114. fundur

Fundargerð

Skipulagsnefnd

23.05.2019

114. fundur

Skipulagsnefnd

haldinn í Kjarna fimmtudaginn 23. maí kl. 10:00

Fundarmenn

Sæþór Gunnsteinsson

Nanna Þórhallsdóttir

Jóna Björg Hlöðversdóttir

Hlynur Snæbjörnsson

Einar Örn Kristjánsson

 

Starfsmenn

Guðjón Vésteinsson skipulagsfulltrúi

Helga Sveinbjörnsdóttir byggingarfulltrúi

Fundargerð ritaði: Helga Sveinbjörnsdóttir

 

 Dagskrá:

 

 

1.            Eyjardalsvirkjun - skipulagsgerð og breyting á aðalskipulagi - 1905006

                Tekið fyrir að nýju erindi dagsett 2. maí 2018 frá Þorgeiri Birni Hlöðverssyni og Eiði Jónssyni f.h. Eyjardalsvirkjunar þar sem sótt er um heimild til skipulagsgerðar og að Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 verið breytt vegna fyrirhugaðra virkjunaráforma í Eyjardalsá í Bárðardal. Erindið var áður á dagskrá nefndarinnar 16. maí 2018, 13. desember 2018 og 17. janúar 2019.

Haldinn var almennur kynningarfundur í Kiðagili 14. Janúar 2019 þar sem tillögurnar, forsendur þeirra og matslýsing voru kynntar fyrir íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum. Ekki komu fram athugasemdir á kynningarfundinum til breytingar á tillögunni og voru auglýstar samhliða tillögur að breytingu á aðalskipulagi og tillögu að deiliskipulagi eins og 1. mgr. 30 gr. og 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um frá 22. mars 2019 til og með 3. maí 2019.

Athugasemdir bárust frá Minjastofnun Íslands, Náttúruverndarnefnd Þingeyinga, Umhverfisstofnun, Vegagerðinni, Veðurstofu Íslands og Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra.

                Athugasemdir/umsagnir:

 Minjastofnun Íslands

Athugasemd 1:

Frárennslisskurður frá stöðvarhúsinu mun fara þvert í gegnum garð sem liggur rétt sunnan við slóðann sem liggur upp á fjall og er skráð fornleif. Minjastofnun Íslands telur að fá þurfi fornleifafræðing til að grafa könnunarskurð í gegnum garðinn þar sem honum verður raskað til að komast að aldri garðsins og til að fá gleggri mynd af því úr hvaða efni hann er og hvernig hann er hlaðinn. Stöðvarhúsið verður reist skammt frá garðinum. Minjastofnun telur að merkja þurfi garðinn næst stöðvarhúsreitnum á áberandi hátt á meðan á framkvæmdum stendur, t.d. með línu eða flöggum, til að koma í veg fyrir að hann raskist af vangá.

Svar 1:

Sett verður inn í greinargerð að ekki sé heimilt að raska umræddum garði fyrr en fornleifafræðingur hefur rannsakað hann og reynt að komast að aldri hans og úr hvaða efni hann er og hvernig hann er hlaðinn. Einnig verður sett skilyrði að merkja þurfi garðinn á meðan á framkvæmdum stendur.

Athugasemd 2:

Í skýrslu framkvæmdaaðilans segir að aðrennslispípa muni liggja um þjóðleið sem liggur frá Árgili og upp Eyjardalinn á tveimur stöðum og að lónið muni raska þjóðleiðinni að hluta. Þá sé aðrennslispípan innan 15 m helgunarsvæðis leiðarinnar á um 570 m kafla. Á öðrum stað í skýrslunni kemur fram að slóð fyrir beltagröfur og dráttarvélar verði lögð meðfram pípuleiðinni. Gert sé ráð fyrir að rasksvæði pípulagnarinnar verði 10 - 20 m breitt, háð dýpt skurðar. Þar sem pípan er svo nálægt gömlu leiðinni og rasksvæðið þetta mikið má ljóst vera að vanda verður til verka svo að gamla þjóðleiðin raskist ekki að óþörfu. Minjastofnun Íslands telur að gera þurfi verktökum grein fyrir staðsetningu leiðarinnar og merkja hana á meðan á framkvæmdum stendur.

Svar 2:

Sett verður skilyrði í deiliskipulagstillögu um að merkja þurfi þjóðleiðina á framkvæmdatíma.

Athugasemd 3:

Um 30 m eru á milli norðurenda garðs sem er skráð fornleif og núverandi vegslóða. Áætlað er að aðrennslispípan liggi þarna á milli. Minjastofnun Íslands telur að merkja þurfi garðinn á áberandi hátt á meðan á framkvæmdum stendur til að koma í veg fyrir að hann raskist af vangá.

Svar 3:

Sett verður skilyrði í deiliskipulagstillaga um að merkja þurfi garðinn á framkvæmdatíma.

Athugasemd 4:

Bent er á 21. gr. laga um menningarminjar stendur m.a.: Fornleifum, sbr. 3. mgr. 3. gr., jafn þeim sem eru friðlýstar sem þjóðminjar og þeim sem njóta friðunar í krafi aldurs, má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, spilla, granda eða breyta, hylja, laga, aflaga eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands. Í 2. mgr. 24. gr. sömu laga sem hljóðar svo: Ef fornminjar sem áður voru ókunnar finnast við framkvæmda verks skal sá sem fyrir því stendur stöðva framkvæmd án tafar. Skal Minjastofnun Íslands láta framkvæma vettvangskönnun umsvifalaust svo skera megi úr um eðli og umfang fundarins. Stofnuninni er skylt að ákveða svo fljótt sem auðið er hvort verk megi fram halda og með hvaða skilmálum. Óheimilt er að halda framkvæmdum áfram nema með skriflegu leyfi Minjastofnunnar Íslands.

Svar 4:

Gefur ekki tilefni til svars en vísan í umrædd lög verður sett í framkvæmdaleyfi vegna Eyjardalsvirkjunar.

 

 

Náttúruverndarnefnd Þingeyinga

Athugasemd 1:

Að mati náttúruverndarnefndarinnar skortir upplýsingar um þau gögn sem liggja til grundvallar í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins. Þar má til að mynda nefna upplýsingar um tegundasamsetningu gróðurs en tekið er fram að áætlunin muni ekki hafa áhrif á plöntutegundir á válista en ekki er tekið fram hvort einhverjar válistategundir séu á svæðinu.

Svar 1:

Bætt verður inn í greinargerð texta varðandi plöntutegundir á válista.

Athugasemd 2:

Einnig vantar allar upplýsingar um niðurstöður fuglarannsókna á svæðinu, án þeirra er ekki mögulegt að taka afstöðu til áhrifa áætlunarinnar á fuglalíf.

Svar 2:

Tekið verður tillit til athugasemdarinnar og bætt við niðurstöðu fuglarannsókna í greinargerð.

Athugasemd 3:

Í skýrslunni er tekið fram að það kunni að vera að
staðbundinn fisk sé að finna í ánni en áhrif framkvæmdanna eru talin engin á fiskistofna, þrátt fyrir að það sé fyrirséð að vetrarrennsli í ánni verði lítið eða ekkert. Svo skert rennsli sem áætlað er mun hafa talsverð neikvæð áhrif á lífríki árinnar sem ekki er gert grein fyrir í greinargerðinni.

Náttúruverndarnefnd Þingeyinga telur sér ekki fært að taka afstöðu varðandi framkomna deiliskipulagstillögu vegna skorts á gögnum er varða áhrif á nokkra umhverfisþætti.

Svar 3:

Eyjardalsá er ekki fiskgeng af náttúrulegum orsökum upp fyrir flúðir/foss þar sem áin kemur úr Eyjardal og niður í Bárðardal. Það kann að vera að staðbundinn fiskistofn sé þar að finna en það verður að teljast ólíklegt þar sem frjósemi árinnar er mjög lítil skv. rannsóknum Hafrannsóknarstofnunar frá 2015. Einstaka urriðaseiði hafa fundist neðst í ánni neðan við áhrifasvæði virkjunarinnar en engin ofar í ánni. Því telur framkvæmdaraðili að áhrif virkjunarinnar á fiskistofna séu engin. Uppsprettur neðan stíflunnar sjá til þess að það verður alltaf vatn í farvegi árinnar þó það verði ekki mikið. Botndýralíf milli stíflu og stöðvarhúss verður fyrir áhrifum vegna skerts rennslis.

 

Umhverfisstofnun

Athugasemd 1:

Umhverfisstofnun bendir á að samkvæmt vistgerðarkorti Náttúrufræðistofnunar Íslands (http://vistgerdakort.ni.is/) eru innan skipulagssvæðisins vistgerðirnar grasengjavist og starungsmýravist sem eru vistgerðir með hátt og mjög hátt verndargildi og eru á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. Umhverfisstofnun telur mikilvægt að þetta komi fram í tillögunni og að vistgerðunum verði ekki raskað.

Svar 1:

Stór hluti þeirra svæða sem talin eru með hátt verndargildi er votlendi (starungsmýrarvist) sem er samkvæmt framkvæmdaraðila ranglega skráð á þurrum melnum þar sem pípan mun liggja. Tyrft verður yfir pípuna með staðargróðri þar sem það á við og mun gróður vaxa í sárinu, ekki er því um varanlega röskun að ræða.

Athugasemd 2:

Um 0,1 ha gróins lands fara undir vatn við tilkomu rennslislóns virkjunarinnar en lónið mun ná yfir tæplega 0,5 ha svæði í heild. Umhverfisstofnun telur að skoða eigi hvernig hægt sé að hagræða staðsetningu stíflunnar og rennslislónsins til að koma í veg fyrir að stór svæði vistgerða með hátt og mjög hátt verndargildi fari undir vatn.

Svar 2:

Staðsetning stíflu er valin með tilliti til grundunar og þess að sem minnst gróið land fari undir vatn. Mannvirki verða umfangsminni fyrir vikið og rask minna. Engin stór svæði vistgerða með hátt verndargildi fara undir vatn.

Athugasemd 3:

Ekki er fjallað sérstaklega um mótvægisaðgerðir vegna rasks á þessum vistgerðum og er niðurstaða greinargerðar að heilt yfir séu áhrif á gróður talin staðbundin og óveruleg. Umhverfisstofnun telur, þrátt fyrir að pípuleiðin sé að mestu yfir gróðurlausan mel, að

fjalla þurfi um hvernig skal forðast rask eins og kostur er og hvernig skuli bæta upp fyrir það rask sem verður á vistgerðum með hátt og mjög hátt verndargildi.

Svar 3:

Sjá svar 1, þar er fjallað um að lítið varanlegt rask á gróðri og vistgerðum með hátt og mjög hátt verndargildi. Tyrft verður yfir pípuna með staðargróðri þar sem það á við og mun gróður vaxa í sárinu. Bætt verður við greinargerð hvaða mótvægisaðgerðir verður ráðist í.

Athugasemd 4:

Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að farið verði í mótvægisaðgerðir þar sem farið verður í uppgræðslu staðargróðurs vistgerða með hátt og mjög hátt verndargildi og/eða endurheimt votlendis sem glatast. Mikilvægt er að lýsing á mótvægisaðgerðum sé skýr í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins.

Svar 4: Sjá svar við athugasemdum 1 og 3.

Athugasemd 5:

Samkvæmt 62. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd segir að við vatnsnýtingu og framkvæmdir í eða við vötn skal leitast við að viðhalda náttúrulegum bakkagróðri við ár og stöðuvötn og haga mannvirkjum og framkvæmdum þannig að sem minnst röskun verði á bökkum og næsta umhverfi vatnsins. Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að minnst röskun verði á bakkagróðri við lagningu aðrennslispípu og frágangur sé góður.

Svar 5:

Gefur ekki tilefni til breytingar á deiliskipulagstillögu en vísan í umrædd lög verður sett í framkvæmdarleyfi vegna Eyjardalsvirkjunar.

Athugasemd 6:

Umhverfisstofnun telur mikilvægt að tryggja eigi m.t.t. til fuglalífs að framkvæmdin verði utan varptíma

Svar 6:

Skilyrði um slíkt verður sett í framkvæmdarleyfi.

Athugasemd 7:

Líkt og áður sagði telur Umhverfisstofnun mikilvægt að notaður verði staðargróður við frágang aðrennslispípu á óröskuðu landi. Þetta er m.a. svo að óviðeigandi gróður vaxi ekki í sárið og hafi slæm áhrif á landslagsásýnd svæðis.

Stofnunin bendir á vefsíðuna www.namur.is til leiðbeiningar um efnistöku, frágang efnistökusvæða og upplýsingar um uppgræðslu raskaðra svæða.

Svar 7:

Sjá svar við athugasemd 3.

Athugasemd 8:

Umhverfisstofnun telur að það líf sem er á botni árinnar á áhrifakafla hennar sé ekki umtalsvert og áhrif virkjunarinnar því óveruleg. Þó verða áhrifin mikil á það botndýralíf sem til staðar er á áhrifakafla árinnar þar sem rennsli skerðist sem mest yfir vetrarmánuðina.

Umhverfisstofnun minnir á lög um stjórn vatnamála nr. 36/2011 sem hefur breytt lagaumhverfi nýrra virkjana. Sérstaklega er minnt á ákvæði 13. gr. laganna um manngerð og mikið breytt vatnshlot og 18. gr. laganna sem tiltaka að Umhverfisstofnun sé heimilt að leyfa breytingu á vatnshloti sem hefur í för með sér að umhverfismarkmiðum verði ekki náð nema að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum. Vöktunaráætlun virkjunarinnar þarf einnig að taka mið af þessum nýju kröfum.

Svar 8:

Gefur ekki tilefni til svars.

 

Vegagerðin

Vegagerðin sendi Þingeyjarsveit ósk um að náma við Hlíðarenda yrði sett inn á skipulag þann 16. apríl 2019. Efnistökusvæðið mun ekki hafa áhrif á Eyjardalsvirkjun. Fyrirhugað námusvæði nær aftur á móti inn á deiliskipulagssvæði Eyjardalsvirkjunar þannig að mögulega þarf að breyta hluta deiliskipulagsins vegna þessa. Flutningur efnis mun fara um núverandi slóða meðfram Eyjardalsá sem er einnig ætlaður til nota fyrir virkjanaframkvæmdir og aðkomuleið að stöðvarhúsi.

Vegagerðin gerir ekki aðrar athugasemdir við fram lagðar skipulagstillögur.

Svar:

Gefur ekki tilefni til svars og sjá umfjöllun um umrætt efnistökusvæði undir lið nr. 5 í fundargerð.

 

Veðurstofa Íslands

Veðurstofan gerir ekki athugasemdir við skipulagstillögur þessar.

Svar:

Gefur ekki tilefni til svars.

 

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra

Athugasemd

Fram kemur að í tengslum við virkjunina er eitt efnistökusvæði fært inn á aðalskipulag og það afmarkað á uppdrætti. Um er að ræða 0,5 ha efnistökusvæði og skal taka að hámarki 5.000 m3 meðan á framkvæmdum við Eyjardalsvirkjun stendur. Heildar efnisþörf vegna framkvæmdarinnar er áætluð um 8.000 m3 sem kemur úr námu E-28, og nýrri námu á Eyjardal, E-48.

Með vísan til þess að HNE veitir leyfi fyrir efnistöku sbr. X. Viðauka í reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnareftirliti. Skal bent á að gerðar eru kröfur til vinnutækja sem koma að uppmokstri og flutningi á efni. Öll tæki skal skoða af Vinnueftirlitinu eða þar til bærum aðila sem skal votta að tækin séu hæf til þeirra verka sem ætlast er til af þeim. Þetta sama gildir um framkvæmdir við uppgröft og lagningu aðrennslispípu.

Einnig veitir HNE starfsleyfi fyrir tímabundinni vinnuaðstöðu fyrir starfsmannabúðir, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands Eystra gerir ekki frekari athugasemdir við erindið.

Svar:

Gefur ekki tilefni til breytinga á skipulagstillögum en settur verður fyrirvari um leyfi fyrir efnistöku í framkvæmdarleyfi.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að hún samþykki að gerð verði breyting á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar skv. 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem skilgreint er nýtt 13,5 ha iðnaðarsvæði I-09 fyrir vatnsaflsvirkjun í Eyjardal í landi Hlíðarenda í Bárðardal. Einnig er skilgreint nýtt efnistökusvæði E-48 á skipulagssvæðinu.

Jafnframt leggur nefndin til við sveitarstjórn að tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir Eyjardalsvirkjun verði samþykkt þegar deiliskipulagstillagan hefur verið uppfærð í samræmi við innkomnar athugasemdir og svör nefndarinnar. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að fá uppfærða deiliskipulagstillögu og að annast málsmeðferð vegna gildistöku skipulagstillaganna eins og 32. gr. og 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.

Jóna Björg Hlöðversdóttir sat ekki fundinn undir þessum lið vegna vanhæfis.

                              

2.            Deiliskipulag þéttbýliskjarna á Hafralæk - 1902041

                Tekið fyrir að nýju en erindið var áður á dagskrá nefndarinnar 23. ágúst, 20. september 2018 og 7. mars 2019.

Skipulags- og umhverfisnefnd gerði ekki athugasemdir við tillöguna og fól skipulags- og byggingarfulltrúa að kynna hana fyrir íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum eins og 4. mgr. 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um áður en hún yrði tekin til afgreiðslu í sveitarstjórn.

Skipulagsfulltrúi var með opið hús í Kjarna miðvikudaginn 19. september þar sem tillagan og forsendur hennar voru kynntar með vísan í framangreind lagaákvæði. Ekki komu fram neinar athugasemdir á kynningunni sem gáfu tilefni til breytinga á tillögunni.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkti þann 4. október 2018 að auglýsa skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillögu að uppfærðu eldra deiliskipulagi af þéttbýliskjarna í Aðaldal. Tillagan var auglýst frá og með 12. október 2018 með athugasemdarfresti til og með 23. nóvember 2018.

Aðeins barst ein munnleg athugasemd frá Sigurði Hálfdánarsyni bónda og landeiganda á Hjarðarbóli í Aðaldal, þar sem hann gerði athugasemdir við afmörkun svæðisins með vísan í uppdrátt með kaupsamningi sem sem gerður var þegar faðir hans seldi umrædda landspildu til Aðaldalshrepps á sínum tíma.

Á fundi nefndarinnar þann 7. mars 2019 fól skipulags- og umhverfisnefnd skipulagsfulltrúa að láta mæla upp og hnitsetja umrædda landspildu í samráði við Sigurð Hálfdánarson skv. áður nefndum uppdrætti með kaupsamningi. Jafnframt fól nefndin skipulagsfulltrúa að láta uppfæra deiliskipulagstillöguna til samræmis við nýja afmörkun og leggja fyrir nefndina að nýju áður en tillagan verður endanlega afgreidd.

Fyrir liggur uppfærð deiliskipulagstillaga ásamt skýringarmynd þar sem ný afmörkun svæðisins kemur fram og er í samræmi við athugasemd sem barst frá Sigurði Hálfdánarsyni.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til sveitarstjórn að uppfærð tillaga dags. 22.05.2019 að nýju deiliskipulagi fyrir þéttbýliskjarna á Hafralæk í Aðaldal verði samþykkt og jafnframt verði skipulagsfulltrúa falin málsmeðferð vegna gildistöku deiliskipulagstillögunnar í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

                              

3.            Hólasandslína - Beiðni um breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar - 1902013

                Tekið fyrir að nýju erindi frá Árna Jóni Elíassyni f.h. Landsnets dags. 7.febrúar 2019 varðandi beiðni um breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 vegna Hólasandslínu 3. Erindið var áður tekið fyrir á fundi nefndarinnar 14. febrúar s.l.

Innan Þingeyjarsveitar er gert ráð fyrir að línan verði lögð sem loftlína, að mestu samhliða núverandi Kröflulínu 1, sem er í megindráttum í samræmi við gildandi aðalskipulag Þingeyjarsveitar.

Landsnet óskar eftir að gerð verði breyting á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 skv. aðalvalkosti sem lagður var fram í frummatsskýrslu. Lega línunnar í aðalvalkosti víkur frá gildandi aðalskipulagi á þremur stöðum, í Bíldsárskarði, Fnjóskárdal og þverun Laxárdals. Einnig er gert ráð fyrir 20 nýjum efnistökusvæðum í tengslum við lagningu línunnar.

Á fundi nefndarinnar var lagt til að skipulagsfulltrúa væri falin umsjón með að gerð yrði skipulags- og matslýsing vegna breytingar á aðalskipulagi skv. 1.mgr. 30.gr. skipulagslaga 123/2010 og lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 105/2006 í samræmi við tillögu Landsnets í frummatsskýrslu um færslu línu og nýrra efnistökusvæða vegna Hólasandslínu 3.

Skipulagsbreytingarnar eru háðar lögum um umhverfismat áætlana og því þarf að vinna umhverfismat og skipulagsbreytingar samhliða.

Fyrir liggja drög að skipulags- og matslýsingu frá Hornsteinum dags 16. maí 2019 með tillögu að breytingu á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar í samræmi við aðalvalkost Landsnets í umhverfismati fyrir Hólasandslínu 3. Aðalvalkostur Landsnets víkur lega fyrirhugaðrar línu frá gildandi aðalskipulagi á þremur stöðum, í Bíldsárskarði, Fnjóskadal og þverun Laxárdals. Þá er gert ráð fyrir nýjum efnistökusvæðum innan Þingeyjarsveitar í tengslum við framkvæmd línunnar.

Skipulags- og umhverfisnefnd frestar afgreiðslu málsins og felur skipulagsfulltrúa að óska eftir uppfærðri skipulags- og matslýsingu í samræmi við umræður á fundinum.

                              

4.            Fjósatunga - deiliskipulag - 1905026

                Tekið fyrir erindi frá Ómari Ívarssyni dags. 17.05.2019 f.h. SS byggir þar sem óskað er eftir heimild til að nýta ákvæði 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 til að hefja vinnu við deiliskipulag fyrir hluta jarðarinnar Fjósatungu í Fnjóskadal. Um er að ræða 61,2 ha svæði sem er í gildandi aðalskipulagi skilgreint sem frístundabyggð, en skv. skilmálum aðalskipulags er heimilt að byggja allt að 60 frístundalóðir á svæðinu en lóðir skulu ekki vera minni en 0,5 ha.

Með erindinu fylgir einnig skipulagslýsing vegna fyrirhugaðrar vinnu við deiliskipulag dags. 17.05.2019.

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi skipulagslýsingu á þessu stigi og leggur til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að leita umsagnar um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum og kynna hana fyrir almenningi og öðrum hagsmunaaðilum eins og 3. mgr. 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.

                              

5.            Vegagerðin - Hlíðarendi í Bárðardal - ósk um nýja námu á skipulag - 1904044

                Tekið fyrir erindi frá Magnúsi Björnssyni, verkefnisstjóra, f.h. Vegagerðarinnar dags. 16. apríl 2019 þar sem þess er óskað að náma við Hlíðarenda við Eyjardalsá í Bárðardal verði sett inn á aðalskipulag. Um er að ræða klapparnámu þar sem unnið yrði efni í burðarlag og klæðningu. Efnisvinnslan er ætluð í vegaframkvæmdir í Bárðardal og viðhald á vegum þar. Náman fellur undir lið 2.03 í 1. viðauka í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og þarf að kanna matsskyldu hennar. Náman fellur að hluta til innan fyrirhugaðs deiliskipulags Eyjardalsvirkjunar en hefur ekki áhrif á þá framkvæmd. Náman er utan helgunarsvæðis fyrirhugaðrar Hólasandslínu 3. Náman er ekki talin hafa áhrif á þær fornminjar sem hafa verið skráðar í tengslum við Hólasandslínu 3 eða Eyjardalsvirkjun.

Áætlað flatarmál fyrirhugaðrar námu er um 23.000 m2 og magnáætlun er um 90.000 m3.

Umsækjandi hefur upplýst að rætt hafi verið við landeigenda sem er ekki mótfallinn efnistöku á svæðinu.

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við að setja umrætt efnistökusvæði inn á aðalskipulag að sinni og leggur til við sveitarstjórn að samþykkja að nýju efnistökusvæði verði bætt inn á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar og fela skipulagsfulltrúa málsmeðferð vegna þess í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010. Jafnframt leggur nefndin til að málsmeðferð vegna þess að bæta efnistökusvæði inn á aðalskipulag verði samhliða aðalskipulagsbreytingu vegna Hólasandslínu 3, sbr. mál númer 3 þessa fundar.

Nefndin leggur einnig til að skipulagsfulltrúa verði falið að ræða við framkvæmdaraðila Eyjardalsvirkjunar að breyta deiliskipulagi Eyjardalsvirkjunar þegar það hefur öðlast gildi þannig að fyrirhugað nýtt efnistökusvæði verði sett inn á deiliskipulag Eyjardalsvirkjunar.

                              

6.            Flatey - Stebbaskúr - 1905023

                Tekið fyrir erindi frá Stefáni Guðmundssyni frá 23.4.2019 þar sem beðið er um leyfi til að rífa og endurbyggja skúr í Flatey sem verður kallaður Stebbaskúr.

Skúrinn hefur verið í mikilli niðurníðslu í áratugi eins og sést á myndum. Skúrinn stendur við sjávarkambinn sem gengur á með árunum. Það stendur til að stækka plötu skúrsins um ca. 1,5 m að kambinum og gera þar með vörn í framhaldinu innan við kambinn; sem og að lengja skúrinn til NV um ca. 2 metra. Með þessu mun hann nýtast eigendum miklu betur.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggst ekki gegn byggingaráformunum.

Flatey er ekki deiliskipulögð en mikið er fjallað um eyjuna í Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022.

 Í Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022 stendur m.a.:

"Það er tillaga nefndarinnar að stefnt skuli að því að viðhalda því menningarlandslagi sem ríkir í Flatey með því að viðhalda núverandi mannvirkjum og leiðum um eyjuna. Til að skapa möguleika til aukinnar nýtingar til ferðaþjónustu þarf að vera svigrúm til að bjóða upp á aðstöðu og þjónustu fyrir ferðafólk m.a. snyrtiaðstöðu og veitingasölu.".

Í Flatey er hverfisvernd "með því markmiði að varðveita landslag og náttúru eyjunnar og reyna jafnframt að laða fram byggðamynd fyrri tíma."..."Mikilvægt er að húseigendur Flatey tileinki sér verndarákvæði eyjunnar".

Þar stendur einnig: "Núverandi hús má laga, breyta og viðhalda þannig að útlit þeirra sé sem líkast fyrra horfi. Leyfilegt er að koma upp húsum á gömlum húsgrunnum, í þeim tilfellum skal húsagerð miða við húsin sem voru og/eða við nágrannahúsin."

Skipulags- og umhverfisnefnd telur að í þessu tilfelli sé verið að byggja hús á gömlum grunni, í samræmi við fyrra form og önnur nágrannahús og verið sé að laða fram byggðamynd fyrri tíma, þó með breytingum svo þau nýtist í nútímanum. Eigandi skúrsins er í ferðaþjónustu og má því ætla að með þessari uppbyggingu muni þjónusta við ferðamenn einnig batna.

Þar sem ekkert deiliskipulag er í gildi í Flatey felur skipulags- og umhverfisnefnd skipulagsfulltrúa að grenndarkynna byggingaráformin í samræmi við 44.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

                              

7.            Veturliðastaðir - stofnun lóðar - 1905002

                Tekið fyrir erindi móttekið dags. 17.4.2019 frá Guðríði Herdísi Arnþórsdóttur þar sem sótt er um stofnun lóðar í kringum íbúðarhús á Veturliðastöðum. Einnig er óskað eftir því að lóðin verið tekin úr landbúnaðarnotkun. Meðfylgjandi eru hnitsettur lóðauppdráttur, útfyllt eyðublað F550 og veðbókarvottorð.

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við stofnun lóðarinnar í samræmi við fyrirliggjandi gögn og leggur til við sveitarstjórn að hún verði samþykkt og jafnframt verði byggingarfulltrúa falið að annast málsmeðferð vegna hennar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

                              

8.            Lambhús - stofnun lóðar úr Halldórsstöðum 4 - 1905022

                Tekið fyrir erindi dags. 13.4.2019 frá Marvin Ívarssyni f.h. Ríkiseigna þar sem sótt er um stofnun lóðar í kringum íbúðarhús á Halldórsstöðum 4 í Laxárdal. Meðfylgjandi eru hnitsettu lóðauppdráttur, útfyllt eyðublað F550 og veðbandayfirlit.

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við stofnun lóðarinnar í samræmi við fyrirliggjandi gögn og leggur til við sveitarstjórn að hún verði samþykkt og jafnframt verði byggingarfulltrúa falið að annast málsmeðferð vegna hennar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

                              

9.            Nýhús - lóðastofnun úr Halldórsstöðum 3 - 1905021

                Tekið fyrir erindi dags. 13.4.2019 frá Marvin Ívarssyni f.h. Ríkiseigna þar sem sótt er um stofnun lóðar í kringum íbúðarhús á Halldórsstöðum 3. Meðfylgjandi eru hnitsettu lóðauppdráttur, útfyllt eyðublað F550 og veðbandayfirlit.

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við stofnun lóðarinnar í samræmi við fyrirliggjandi gögn og leggur til við sveitarstjórn að hún verði samþykkt og jafnframt verði byggingarfulltrúa falið að annast málsmeðferð vegna hennar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

                              

10.         Höfðabyggð E20 - Byggingarleyfi - 1905003

                Tekið fyrir erindi dags. 16.apríl frá Þresti Sigurðssyni hjá Opus ehf., f.h. Gísla Salómonssonar, þar sem sótt er um byggingarleyfi fyrir geymslu/gestahúsi á tveimur hæðum, sem fellur vel inn í landslagið á lóðinni Höfðabyggð E20 í Lundsskógi, skv. meðfylgjandi uppdrætti dags. 15.04.2019 frá Opus ehf.

                Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er hámarks byggingarmagn á lóð 100m2, en skv. tillögunni yrði heildar byggingar magn á lóðinni 261,3m2 (158 m2 að grunnfleti.)

Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulagsfulltrúa að grenndarkynna tillögu að breyttu byggingarmagni á lóðinni fyrir nágrönnum og öðrum hagsmunaaðilum eins og 2.mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um þegar samþykki landeiganda liggur fyrir.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 12:00