisins aftur á móti sá nyrðri. Nyrðri kosturinn gerir ráð fyrir að línan liggi mjög nærri vinsælum veiðistað við Varastaðahólma eins og Kröflulína 1 gerir nú. Tvær línur í mismunandi hæð en með skömmu millibili á þessum stað eru mikil lýti á fögrum og fjölsóttum stað auk þess að valda áflugshættu. Verði aðalvalkostur LN ofaná og Kröflulína 1 færð suður um 1,2 km og hengd á sömu möstur í 1 km breiðu hafi yfir dalinn er hægt að líta svo á að sjónræn áhrif í Laxárdal hafi verið takmörkuð nokkuð miðað við að loftlínukostur sé valinn. Tvær línur yfir Laxá, með örstuttu millibili ofan við Varastaðahólma, eða með 1,2 km millibili, í náttúruperlu á borð við Laxárdal, er hins vegar ótæk tilhögun að mati stjórnar VLK“.



Athugasemd 4:
Sé talið óæskilegt að Hólasandslína 3 liggi yfir Varastaðastaðaskóg ætti fyrirhuguð breyting á línustæði varla að koma til greina þar sem samkvæmt henni verður hún yfir miðjum skóginum eða rétt sunnan við hann miðjan. Óhjákvæmilegt er einnig að þessi staðsetning hefði í för með sér mun meiri örðugleika á viðhaldi og viðgerðum en annars væri.


Svar 4:
Eftir að framkvæmdum líkur og Hólasandslína 3 er komin í rekstur þarf línan eðlilegt viðhald svo að rekstraröryggi hennar sé tryggt.
Eftirlit og viðhald Hólasandslínu 3 yfir Varastaðaskógi og Laxárdal verður trúlega meiri örðugleikum búið en að jafnaði er í línustæði á Íslandi. Á það við hvort sem um er að ræða línustæði aðalvalkostar eða línustæði samhlið Kröflulínu 1. Það er hins vegar langt frá því að vera illmögulegt. Fyrstu árin má búast við að herða þurfi á stagvírum mastra og mögulega rækta eða laga raskað landsvæði. Reglubundnar skoðanir fara fram á línunni á nokkurra ára fresti og skipt um íhluti ef talin er þörf á því. Drónar verða notaðir við hluta af skoðunum. Ef þörf er á að skoða eða laga leiðara yfir dalnum verður það gert með dróna eða í körfu sem hangir á leiðurum.

Athugasemd 5:
Ávinningur af henni yrði sá einn að fjarlægja línuna, vestan Laxár, úr sjónmáli þeirra sem koma að Ljótsstöðum. Sumir af hinum mörgu eigendum jarðarinnar koma þangað e.t.v. einu sinni á ári.
Þar sem ég hef ekki fundið hnit fyrir mastrið, sem standa á á dalbrúninni að vestan get ég ekki fullyrt hvort það verði í landi Ljótsstaða eða Brettingsstaða en það virðist eiga að vera mjög nálægt landamerkjum þessarra jarða skv. gildandi landamerkjaskrá.
Tekið skal fram að ég hef engra hagsmuna að gæta varðandi umrædd línustæði. Hinsvegar hefur í undirbúningsferli að þessari línulögn verið leitað til mín sem staðkunnugs manns. Nú, þegar undirbúningurinn er kominn á þetta stig þykir mér verulega miður að af tveim kostum um línustæði hefur sá verið valinn, sem miklu verri er með þeim ávinningi einum sem áður er lýst. Ókostina hef ég einnig nefnt og er sá verstur að verða, breytingarinnar vegna að leggja línuveg yfir breiðan, rennblautan mýrarflóa, þar sem djúpt virðist vera á fast. Þetta myndi leiða af sér varanlega röskun. Með upphaflega áætluðu leiðinni er aftur á móti hægt að sneið að mestu hjá því að leggja flutningaleið fyrir efni og tæki þvert yfir mýrarnar. Röskun á landi væri þá hægt að halda í lágmarki.

Svar 5:
Í niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum kemur fram að í samanburði loftlínukostar samhliða Kröflulínu 1 og aðalvalkostar eru áhrif þess fyrrnefnda neikvæðari á fleiri umhverfisþætti eða fimm (fugla, landslag og ásýnd, útivist og ferðamennsku, fornleifar og náttúruverndarsvæði). Í tilviki þriggja umhverfisþátta eru áhrifin talin sambærileg og minni í tilviki tveggja umhverfisþátta (gróðurs, þar með talið votlendis og landnotkunar og skipulags).


Skútustaðahreppur

Skútustaðahreppur gerir ekki athugasemdir við skipulagstillöguna.

Gefur ekki tilefni til svars.


Landgræðslan:

Landgræðslunni barst til umsagnar auglýsing um breytingu á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar. Landgræðslan hefur kynnt sér tillöguna og byggir umsögn stofnunarinnar á lögum um landgræðslu nr. 155/2018, einkum er lýtur að gróðurvernd, stöðvun jarðvegseyðingar og uppgræðslu eyddra og vangróinna landa.

Landgræðslan gerir engar sérstakar athugasemdir við þessa breytingartillögu en áréttar að framkvæmdin mun koma til með að hafa talsverð neikvæð staðbundin áhrif á gróðurfar á línuleiðinni, að stórum hluta varanleg. Landgræðslan leggur áherslu á vandaðan frágang á verkstað til að lágmarka megi þessi áhrif eins og kostur er. Að sama skapi er mikilvægt að vandað sé til við mótvægisaðgerðir, ekki síst hvað varðar votlendi og náttúrulega birkiskóga.

Í kafla breytingartillögunnar um mótvægisaðgerðir gróðurs og vistkerfa kemur fram að ,,Landsnet muni endurheimta jafn stórt votlendi og tapast við framkvæmdina í samráði við umhverfisstofnun, viðkomandi sveitarfélög á línuleiðinni og fagaðila?. Eins og Landgræðslan benti á í umsögn sinni um Frummatsskýrslu Hólasandslínu 3, hefur Landgræðslan frá árinu 2016 rekið verkefni um endurheimt votlendis hérlendis og byggt upp þekkingu og reynslu á viðfangsefninu og er reiðubúin að veita ráðgjöf þar að lútandi ef eftir því verður óskað.

Landgræðslan telur jákvætt að þvera eigi Laxárdal í einu löngu hafi til að lágmarka rask í dalnum. Að sama skapi er ánægjulegt að leggja eigi áherslu á að svarðlag verði varðveitt eins og hægt er og nýtt til frágangs á verkstað.

Landgræðslan gerir ekki frekari athugasemdir við skipulagstillöguna en er reiðubúin til að veita frekari upplýsingar og ráðgjöf um þá þætti er að verksviði hennar snúa, um jarðvegs- og gróðurvernd, uppgræðslu, endurheimt votlendis, varnir gegn landbroti og sjálfbæra nýtingu lands, sé þess óskað.

Svar:
Gefur ekki tilefni til svars.


Minjastofnun:
Með tölvupósti sendum 19. mars óskaði Guðjón Vésteinsson eftir umsögn Minjastofnunar um breytingu á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar.

Fornleifaskráning hefur verið gerð vegna umsagnar um mat á umhverfisáhrifum Hólasandslínu 3, sjá Bjarni F. Einarsson: Fornleifaskráning vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Hólasandslínu 3, loftlínu eða jarðstrengs frá Hólasandi að Akureyri. Fornleifafræðistofan 2018 og Bjarni F. Einarsson: Fornleifaskráning í Reykdælahreppi vegna breytinga á Hólasandslínu 3. Fornleifafræðistofan 2019.

Fjöldi minja eru í leið Hólasandslínu og hefur Minjastofnun gert ýmsar kröfur um mótvægisaðgerðir til að tryggja verndun þeirra eins og hægt er. Það er ekki rétt sem segir í skipulaginu á uppdrætti 6 að það eigi eftir að skrá hluta svæðisins en Minjastofnun minnir á þær mótvægisaðgerðir sem eftir á að uppfylla af hendi framkvæmdaraðila.

Að öðru leyti hefur Minjastofnun Íslands ekki athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulagi Þingeyjasveitar.

Svar:
Gerðar verða kröfur um verndun minja í framkvæmdaleyfi.
Texti á uppdrætti 6 verður uppfærður í samræmi við athugasemd.

Náttúruverndarnefnd Þingeyinga:
Fyrirhuguð Hólasandslína 3 mun þvera verndarsvæði Mývatns og Laxár í Laxárdal. Svæðið er Ramsarsvæði með alþjóðlega mikilvægt verndargildi m.t.t. vatnafugla og verndað með sérlögum um verndun Mývatns og Laxár (nr. 97/2004). Að mati Náttúruverndarnefndarinnar er óásættanlegt að það svæði verði þverað með nýrri raflínu, á nýjum stað, án þess að Kröflulína 1 verði tekin niður eða hún lögð samhliða Hólasandslínu 3, í sömu hæð yfir dalinn.

Nú þegar fellur fjöldi fugla af völdum Kröflulínu 1 í Laxárdal árlega. Fyrirhuguð Hólasandslína 3, sem loftlína, mun auka afföll fugla í dalnum, sem er heilsárs búsvæði fágætra fuglategunda með hátt verndargildi eins og húsandar, gulandar og fálka. Um Laxárdal liggja farleiðir fugla til og frá Mývatni, líklega t.a.m. flórgoða, hávellu og hrafnsanda sem þurfa að komast til Mývatnssveitar af sjó. Vatnafuglar og ránfuglar eru meðal þeirra fugla sem viðkvæmastir eru gagnvart áflugi við háspennulínur.

Náttúruverndarnefnd Þingeyinga telur að breyting á aðalskipulagi þurfi að taka tillit framangreindra atriða og gera ráð fyrir að raflínur, þ.e. loftlínur, yfir Laxárdal verði bara á þeim stað sem Hólasandslína 3 mun þvera dalinn. Mikilvægt er að leiðarar Kröflulínu 1 verði þar í sömu hæð og Hólasandslínu 3.


Svar:
Fram kemur í uppfærðum kafla 2.7 í matsskýrslu er liðið nokkuð á líftíma Kröflulínu 1 en ákvörðun um framtíð línunnar liggur ekki fyrir. Það helsta sem fram kemur þar og svarar því sem snýr að legu Kröflulínu 1 í athugasemdinni er eftirfarandi:
Framtíð núverandi 132 kV flutningskerfis þarf að skoðast í ljósi uppbyggingar nýs 220 kV kerfis. Huga þarf að fleiru en flutningsgetu; afhendingaröryggi og stöðugleiki flutningskerfisins eru til að mynda mikilvægir þættir. Flutningskerfið er samhangandi heild og þó kerfið sé styrkt á einum stað eru aðrir hlutar þess eftir sem eru jafn veikburða og áður. Niðurrif Kröflulínu 1 myndi takmarka verulega þau jákvæðu áhrif sem Hólasandslína 3 hefði á afhendingaröryggi í kerfinu, enda yrði þá enn um að ræða einfalda tengingu milli Rangárvalla og Hólasands (Kröflu) og tengingar þessara punkta hinum megin frá óbreyttar frá því sem nú er. Frekari styrkingar í kerfinu eru því nauðsynlegar svo hægt sé að taka ákvarðanir um niðurrif einstakra lína í 132 kV kerfinu. Loks má nefna að áform um að Laxárlína 1 (66 kV) verði rifin eftir að Hólasandslína 3 kemur í rekstur, byggjast að nokkru leyti á því að Kröflulína 1 standi áfram, a.m.k. þar til frekari styrkingar hafa verið gerðar á meginflutningskerfinu.
Landsnet vinnur að framtíðaruppbyggingu meginflutningskerfisins í samræmi við langtímaáætlun Kerfisáætlunar 2019-2028, þar sem miðað er að því að geta mætt þörfum næstu áratugi, samanber sviðsmyndir um raforkunotkun til 2050. Í áætluninni er lagt mat á tvo meginvalkosti við mögulega framtíðaruppbyggingu. Um er að ræða valkosti yfir miðhálendið (A valkostir) eða valkosti sem snúa að styrkingu meðfram núverandi byggðalínu (B valkostir).
Niðurstaða valkostagreiningar kerfisáætlunarinnar, sem snýr að þróun og framtíð meginflutningskerfisins, er sú að þær línulagnir sem eru sameiginlegar öllum valkostum verði fullkláraðar á því tímabili sem áætlunin nær yfir. Hólasandslína 3 er ein þessara línulagna. Hún er sameiginleg línuleið meginvalkosta A og B og að auki sameiginleg undirvalkostum þeirra, þ.e. nýbyggingu meginflutningskerfisins eða endurbyggingu þess (sem leiðir til niðurrifs eldri línu).
Þegar þær lykilfjárfestingar sem tilgreindar eru í Kerfisáætlun 2019-2028 verða langt komnar í uppsetningu þá munu liggja fyrir skýrari forsendur til að taka ákvarðanir um frekari þróun kerfisins og hvaða valkostur/ir verða endanlega fyrir valinu. Leiðaval, þ.e. hálendisleið eða byggðaleið, getur haft áhrif á afdrif núverandi 132 kV byggðalínukerfis. Ef valið er að fara yfir hálendið (valkostur A), þarf samt sem áður að vera tryggt að hægt sé að reka flutningskerfin á Suðurlandi og Norðurlandi þó svo að Hálendislína fari úr rekstri. Miðað við núverandi stöðu felur það í sér að æskilegast væri að núverandi 132 kV kerfi stæði áfram til að geta veitt rafmagni milli þessara svæða. Verði byggðaleiðin hins vegar farin (valkostur B) verða allir afhendingarstaðir meginflutningskerfisins tengdir úr tveimur áttum með jafn sterkum tengingum. Við það myndi hlutverk núverandi 132 kV breytast úr því að vera meginæð flutningskerfisins á viðkomandi svæði yfir í það að þjóna meira til innmötunar á svæðisbundnu flutningskerfin. Framtíð 132 kV kerfisins yrði þá að skoða og ákveða með tilliti til breyttrar notkunar. Með tilliti til krafna sem gerðar eru til Landsnets um hagkvæma uppbyggingu flutningskerfisins, þá er rétt að vekja athygli á að loftlínur eru afskrifaðar á 50 árum og því ábyrg meðferð á fé að nýta mannvirki út afskriftatímann.
Í ljósi framangreinds er því of snemmt að segja til um hver verður framtíð Kröflulínu 1, en Kerfisáætlun 2019-2028 gerir ráð fyrir að hún standi að minnsta kosti næstu 10 ár. Landsnet væntir þess að við gerð komandi kerfisáætlana, þegar stigin verða frekari skref í ákvörðunum um þróun meginflutningskerfisins, verði betur hægt að sjá fyrir framtíð Kröflulínu 1, sem bæði ræðst þá af þörf fyrir línuna og ástandi hennar. Núverandi staða er því sú að ekki eru til staðar raunhæfar forsendur svo hægt sé að setja fram nákvæma tímasetningu um hvenær ráðist verður í aðgerðir við Kröflulínu 1. Aftur á móti telur framkvæmdaraðili að ákvarðanir um framtíð Kröflulínu 1 séu ekki í svo fjarlægri framtíð að hægt sé að rökstyðja kostnað við umfangsmiklar breytingar á línunni, sem óvíst er að nýtist þegar kemur að endanlegri ákvörðun um hlutverk hennar í flutningskerfinu. Mögulega gætu aðstæður orðið með þeim hætti að lega línu eða strenglögn á kafla nýtist ekki framtíðaruppbyggingu. Rétt er að hafa í huga að Landsneti ber að byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt og er því fylgt eftir meðal annars í raforkulögum með ákvæðum um tekjumörk fyrirtækisins. Þá er einnig spurning hvort m.t.t. umhverfisáhrifa sé réttlætanlegt að ráðast í framkvæmdir, sem hafa í för með sér mikla röskun á landi, ef þær nýtast ekki nema í tiltölulega fá ár. Framkvæmdir á vegum Landsnets þurfa að hljóta samþykki Orkustofnunnar í framkvæmdahluta kerfisáætlunar eða sækja þarf um þær sérstakt leyfi, hafi þær ekki verið hluti af kerfisáætlun.

Varðandi áflug fugla er hér að aftan hluti umsagnar framkvæmdaraðila til Umhverfisstofnunnar vegna framkvæmda innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár.
Landsnet stóð fyrir myndavélavöktun á Kröflulínu 1 þar sem leiðarar hennar þvera Laxá í Laxárdal, um 1 km norðar en fyrirhuguð þverun Hólasandslínu 3 er áætluð. Á tímabilinu frá maí fram í ágúst 2015 sáust tæplega 2.000 fuglar fljúga undir eða yfir Kröflulínu 1 í myndavél, án þess að nokkur flygi á línuna Af þessum tæplega 2.000 fuglum sást enginn árekstur en alls virtust 124 fuglar þurfa að hækka/lækka flugið til að forðast línuna. Í skýrslunni setur höfundur þann fyrirvara á niðurstöðurnar að ekki sé hægt að útiloka að áflug hafi átt sér stað án þess að myndavélarnar greindu það, enda fundust hræ af fimm fuglum (1 álft, 1 gæs og 3 mófuglar) við aðra myndavélina auk þess sem refur sást í vélinni. Leiðarar Hólasandslínu 3 verða rúmlega helmingi sverari (39,24 mm) en leiðarar Kröflulínu 1 (24,43 mm) sem ætti að auðvelda fuglum að sjá þá og komast hjá áflugi. Þessi þriggja mánaða rannsókn bendir ekki til þess að framkvæmdin hafi veruleg áhrif á umrædda stofna en í þessu samhengi er áréttað að óvissa ríkir um áhrifin og endurspeglast sú óvissa í niðurstöðu sérfræðiskýrslu sem fylgdi frummatsskýrslu Hólasandslínu 3, um áhrif á fugla. Ástæða óvissunnar var sú að fyrrgreind myndavélavöktun náði ekki til vetrar og fyrri hluta vors, sem er sá árstími sem búast má við mestu áflugi samkvæmt erlendum rannsóknum , en húsönd og gulönd nýta svæðið árið um kring. Landsnet bætti því við vöktunartímabil Kröflulínu 1 á sama stað og fyrri vöktun hafði átt sér stað til þess að fá vitneskju um mögulegt áflug að vetri til. Vöktunin stóð yfir frá 1. nóvember 2018 til 19. apríl 2019. Á því tímabili flugu um 5800 fuglar undir eða yfir línuna á því bili sem myndavélinni var beint að, þ.e. þar sem leiðarar línu þvera Laxá. Enginn þeirra flaug á leiðara línunnar. Gróft mat gefur til kynna að um 20% hafi farið undir leiðara en 80% þeirra hafi farið yfir leiðarana, en ekki hærra en 20 m yfir þá. Leiðarar Kröflulínu 1 eru í 12 m hæð yfir vatnsborði Laxár og því var hæsta flughæð fugla frá vatnsyfirborði rúmir 30 m og þá vel undir 50 m hæð sem verður hæð leiðara í Hólasandslínu 3 yfir Laxá.

Landsnet er meðvitað um að Hólasandslína 3 valdi hættu á áflugi í Laxárdal, og að gæta þurfi sérstakrar varúðar þar og hugsanlega grípa til mótvægisaðgerða til að halda áhrifum innan ásættanlegra marka.

Í grein frá árinu 2018 sem tekur saman rannsóknir sem gerðar hafa verið á helstu breytum sem skipta máli í tengslum við áflug fugla á raflínur er meðal annars fjallað um merkingar á leiðurum. Þar kemur fram að rannsóknir sýni að merkingar á leiðurum dragi úr áflugi fugla. Töluverður breytileiki sé í árangri þeirra merkinga sem ráðist af nærliggjandi umhverfi, fuglategundum (hér getur stærð, vænghaf, atferli t.d. ferðatími dags og flughæð skipt máli) og gerð viðkomandi mannvirkis. Með tilliti til þessa sé því til staðar óvissa um hvaða gerð merkinga henti best við tilteknar aðstæður, en margvíslegur útbúnaður sé til og annar í prófunum. Nýrri gerð merkinga byggi á vitneskju um sjónsvið fugla og merkingar því stærri en áður hafi verið og liggi nær hver annarri á leiðurunum. Þá séu merkingarnar í skarpari litum eða með endurskini og þær sem séu með hreyfanlegum hlutum virðast gefa besta árangurinn. Litlar niðurstöður liggi þó fyrir um samanburð á virkni þessara merkinga. Í greininni eru raktir ýmsir vankantar á nýrri gerð merkinga, m.a. með tilliti til endingar, ísingarsöfnunar o.fl., en verið sé að vinna að frekari þróun þeirra.

Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdaraðila er Landsnet er sammála því að ráðast þurfi í mótvægisaðgerðir, ef sýnt er að framkvæmdin kemur til með að hafa mjög neikvæð áhrif á viðkomandi umhverfisþátt. Í tilviki fugla byggir slíkt mat á upplýsingum um grunnástand fuglalífs og hversu mikil áhætta er til staðar með tilliti til áflugs. Fyrir liggja upplýsingar um ástand fuglalífs á línuleiðinni en Landsnet telur að frekari upplýsingar þurfi að liggja fyrir um mögulega hættu á áflugi áður en teknar eru ákvarðanir um hugsanlegar mótvægisaðgerðir. Með myndavélavöktun á Kröflulínu 1 fást væntanlega upplýsingar sem nýta má til að taka ákvörðun um hvort og þá hvaða gerðir merkinga myndu vera heppilegastar, ef til þess kæmi. Við slíka ákvörðun þarf þá að vega og meta ávinning merkinga með tilliti til áflugshættu, mögulega áhættu sem merkingar gætu skapað í rekstri línunnar, t.d. ísingarhættu og hættu á að búnaðurinn valdi skemmdum á leiðurum með tilheyrandi rekstraráhættu. Einnig þyrfti að meta hvort mannvirkið yrði enn sýnilegra en ella, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á landslag og ásýnd.



Náttúrufræðistofnun Íslands:
Hólasandslína hefur farið í mat á umhverfisáhrifum og lá álit Skipulagsstofnunar fyrir 19. september 2019. Í skipulagsgögnunum kemur fram að fara skuli eftir áliti Skipulagsstofnunar hvað varðar leyfisveitingar og framkvæmd þ.m.t. mótvægisaðgerðir. Einnig eru í skipulagstillögunum tilgreint að sett verði fram skilyrði um vöktun eftir því sem við á s.s. um áflug fugla á leiðara og verði það gert í samvinnu við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands sérstaklega í Laxárdal.
Svo virðist sem það hafi gleymst að tilgreina Umhverfisstofnun sem leyfisveitanda innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár sbr. 3. gr. laga nr. 97/2004.
Náttúrufræðistofnun leggur ríka áherslu á að við allar framkvæmdir vegna Hólasandslínu 3 verði áfram leitað allra leiða til að draga úr áhrifum á náttúru þeirra svæða sem farið verður um. Þetta á sérstaklega við um, fyrri utan landslag almennt, alla slóðagerð þannig að gengið verði frá öllum slóðum eins og hægt er sbr. mótvægisaðgerðir og reynt að leggja ekki slóða nema engin önnur leið sé fær. Á þetta sérstaklega við t.d. í Bárðardal og á Fljótsheiði austur að Laxárdal og verndarsvæðinu þar.
Þess verið einnig sérstaklega gætt að nota ekki framandi tegundir plantna til að ganga frá námum sbr. mótvægisaðgerðir.
Þar sem framangreindar skipulagstillögur byggja á og eru í samræmi við framangreint álit Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisárhrifum Hólasandslínu 3 telur Náttúrufræðistofnun ekki ástæðu til að gera frekari athugasemdir en ítrekar að farið verið eftir þeim mótvægisaðgerðum sem komið hafa fram í málinu og að sjálfsögðu reynt að gera betur þar sem það er hægt bæði hvað varðar náttúru- og menningarminjar.

Svar:
Sett verður inn að Umhverfisstofnun sé leyfisveitandi innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár.
Að öðru leyti er vísað til þeirra mótvægisaðgerða sem settar eru fram í áliti Skipulagsstofnunnar og verða settar fram sem skilyrði í framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni.


Vegagerðin

Vegagerðin sendi Þingeyjarsveit umsókn um að náma við Hlíðarenda í Bárðardal yrði sett inn á aðalskipulag sveitarfélagsins þann 16. apríl 2019. Sú náma er í nágrenni við fyrirhugaða Hólasandslínu 3 í Bárðardal. Þar sem þær breytingar sem eru kynntar fela í sér að nokkur fjöldi af nýjum námum verði settur inn á skipulag telur Vegagerðin rétt að skoða hvort náman við Hlíðarenda sé sett inn á aðalskipulag á sama tíma.

Samkvæmt Vegalögum nr. 80/2007 þar að hafa samráð og fá leyfi hjá Vegagerðinni fyrir rafmagnsmöstrum innan veghelgunarsvæðis og fyrir öllum strengjum sem eru innan veghelgunarsvæðis eða þvera veg, hvort sem um er að ræða jarðstrengi eða loftlínur.
32. gr. Fjarlægð mannvirkja frá vegi. Byggingar, leiðslur, auglýsingaspjöld, skurði eða önnur mannvirki, föst eða laus, má ekki staðsetja nær vegi en 30 m frá miðlínu stofnvega og 15 m frá miðlínu annarra þjóðvega nema leyfi veghaldara komi til.
Samkvæmt Vegalögum nr. 80/2007 þarf einnig að hafa samráð og hafa leyfi Vegagerðarinnar vegna allra tenginga við þjóðvegi, hvort sem um er að ræða varanlegar tengingar eða tímabundnar t.d. að námum eða vinnusvæði.
29. gr. Tengingar við þjóðvegi. Óheimilt er að tengja vegi þjóðvegum nema í samræmi við skipulag og að fenginni heimild Vegagerðarinnar.
Einnig er bent á lágmarkshæð á loftlínum skv. Vegalögum.
33. gr. Lágmarkshæð undir mannvirki yfir vegi. Loftlínur má ekki strengja yfir veg nema lægsti hluti línu sé að minnsta kosti 5 m frá yfirborði vegar nema með heimild veghaldara.

Náman sem Vegagerðin sótti um að væri sett inn á aðalskipulag þann 16. apríl 2020 og bent var á í fyrri umsögn er því miður ekki sett inn á skipulagið með þessum breytingum þótt umrædd náma sé mjög nálægt fyrirhugaðri Hólasandslínu 3. Breyta þarf því skipulaginu á þessu svæði aftur til að hafa efni í endurbætur á Bárðardalsvegi síðar.

Í auglýstri breytingu á aðalskipulaginu eru taldir upp þeir aðilar sem veita þurfa leyfi fyrir byggingu Hólasandslínu 3. Eins og kom fram í fyrri athugasemdum þarf að leita leyfis Vegagerðarinnar samkvæmt Vegalögum. Vegagerðin á því að vera listuð upp meðal leyfishafa.

Svar:
Bætt verður í texta að leyfi Vegagerðar þarf að liggja fyrir vegna framkvæmdanna. Einnig er sett skilyrði við útgáfu framkvæmdaleyfis að leyfi Vegagerðar þarf að liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjast innan veghelgunarsvæða.
Náma við Hlíðarenda er háð öðrum skipulagsmálum og verður unnið að því sérstaklega.
Að öðru leyti krefst athugasemd ekki svara.



Umhverfisstofnun
Athugasemd 1:
Í greinargerð kemur fram að ráðgert er að Hólasandslína 3 verði lögð innan sveitarinnar sem loftlína - að mestu samhliða núverandi Kröflulínu 1, sem er í megindráttum í samræmi við gildandi aðalskipulag Þingeyjarsveitar.
Auk þess kemur fram að í aðalvalkosti Landsnets, sem lagður er fram í matsskýrslu víkur lega línunnar frá gildandi aðalskipulagi á þremur stöðum, í Bíldsárskarði, Fnjóskadal og Laxárdal. Hefur Landsnet óskað eftir því að gerð verði breyting á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar í samræmi við aðalvalkost.
Umhverfisstofnun bendir á að stofnunin veitti umsögn varðandi frummatsskýrslu með bréfi til Skipulagsstofnunar dags. 27. nóvember 2018 varðandi ofangreinda framkvæmd.
Fnjóskadalur
Samkvæmt tillögunni mun háspennulínan liggja um tvö svæði í Fnjóskadal sem eru á náttúruminjaskrá. Annars vegar svæði nr. 514, Melar við Illugastaði, og hins vegar svæði nr. 515, Bleiksmýrardalur. Verndargildi Mela er talið vera: „Leifar af framburðareyrum í svonefndu Fnjóskadalsvatni, sem fyllti dalinn í lok ísaldar.“ Verndargildi Bleikmýrardals er talið vera: „Fjölbreytilegt landslag, berghlaup, jarðhiti er við Reyki og birkiskógur í hlíðum.“
Umhverfisstofnun telur að helstu áhrif línulagnar í Fnjóskadal munu verða neikvæð áhrif á jarðmyndanir, neikvæð sjónræn áhrif og áhrif á landslag.
Verndargildi svæða á náttúruminjaskrá í Fnjóskadal eru fyrst og fremst talin felast í jarðmyndunum og landslagi. Hólasandslína 3. mun í sjálfu sér ekki valda raski á jarðmyndunum á svæðinu Melar. Hins vegar mun verða frekara rask vegna efnistöku sem
fram mun fara í opnum námum og auka neikvæð áhrif á ásýnd, en draga má nokkuð úr þessum áhrifum með góðum frágangi.
Lega Hólasandslínu 3. í Bleiksmýrardal er í jaðri svæðisins, en mun hafa neikvæð áhrif á ásýnd svæðisins, en verndargildi þess er m.a. talið vera vegna landslags.
Umhverfisstofnun bendir á að í Fnjóskadal og í Bárðardal er birki sem fellur undir b. lið 1. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Svar 1:
Hólasandslína 3 mun fylgja Kröflulínu 1 á um 1,5 km kafla í gegnum jaðar Bleiksmýrardals, svæði á náttúruminjaskrá. Alls lenda fjögur möstur innan verndarsvæðisins. Verndarsvæðið nær aðeins út í Fnjóskadal og er það sú tunga sem að línan þverar. Hólasandslína 3 fer því aldrei inn í Bleiksmýrardal en verndarsvæðið er víðfeðmt og nær um 14,5 km inn dalinn. Slóð sem er nú þegar meðfram línuleiðinni verður styrkt og gera þarf stuttar hliðarslóðir að möstrunum fjórum. Áhrifin verða því fyrst og fremst sjónræns eðlis á jaðri verndarsvæðisins.
Um 0,6 ha af náttúrulegu birki sem nýtur verndar, lendir innan áhrifasvæðis framkvæmdar við Hellugnúpsá. Gera má ráð fyrir að raunverulegt rask á birki sé hins vegar mun minna þar sem framkvæmdin fylgir að mestu slóð sem fyrir er á svæðinu og þekja birkis er skráð samfelld á slóðinni í gögnum Skógræktarinnar. Við vinnslu umhverfismatsins komu ábendingar frá náttúrufræðingum sem unnu sérfræðiskýrslu um gróður að æskilegt væri að sleppa vinnslu á efnistökusvæðum þar sem hætta væri á að raska gróðri á árbakka. Í kjölfarið var staðsetningu efnistökusvæðis N-10 breytt eftir úttekt sérfræðinga og er ekki gert ráð fyrir áhrifum á bakkagróður á nýja staðnum. Framkvæmdin var í matinu talin hafa lítil áhrif á verndargildi Bleiksmýrardals þar sem hún fer um skóglausan jaðar svæðisins og línuslóðin fylgir slóð sem fyrir er á svæðinu.

Athugasemd 2

Í 61. gr. laganna er kveðið á um sérstaka vernd þeirra vistkerfa og jarðminja sem taldar eru upp í 1. mgr. og 2. mgr. greinarinnar. Skv. 3. mgr. ber að forðast röskun þeirra náttúrufyrirbæra sem undir greinina falla, nema brýna nauðsyn beri til og ljóst að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi. Í greinargerð með frumvarpi til laga um náttúruvernd er með orðalaginu „brýn nauðsyn“ lögð áhersla á að einungis mjög ríkir hagsmunir geti réttlætt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir.
Í greinargerð kemur fram að það skóglendi sem nauðsynlegt reynist að ryðja verður mælt áður en framkvæmdir hefjast og skógur græddur upp á jafnstóru svæði og tapast við framkvæmdir.

Svar 2:
Framkvæmdaraðili hefur skyldur í samræmi við 9. gr. raforkulaga að byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, gæða raforku og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Hólasandslína 3 er mikilvægur hlekkur í uppbyggingu þessa kerfis.
Líkt og áskilið er í 1. gr. raforkulaga skal taka tillit til umhverfissjónarmiða við framkvæmdir í raforkukerfinu. Meðal annars í því skyni eru áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið borin saman við ákvæði náttúruverndarlaga, nr. 60/2013, en samkvæmt 3. mgr. í 1. gr. laganna eiga þau m.a. að stuðla að samskiptum manns og náttúru þannig að hvorki spillist líf eða land, loft og lögur. Flutningskerfi raforku verður ekki byggt eða starfrækt nema náttúra landsins sé að hluta nýtt til reksturs þess. Ríkir samfélagslegir hagsmunir búa þar að baki, bæði almennings og atvinnulífs. Er framkvæmdin þannig í samræmi við markmið náttúruverndarlaga, sem kveða á um „brýna nauðsyn“.
Við umhverfismatið og útfærslu framkvæmdarinnar var unnið með það í huga að lágmarka umhverfisáhrif, eftir því sem hægt er.
Í matsskýrslu (m.a tafla 8.1) voru lagðar fram mótvægisaðgerðir, m.a sem snúa að gróðri og þá sérstaklega birki, sbr. „Skóglendi sem nauðsynlegt reynist að ryðja verður mælt áður en framkvæmdir hefjast og mun Landsnet kosta framkvæmdir við að græða upp skóg á jafnstóru svæði og tapast við framkvæmdir. Haft verður samráð við Skógræktina um rask á skóglendi og hvernig staðið verður að mótvægisaðgerðum vegna þess.“
Mótvægisaðgerðum verður frekar gerð skil þegar kemur að umsókn um framkvæmdaleyfi.


Athugasemd 3

Bárðardalur
Í Bárðardal eru engin verndarsvæði og liggur Hólasandslína 3 samsíða Kröflulínu 1. og er unnt að nýta að mestu leyti með styrkingum núverandi línuslóðar.
Í Bárðardal verður ekki raskað jarðmyndunum sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd , utan 0,19 ha svæði Bárðardalshrauns sem verður raskað. Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að við valkostagreiningu að verndargildi hraunasvæða séu metin og m.a. tekið sé tillit til jarðmyndanna. Þess má einnig geta að leyfisveitanda er heimilt, skv. 5. mgr. 61. gr., að binda leyfi þeim skilyrðum sem eru nauðsynleg til að draga úr áhrifum framkvæmdarinnar á þau náttúrufyrirbæri sem verða fyrir röskun.

Svar 3
Í matsskýrslu er gerður samanburður á áhrifum valkosta á eldhraun og eins og fram kemur umsögn Umhverfisstofnunar raskar aðalvalkostur 0,19 ha svæði í Bárðardalshrauni. Ekki voru metnir aðrir valkostir í Bárðardal.

Athugasemd 4:

Fljótsheiði
Um Fljótsheiði liggur línan um víðáttumikið votlendi sem fellur undir a. lið 1. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Þar er auk þess finna mikla útbreiðslu vistgerða með mjög hátt verndargildi og er svæðið í frummatsskýrslu skilgreint sem „fremur mikilvægt búsvæði plantna“.
Umhverfisstofnun telur mikilvægt að leitað verði leiða til að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar á votlendi á Fljótsheiði.
Í frummatsskýrslu er fjallað um þann möguleika að framkvæmdir á Fljótsheiði fari fram á frosinni jörð og með þeim hætti verði dregið úr þörf fyrir slóðagerð í votlendi. Jafnframt er fjallað um þann möguleika að reisa möstur án aðkomu krana sem myndi draga enn frekar úr þörf fyrir línuveg. Umhverfisstofnun telur að fjalla eigi frekar um þennan möguleika sem og aðrar aðferðir við tilhögun framkvæmdarinnar sem miða að því að draga úr raski á votlendi. Umhverfisstofnun telur að undirbúa þurfi vandlega framkvæmd af þessu tagi. Rannsaka þurfi hvort unnt sé að koma fyrir öllum stagfestum með borun og hvort nauðsynlegt sé að flytja að burðarhæft efni fyrir undirstöður sem gæti kallað á flutning efnis sem erfitt gæti reynst að flytja að vetrarlagi.
Annars fer Hólasandslína 3. um mela, ræktað land og gróið mólendi. Línan þverar Skjálfandafljót og Kálfborgará sem eykur áflugshættu og eru álft (Cygnus cygnus) og grágæs (Anser anser) taldar vera þær tegundir sem eru í mestri hættu.
Á svæðinu hefur fundist ein plöntutegund með mjög hátt verndargildi og tvær tegundir með nokkuð hátt verndargildi. Ráðgert er að merkja fundarstaði heiðarstara (Carex heleonaste) á Fljótsheiði.
Umhverfisstofnun telur að helstu áhrif framkvæmdarinnar í Bárðardal gætu orðið vegna varanlegs rasks á votlendi á Fljótsheiði. Sjónræn áhrif verða bundin við líftíma mannvirkisins. Áhrif á fugla gætu orðið neikvæð en unnt er talið að draga úr þessum áhrifum ef leiðarar verða merktir.

Svar 4:
Varðandi áhrif á votlendi. Landsnet mun haga hönnun mannvirkisins og framkvæmdum þannig að burðarþol vegslóða á Laxárdalsheiði og Fljótsheiði, þar sem mest votlendi er, miðist við léttari umferð en á öðrum svæðum. Skv. greiningu á verkhönnunarstigi er um að ræða svæði á milli mastra 32-35 á Laxárdalsheiði og á milli mastra 63 og 69 á Fljótsheiði.
Eftirfarandi eru helstu hönnunar- og framkvæmdaþættir sem Landsnet hyggst ganga út frá við lokahönnun línunnar á þessum svæðum:
Vegslóð. Lagður verður jarðvegsdúkur undir vegslóðina sem minnkar efnisþörf. Gert er ráð fyrir að yfirborðsbreidd slóðarinnar verði að jafnaði 3,5 m og meðalþykktin um 0,4 m.
Plan í mastursstæði. Ekki er talin þörf á sérstöku plani í framangreind mastursstæði á Fljótsheiði en gert er ráð fyrir að komið verði fyrir tréflekum við undirstöður, annars vegar flekar sem skildir verða eftir og pressast niður í jarðveginn við undirstöðurnar og hins vegar færanlegir flekar sem hjálpa til við að dreifa þunga á borvagni sem borar fyrir bergboltum fyrir undirstöður. Þessi ráðstöfun kemur í veg fyrir að tæki sökkvi í mýrina þar sem ekki er gert ráð fyrir aðfluttri malarfyllingu til að mynda burð undir tæki við mastursstæðin. Hins vegar verða slóðir og reisingarplön á framangreindum kafla á Laxárdalsheiði eftir sem áður lögð ofan á jarðvegsdúk á þessum kafla og vegna þess að fyrirsjáanlegt er að umferð verður lítil um svæðið, verður slóðin efnisminni en þar sem vænta má meiri umferðar á framkvæmdatímanum.
Stagfestur. Til að lágmarka jarðvinnu í mastursstæði (efnisflutningar og þyngd tækja) verða stagfestur fóðraðir bergboltar. Um er að ræða útfærslu sem notuð er í Kröflulínu 3 á viðkvæmum svæðum, t.a.m. í votlendi og á grónum svæðum. Borvagn á beltum er notaður við að koma fyrir bergboltum. Borað í gegnum mýrina og áfram niður í klöpp/fastan botn þar undir. Ekki er þörf á aðfluttu fyllingarefni.
Undirstöður. Til að lágmarka jarðvinnu í mastursstæði (efnisflutningar og þyngd tækja) munu undirstöður mastra 63-68 á Fljótsheiði vera þannig útfærðar að boraðir eru fjórir bergboltar í gegnum jarðveginn niður á fastan botn og ofan á bergboltana er soðin stálplatti sem mastursfætur hvíla á. Þannig er ekki þörf fyrir aðflutta fyllingu né heldur flutning á forsteyptum undirstöðum né heldur steypu ef undirstöður væru staðsteyptar.
Borvagn er notaður til að bora fyrir og koma fyrir bergboltum í undirstöður. Kostur er að um er að ræða sama tæki og vinnur að borun bergbolta í stagfestur.
Reising mastra. Mastur og tenging við undirstöðu verður sérhönnuð (liðtenging með öxli) þannig að hægt sé að reisa með léttum spilbúnaði og gálga. Verði frost í jörðu á framkvæmdatíma og vegslóðir þannig með mun meira burðarþol en t.a.m. að sumri til, kemur til greina að nota krana við reisingu.
Samsetning mastra. Gert er ráð fyrir að beltatæki með krana verði notað við samsetningu masturs. Einungis yrði leyft að nota vörubíl með krana ef frost er í jörðu á framkvæmdatímanum. Þær ráðstafanir sem hér eru taldar upp leiða allar til þess að mun léttari umferð verður um slóðina á þessum svæðum. Gera má ráð fyrir að hámarksöxulþungi tækja sem fara um slóðina verði um helmingi minni en ef hefðbundin tæki færu um svæðið.
Í útboðsgögnum er skýrt tekið fram að umferð um „létta“ slóð milli mastra 63-68 á
Allar ráðstafanir sem taldar eru upp hér á undan miða að efnisminni vegslóð en almennt þekkist við byggingu 220 kV loftlína á viðkvæmum svæðum eins og votlendi er. Hönnun og kröfur í útboðsgögnum tryggja að léttari tæki en venjulega munu fara um svæðið og athafna sig. Þannig er komið til móts við kröfur um að hlífa eins og kostur er viðkvæmum svæðum. Enn fremur er dregið úr efnisþörf á aðfluttu fyllingarefni eins og kostur er.


Varðandi áhrif á fugla og möguleikum á merkingum til að draga úr áflugi, sjá svar við athugasemd Náttúruverndarnefndar.


Athugasemd 5:

Reykjadalur og Laxárdalur
Umhverfisstofnun bendir á að í Laxárdal tvö verndarsvæði. Annars vegar svæði nr. 523 á náttúruminjaská, Varastaðaskógur, en verndargildi svæðisins er talið vera: „Fallegur birkiskógur. Svæðið er að hluta friðlýst skv. lögum um vernd Mývatns og Laxár“ og hins vegar verndarsvæði Mývatns og Laxár sem verndað er skv. sérlögum nr. 97/2004. Lögunum er ætlað að tryggja vernd líffræðilegrar fjölbreytni á víðáttumiklu vatnasviði Mývatns og Laxár ásamt verndun jarðmyndana og landslags.
Verndarsvæði Mývatns og Laxár verður ekki raskað þar sem Laxárdalur verður þveraður með einu hafi (bil á milli tveggja mastra línu) þannig að áhrifin verða helst á ásýnd, landslag og fuglalíf. Auk þess gæti línan haft neikvæð áhrif á fugla vegna áflugshættu og gætu orðið sammögnunaráhrif með Kröflulínu 1. þar sem línurnar liggja mishátt yfir þveraðan dalinn sem gæti aukið líkur á áflugi. Helst er talið að andfuglar gætu verið í hættu. Ráðgert er að vakta línurnar og ráðast í merkingar á leiðurum ef talin verður þörf á slíkum aðgerðum.
Í Reykjadal og Laxárdal liggur línan um votlendi stærra en 2 ha sem njóta sérstakrar verndar skv. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Umhverfisstofnun telur að á þessum stöðum ætti að kanna möguleika á því að vinna fari fram á frosinni jörð til að draga úr neikvæðum áhrifum á votlendi og gróðurfar.
Svæðið þar sem línurnar þvera hringveg 1. í Reykjadal er talið með þeim stöðum þar sem sammögnunaráhrif línanna tveggja gætu orðið mikil. Umhverfisstofnun telur að þarna ætti að kanna möguleika á því að leggja Kröflulínu 1. í jörð sem mótvægisaðgerð við lagningu Hólasandslínu 3. í stað þess að bíða þar til líftíma Kröflulínu 1. lýkur.
Umhverfisstofnun telur að aðalvalkostur um þverun Laxárdals þar sem Laxárdalur verður þveraður með einu hafi feli í sér mun minni áhrif en lagning jarðstrengja. Línan myndi hafa neikvæð áhrif á landslag og ásýnd en líta ber til þess að ráðgert er að þvera Laxárdal í einu hafi hátt yfir dalnum þannig að gera má ráð fyrir að sjónræn áhrif verði mun minni en áhrif Kröflulínu 1. þar sem hún þverar Laxárdal. Áhrifin yrðu tímabundin líftíma línunnar og afturkræf hvað þessa umhverfisþætti varðar. Hólasandslína 3. gæti haft neikvæð áhrif á fuglalíf vegna áflugshættu en línan verður vöktuð og brugðist við ef ástæða þykir til.
Varðandi mótvægisaðgerðir telur Umhverfisstofnun að kanna eigi hvort unnt sé að færa Kröflulínu 1. að Hólasandslínu 3. svo hún þveri Laxárdal á sama hátt.
Framkvæmdir á friðlýstum svæðum
Umhverfisstofnun bendir á að fyrir allar framkvæmdir á friðlýstum svæðum þarf að sækja um leyfi til Umhverfisstofnunar.
Leita skal því leyfis Umhverfisstofnunar fyrir hvers konar framkvæmd og hvers konar starfsemi á verndarsvæðinu sem getur haft áhrif á lífríki, jarðmyndanir og landslag svæðisins, sbr. 1.-2. mgr. 17. gr. rg. nr. 665/2012.
Vegir í náttúru Íslands
Umhverfisstofnun bendir á að skv. 2. mgr. 32. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd skulu sveitarfélög við gerð aðalskipulags gera tillögu að skrá á stafrænum kortagrunni um vegi aðra en þjóðvegi í náttúru Íslands þar sem umferð vélknúinna ökutækja er heimil. Sveitarfélög skulu í tillögunni flokka vegina í samræmi við flokkun skv. 4. gr. reglugerð nr. 260/2018 um vegi í náttúru Íslands. Auk þess bendir stofnunin á að vinnu samkvæmt ákvæði þessu skal lokið fyrir árslok 2020.
Slík vegaskrá er jafnframt háð samþykki Umhverfisstofnun þegar svæði liggja innan friðlýstra svæða eða annarra stjórnvalda þjóðgarða þegar við á.
Við gerð skránnar skulu sveitarfélög jafnframt hafa samráð við Umhverfisstofnun eða önnur stjórnvöld þjóðgarða ef við á, Vegagerðina, Landgræðslu ríkisins, Landmælingar Íslands, samtök útivistarfélaga, náttúru- og umhverfisverndarsamtök, Bændasamtök Íslands og Samtök ferðaþjónustunnar.
Skráin hlýtur samþykkt samhliða afgreiðslu aðalskipulags eða breytinga á aðalskipulagi, sbr. 32. og 36. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010.

Svar 5:
Í matsáætlun fyrir Hólasandslínu 3 kom fram að með tilkomu nýrra 220 kV flutningslína á Norðurlandi opnist möguleikar á því að leggja hluta núverandi 132 kV lína, þ.m.t. Kröflulínu 1, að hluta í jörð. Umfang mögulegra jarðstrengslagna í hverri línu fyrir sig ræðst að verulegu leyti af innbyrðis samspili línanna, þ.e. jarðstrengur í einni línu dregur úr mögulegri lengd jarðstrengs í annarri línu. Lagning jarðstrengs í 132 kV flutningskerfið takmarkar þannig lengd jarðstrengs í 220 kV kerfinu og öfugt. Aftur á móti er svigrúm til jarðstrengslagna meira í km talið á lægri spennustigum, enda má að jafnaði gera ráð fyrir að launaflsframleiðsla jarðstrengs á 132 kV spennu sé innan við helmingur af launaflsframleiðslu jarðstrengs á 220 kV spennu. Þróunar- og tæknisvið Landsnets ýtti úr vör rannsókn á möguleikum þess að leggja hluta af núverandi 132 kV flutningskerfi á Norðurlandi í jörð, að því gefnu að komið væri nýtt 220 kV kerfi milli Blöndu og Fljótsdals. Niðurstaða þeirrar greiningar var sú að ef reiknað er með 12 km jarðstrengskafla í Hólasandslínu 3 í Eyjafirði og engir strengir í hinum 220 kV línunum, sé mögulegt að leggja í jörð 69 km af Kröflulínu 1 (af 82,2 km) ef allt svigrúmið er nýtt í þá stöku línu. Sé hins vegar reiknað með mögulegri hámarksstrenglögn í öðrum 132 kV línum á milli Blöndu og Fljótsdals, er svigrúmið í Kröflulínu 1 um 40 km í jarðstreng (af 82,2 km heildarlengd). Í þessari sviðsmynd er ekki tekið tillit til annarra möguleika í jarðstrengslögnum á svæðinu á lægri spennustigum, t.d. Dalvíkurlínu 1.
Óvissa er til staðar um framtíð núverandi raflína í meginflutningskerfinu (sbr. það sem segir í viðbrögðum LN við athugasemd náttúruverndarnefndar). Hins vegar er ljóst að ef talin verður þörf á rekstri 132 kV lína auk 220 kV meginflutningskerfisins mun Landsnet skoða vel hvar jarðstrengjum er best varið. Í því felst, með tilliti til mögulegra hámarkslengda jarðstrengja, að reynt verður að skoða með eins heildstæðum hætti og framast er unnt hvar mestur rekstrar- og umhverfislegur ávinningur fæst í jarðstrengslögnum á viðkomandi landsvæði. Þá væri meðal annars tekið mið af niðurstöðum umhverfismats einstakra framkvæmda líkt og Hólasandslínu 3, þar sem fram kemur hvar á línuleiðinni samlegðaráhrif nýrrar línu og eldri línu eru neikvæðust.
Tilfærsla Kröflulínu 1 að Hólasandslínu 3 í Laxárdal.
Sjá svar við athugasemd náttúruverndarnefndarinnar.

.......................................

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 vegna Hólasandslínu 3 verði samþykkt að teknu tilliti til ofangreindra athugasemda/umsagna og svara nefndarinnar. Jafnframt verði skipulagsfulltrúa falin málsmeðferð vegna gildistöku breytingartillögunnar.

     

3.

Einbúavirkjun - 1908034

 

Tekið fyrir að nýju erindi frá Hilmari Ágústssyni f.h. Einbúavirkjunar ehf. dags. 19.11.2019, þar sem óskað er eftir breytingu á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar vegna undirbúnings á fyrirhuguðum framkvæmdum við Einbúavirkjun í Bárðardal.

Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum 30. janúar 2020 að gerð yrði skipulags- og matslýsing vegna breytingar á aðalskipulagi og gerð nýs deiliskipulags fyrir Einbúavirkjun.

Fyrir fundinn liggur skipulags- og matslýsing frá Verkís.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulags- og matslýsing verði samþykkt með áorðnum breytingum og jafnframt verði skipulagsfulltrúa falið að kynna hana fyrir íbúum sveitarfélagsins, Skipulagsstofnun og öðrum hagsmunaaðilum líkt og 30. gr. og 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kveður á um.

     

4.

Fjósatunga - deiliskipulag - 1905026

 

Tekið fyrir að nýju erindi frá Ómari Ívarssyni dags. 17.05.2019 f.h. SS byggir þar sem óskað var eftir heimild til að nýta ákvæði 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 til að hefja vinnu við deiliskipulag fyrir hluta jarðarinnar Fjósatungu í Fnjóskadal. Um er að ræða 61,2 ha svæði sem er í gildandi aðalskipulagi skilgreint sem frístundabyggð, en skv. skilmálum aðalskipulags er heimilt að byggja allt að 60 frístundalóðir á svæðinu en lóðir skulu ekki vera minni en 0,5 ha.

Þann 4. júní 2019 samþykkti sveitarstjórn Þingeyjarsveitar að auglýsa skipulagslýsingu vegna fyrirhugaðs deiliskipulags. Skipulagslýsing var kynnt fyrir umsagnaraðilum, hagsmunaaðilum og almenningi þar sem þeim var gefinn kostur á að leggja fram sjónarmið og ábendingar sem að gagni gætu komið við gerð deiliskipulagsins og var athugasemdafrestur frá 2. júlí til og með 23. júlí.

Athugasemdir/umsagnir bárust frá Skipulagsstofnun, Vegagerðinni, Minjastofnun, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og Ólafi Rúnari Ólafssyni og Eyrúnu Kristínu Gunnarsdóttur.

Skipulagstillaga dags. 20.01.2020 sem samanstóð af 12 blaðsíðna greinargerð með forsendum og skipulags- og byggingarskilmálum og skipulagsuppdrætti í mælikvarða 1:2000 í A1. Þar var tekið tillit til þeirra umsagna og athugasemda sem bárust í vinnu við deiliskipulagstillöguna.

Skipulagssvæðið afmarkast af hluta þess svæðis sem skilgreint er fyrir frístundabyggð á jörðinni skv. aðalskipulagi. Skv. gildandi aðalskipulagi er 60 ha svæði skilgreint sem frístundabyggð í Fjósatungu og er svæðið staðsett í hlíðinni sunnan við bæjarstæðið í Fjósatungu. Skv. aðalskipulagi nær svæðið að gili ofan bæjarhúsanna í Fjósatungu í norðri, að bakka neðan hlíðarinnar í austri, að Grjótá í suðri og upp í um 250 m hæð í vestri.

Í skipulagslýsingu var gert ráð að skipuleggja allt 60 ha svæðið fyrir 60 frístundalóðir en síðar var ákveðið að skipuleggja svæðið í tveimur áföngum þar sem fyrirliggjandi minjaskráning nær aðeins til suðurhluta svæðisins. Fyrri áfangi deiliskipulagsins nær því frá aðkomuvegi upp með Grjótá í suðri og að gili sem liggur niður miðja hlíðina í norðri. Innan skipulagssvæðisins er einnig aðkomuvegurinn sem tengist inn á Illugastaðaveg. 4 ha einkajörð norðan Grjótár er utan skipulagsmarka deiliskipulagsins. Skipulagssvæðið er um 38 ha að stærð.

Sveitarstjórn samþykkti þann 26. mars 2020 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir hluta jarðarinnar Fjósatungu í Fnjóskadal. Tillagan var auglýst frá og miðvikudeginum 8. apríl með athugasemdarfresti til og með miðvikudagsins 20. maí 2020. Athugasemdir bárust í auglýsingu.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að fresta málinu til næsta fundar nefndarinnar.

     

5.

Arnstapi - breyting á deiliskipulagi - 1908031

 

Tekið fyrir að erindi frá Kristni Magnússyni ódagsett. Sótt er um heimild til að breyta gildandi deiliskipulagi við Arnstapa. Breytingin felst í því að lóðum er fjölgað um tvær, úr tíu í tólf og stækkar deiliskipulagssvæðið úr 10,9 ha í 12,2 ha. Lóð númer 10 verður nú númer 9. Meðfylgjandi erindinu er yfirlitsmynd, skipulagsuppdráttur og yfirlit breytinga.

Í Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 segir m.a.: F-10: Í landi Arnstapa, rétt vestan við Ljósavatn eru nú þegar 5 sumarhús, en í fasteignaskrá eru 10 lóðir skilgreindar sem „sumarbústaðaland“. Deiliskipulag er á 10,9 ha stóru svæði. (samþykkt 1993 og 1998, breyting samþykkt 2007). Í því eru skilgreindar 10 frístundahúsalóðir, u.þ.b. 0,5-1 ha að stærð, og gert er ráð fyrir að á hverri lóð mun koma eitt hús, allt að 100 m2 að grunnfleti. Í aðalskipulagi er um 10,9 ha stórt svæði skilgreint sem „svæði fyrir frístundabyggð“.

Í tölvupósti frá framkvæmdaraðila dags. 26. maí 2020 komu fram viðbótargögn vegna samræmis deiliskipulagsbreytingar við gildandi aðalskipulag. Kom fram í uppfærðum gögnum að í tillögu að deiliskipulagsbreytingu felst óverulegt frávik frá upplýsingum í aðalskipulagi Þingeyjarsveitar þar sem getið er um 10,9 ha svæði fyrir frístundabyggð í landi Arnstapa. Frávikið varðar hvorki meginatriði aðalskipulagsins né snertir aðra hagmunaaðila og kallar því ekki á formlega breytingu á aðalskipulagi að mati framkvæmdaraðila.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd tekur undir með framkvæmdaraðila að um óverulegt frávik frá upplýsingum í gildandi aðalskipulagi Þingeyjarsveitar sé að ræða. Breyting á deiliskipulagi þar sem það er m.a. stækkað í 12,2 ha varðar hvorki meginatriði aðalskipulagsins né snertir aðra hagsmunaaðila og því telur nefndin að slíkt kalli ekki á formlega breytingu á aðalskipulagi.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggst ekki gegn breytingunni á deiliskipulaginu. Nefndin telur að allar meginforsendur liggi fyrir í aðalskipulagi og leggur því til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa breytingartillöguna eins og 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.

     

6.

Reykir - deiliskipulagsgerð - 1910011

 

Tekið fyrir að nýju erindi frá Bjarna Reykjalín f.h. Guðmundar Hafsteinssonar móttekið 9.október 2019 þar sem sótt er um heimild til að vinna deiliskipulag á kostnað landeiganda skv. 2.mgr. 38.gr skipulagslaga nr. 123/2010 sem skilgreint er sem "Svæði fyrir frístundabyggð" F-27 í Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022. Jafnframt var óskað eftir að fallið yrði frá gerð lýsingar þar sem allar meginforsendur deiliskipulagsins liggja fyrir í aðalskipulagi, eins og heimild er fyrir í 3.mgr. 40.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Sveitarstjórn samþykkti þá beiðni að falla frá gerð skipulagslýsingar og veitti heimild til vinnu deiliskipulags á því svæði sem tilgreint er í erindinu.

Nú er lagður fram til kynningar deiliskipulagsuppdráttur í vinnslu.

   
     

7.

Breiðanes - Umsókn um framkvæmdaleyfi til skógræktar - 2001018

 

Tekið fyrir að nýju erindi mótt. 09.01.2020 frá Hjalta Dagssyni f.h. Kjarnagerðis ehf. varðandi umsókn um framkvæmdaleyfi til skógræktar í landi Breiðaness í Þingeyjarsveit L153720. Fyrirhugað skógræktarsvæði er í Reykjadal og er 27 hektarar að stærð. Skógræktarsvæðið er fyrirhugað í brekkunni fyrir ofan gamla skóginn og mun þar af leiðandi mynda samfellda heild með honum.

Á fundi nefndarinnar þann 23.janúar 2020 bókaði nefndin að hún teldi að umrætt framkvæmdaleyfi félli í flokk C.skv. lið 1.07 í 1.viðauka laga 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsfulltrúa var falið að leita umsagna Minjastofnunnar og Náttúruverndarnefndar Þingeyinga.
Ákvörðunartöku um það hvort framkvæmdin sé háð mati á umhverfisáhrifum var frestað þar til umsagnir lægju fyrir.

Umsagnir hafa borist frá báðum stofnunum.

Í ljósi athugasemda sem bárust frá umsagnaraðilum var á fundin nefndarinnar þann 20.febrúrar 2020 ákveðið að fela skipulagsfulltrúa að óska eftir viðbrögðum framkvæmdaraðila vegna athugasemda sem þar koma fram.

Viðbrögð hafa borist frá framkvæmdaraðila.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd hefur farið yfir umsagnir Minjastofnunnar, Náttúruverndarnefndar Þingeyjarsveitar sem og svör framkvæmdaraðila við þeim umsögnum.

Nefndin telur landnotkun ekki vera að breytast á umræddu svæði að því leiti að þetta er og verður áfram landbúnaðarland.
Samkvæmt gildandi aðalskipulagi eru um 10ha af skógrækt í landi Breiðaness, og því verður skógrækt í landi Breiðaness í heildina 37ha, sem er vel innan þeirra 200ha sem er vitnað í í lið 1.07 í lög um mat á umhverfisáhrifum.

Í 5.gr reglna um skráningu jarðfastra menningarminja vegna skipulags og framkvæmda. nr. 620/2019 stendur:

"... Liggi ekki fyrir samþykki Minjastofnunar Íslands á skráningarskýrslu og skráningargögnum, eða vafi leikur á hvort fullnægjandi skráning liggi fyrir, skal leitað samráðs við Minjastofnun Íslands sem tekur afstöðu til þess hvort vett­vangs­könnun nægi til grundvallar leyfisveitingar eða hvort afla þurfi frekari gagna með skráningu á vettvangi.

Sveitarstjórn getur sett skilyrði í framkvæmdaleyfi um tilhögun framkvæmda m.t.t. menn­ingar­minja."

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja umrætt framkvæmdarleyfi um skógrækt, að þeim skilyrðum uppfylltum að búið verði að hafa samráð við Minjastofnun um vettvangsferð á svæðið í samræmi við 5.gr reglna nr. 620/2019 um skráningu jarðfastra menningarminja vegna skipulags og framkvæmda.

     

8.

Umsókn um framkvæmdaleyfi til skógræktar á Fljótsbakka - 2002025

 

Tekið fyrir að nýju erindi mótt. 20.febrúar 2020 frá Emil Tómassyni f.h. Emil Tómasson ehf./Fljótsbakki varðandi umsókn um framkvæmdaleyfi til skógræktar í landi Fljótsbakka í Þingeyjarsveit L153732.
Fyrirhugað skógræktarsvæði er í vesturhlíðum Fljótsheiðar og er 67 hektarar að stærð.
Skógræktarsvæðið er fyrirhugað ofan við túnin á Fljótsbakka og er frekar bratt að hluta til og hentar því ekki til tún- eða akuryrkju. Gamli skógurinn sem er sunnan og ofan við túnin mun verða hluti af skógræktarsamningnum. Á svæðinu eru mýrar sem ekki verður gróðursett í.

Á fundi sínum þann 2.apríl 2020 bókaði nefndin að hún teldi að umrætt framkvæmdaleyfi félli í flokk C skv. lið 1.07 í 1.viðauka laga 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Skipulags- og umhverfisnefnd fól skipulagsfulltrúa að leita umsagna Minjastofnunnar og Náttúruverndarnefndar Þingeyinga um framkvæmdina.

Ákvörðunartöku um það hvort framkvæmdin sé háð mati á umhverfisáhrifum var frestað þar til umsagnirnar lægju fyrir.

Umsagnir hafa borist frá báðum stofnunum.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd hefur farið yfir umsagnir umsagnaraðila.

Nefndin felur skipulagsfulltrúa að leita frekari upplýsinga um þær vistgerðir sem eru á áætluðu framkvæmdarsvæði, en samkvæmt kortasjá Náttúrufræðistofnunar Íslands gæti verið Starungsmýrarvist á umræddu svæði en sú vistgerð er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Eins felur nefndin skipulagsfulltrúa að leita samráðs við Minjastofnun Íslands um afstöðu þess hvort vettvangskönnun nægi til grundvallar leyfisveitingar í samræmi við 5.gr reglna nr. 620/2019 um skráningu jarðfastra menningarminja vegna skipulags og framkvæmda.

     
Ásvaldur vakti athygli á vanhæfi sínu í máli nr. 9 og tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

9.

Akrar - lóðastofnun - 2005037

 

Tekið fyrir erindi dagsett 22.5.2020 frá Þormóði Ásvaldssyni þar sem sótt er um að stofna lóð utan um íbúðarhús og skipta henni út úr jörðinni Ökrum í Reykjadal, L153707. Fylgiskjöl eru drög að mæliblaði, undirritað umsóknareyðublað F550 frá Þjóðskrá og veðbókarvottorð.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við landskiptin í samræmi við fyrirliggjandi gögn og leggur til við sveitarstjórn að þau verði samþykkt og jafnframt verði byggingarfulltrúa falið að annast málsmeðferð vegna þeirra eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

     

10.

Geitagerði - umsókn um byggingarleyfi - 2005038

 

Tekið fyrir erindi þar sem sótt er um byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóðinni Geitagerði, L153493. Fylgigögn eru afstöðumynd af fyrirhuguðu byggingarsvæði sem og teikningar af húsinu.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulagsfulltrúa að grenndarkynna fyrirhugaða framkvæmd fyrir nágrönnum og öðrum hagsmunaaðilum eins og 2.mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.

     

11.

Fremstafell 1 - umsókn um byggingarleyfi viðbyggingar - 2003005

 

Tekið fyrir að nýju erindi dags. 21.5.2019 frá Árna Valdimarssyni þar sem sótt var um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við sumarbústað á lóðinni Fremstafell 1 lóð, L153409. Erindið var grenndarkynnt fyrir nágrönnum og öðrum hagsmunaaðilum eins og 44.gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mæla fyrir um.
Grenndarkynningunni lauk þann 12.5.2020. Engin athugasemd barst.

 

Þar sem ekki komu athugasemdir í grenndarkynningu þá samþykkir skipulags- og umhverfisnefnd byggingaráformin og felur byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi þegar öll tilskilinn gögn hafa borist.

     

12.

Lerkiholt - fyrirspurn vegna mögulegra byggingarframkvæmda - 2005007

 

Tekið fyrir erindi frá Brynjari Sigtryggssyni þar sem beðið er um umsögn þess efnis hvernig tekið yrði í byggingarleyfisumsókn á ákveðnum stað á jörðinni Lerkiholti við Vestmannsvatn.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd óskar eftir frekari gögnum áður en hægt er að taka málið fyrir.

     

13.

Skýrsla skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa - 1909022

 

Skipulagsfulltrúi og byggingafulltrúi gerðu grein fyrir stöðu mála og verkefna sem falla undir þeirra verksvið í sveitarfélaginu.

     

 

Fundi slitið kl. 12:00.