112. fundur

Fundargerð

Skipulags- og umhverfisnefnd

02.04.2019

112. fundur

haldinn í Kjarna þriðjudaginn 02. apríl kl. 10:00

Fundarmenn

Ásvaldur Ævar Þormóðsson, formaður
Sæþór Gunnsteinsson, varaformaður
Jóna Björg Hlöðversdóttir, aðalmaður
Hlynur Snæbjörnsson, aðalmaður
Margrét Bjarnadóttir, varamaður

Starfsmenn

Guðjón Vésteinsson, skipulagsfulltrúi
Helga Sveinbjörnsdóttir, byggingarfulltrúi

Fundargerð ritaði: Helga Sveinbjörnsdóttir

       Dagskrá:

 

1.

Þeistareykjavirkjun, breyting á deiliskipulagi - 1902045

 

Tekið fyrir að nýju erindi sem barst í tölvupósti 11.janúar 2019 frá Vali Knútssyni, yfirverkefnastjóra hjá Landsvirkjun, þar sem lagðar voru fram tillögur að breytingum á deiliskipulagi Þeistareykjavirkjunar, sem upphaflega var samþykkt 8.mars 2012. Breytingarnar voru settar fram á tveim breytingablöðum, nr. 010 dags. 22.01.2019 og 011 dags. 24.1.2019 og var það metið sem svo að breytingarnar væru óverulegar.
Breytingartillagan var send Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Minjastofnun og Landgræðslunni þann 6.febrúar sl. og rann umsagnarfrestur út þann 6.mars.
Umsagnir bárust frá öllum aðilum.
Á fundi nefndarinnar þann 7.mars 2019 var erindinu frestað til næsta fundar.

 

Minjastofnun
Athugasemd 1:
Í tengslum við breytingu vegna Þeistareykjavegar syðri er skipulagssvæðið stækkað og veglínan er færð á um 6,6 km kafla. Í umhverfisskýrslu greinargerðar kemur fram að breytt veglína verði fjarri þremur minjastöðum, en ekki er þess getið á hvaða gögnum þetta er byggt, né hvort búið sé að fornleifaskrá hið stækkaða skipulagssvæði eða kanna sérstaklega fyrirhugað vegstæði m.t.t. fornleifa. ... Skrá þarf fornleifar á hinu stækkaða skipulagssvæði skv. stöðlum Minjastofnunnar og kanna sérstaklega fyrirhugað vegstæði. Skipulagstillagan skal koma aftur til umsagnar Minjastofnunnar þegar öll gögn liggja fyrir.
Svar 1:
Eins og fram kemur á deiliskipulagsuppdrætti Þeistareykjavirkjunar og tekur til Þeistareykjavegar syðri, er breytt veglína fjarri þremur minjastöðum sem óbreytt veglína hefði farið nærri. Veglínan verður færð á um 6,6 km kafla eins og að framan greinir og hefur sá hluti ekki verið kannaður sérstaklega m.t.t. fornminja. Nefndin leggur til að fyrirvari verði settur í greinargerð að úttekt fari fram á fyrirhugaðri veglínu Þeistareykjavegar m.t.t. fornminja og hún verði framkvæmd við fyrsta tækifæri þegar aðstæður leyfa. Einnig verði sett ákvæði um að hugsanlegir minjastaðir sem kunna að finnast verði kannaðir sérstaklega og merktir ef ástæða þykir til áður en framkvæmdir hefjast.
Umsækjandi hefur upplýst skipulagsfulltrúa um samstarf hans og minjavarðar Norðurlands eystra vegna úttektar sem og eftirlits og ráðgjafar vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar.
Að auki verður settur fyrirvari í framkvæmdaleyfi Þeistareykjavegar þar sem gerð er krafa að ef fornminjar sem áður voru ókunnar finnist við framkvæmd verks skal sá sem fyrir verkinu stendur stöðva framkvæmdir án tafar.

Athugasemd 2:
Í tengslum við breytingu vegna niðurrennslissvæðis P og staðsetningar listaverks/áningarstaðar er vitnað til eldri fornleifaskráningarskýrslu frá 2006 sem uppfyllir ekki staðla Minjastofnunar vegna deiliskipulags, en útlínur uppmældra minja skulu koma fram á skipulagsuppdrætti svo afstaða minja við fyrirhuguð framkvæmdasvæði komi skýrt fram. Gera þarf betur grein fyrir minjum á skipulagsuppdrætti og sýna fram á að þeim verði ekki raskað við framkvæmdir. Skoða þarf hvort hægt sé að nota nýrri skráningarskýrslu frá 2008 í þessum tilgangi, annars þarf að skrá svæðin sem breytingin nær til og þeirra næsta nágrenni aftur á vettvangi.
Svar 2:
Settar verða útlínur uppmældra minja á skipulagsuppdrátt svo afstaða minja við fyrirhuguð framkvæmdasvæði komi skýrt fram. Einnig verði fjallað um skráðar minjar á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði í texta sem fylgir breytingartillögunni.

Athugasemd 3:
Hafa ber í huga 21.gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012, en þar segir m.a.: "Fornleifum, sbr.3.mgr.3.gr., jafnt þeim sem eru friðlýstar sem þjóðminjar og þeim sem njóta friðunar í krafti aldurs, má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, spilla, granda eða breyta, hylja, laga, aflaga eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunnar Íslands.
Svar 3:
Gerir ekki kröfu á breytingu á tillögu en verður sett tilvitnun um umrædd lög í framkvæmdaleyfi.

Athugasemd 4:
Einnig er rétt að vekja athygli á 2.mgr. 24.gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 en þar segir: "Ef fornminjar sem áður voru ókunnar finnast við framkvæmd verks skal sá sem fyrir því stendur stöðva framkvæmd án tafar. Skal Minjastofnun Íslands láta framkvæma vettvangskönnun umsvifalaust svo skera megi úr um eðli og umfang fundarins. Stofnuninni er skylt að ákveða svo fljótt sem auðið er hvort verki megi fram halda og með hvaða skilmálum. Óheimilt er að halda framkvæmdum áfram nema með skriflegu leyfi Minjastofnunar Íslands"
Svar 4:
Vísan í umrædd lög verður sett í texta breytingartillögunnar.

Landgræðslan
Athugasemd 1:
Samkvæmt breytingu á deiliskipulagi fyrir Þeistareykjaveg syðri þá er vegstæðið fært úr grónu landi yfir í ógróið og verður vegurinn eingöngu inni í landgræðslugirðingunni á Hólasandi. Landgræðslan telur jákvætt að raska minna grónu landi og tekur því jákvætt í færsluna en minnir á mótvægisaðgerðir eins og kom fram í bréfi Landgræðslunnar frá 2012. Hólasandur er landgræðslusvæði í umsjá Landgræðslunnar og hefur stofnunin kostað miklu til uppgræðslu svæðisins á undanförnum áratugum.
Landgræðslan gerir ekki athugasemdir við aðrar breytingar á deiliskipulaginu en leggur áherslu á að gripið verði til mótvægisaðgerða vegna þess gróðurs sem raskast við framkvæmdir þegar þar að kemur. Í þessu samhengi vísar stofnunin sérstaklega til 13. gr. landgræðslulaga en þar kemur fram að við leyfisskyldar framkvæmdir, sem geta haft áhrif á gróður og jarðveg, skuli sýna sérstaka aðgát til að lágmarka rask og leitast við að endurheimta vistkerfi sem verða fyrir raski. Ennfremur leggur Landgræðslan áherslu á vandaðan frágang á verksvæði þ.m.t. varðveislu og nýtingu svarðlags þar sem það á við.
Svar 1:
Gefur ekki tilefni til breytingar á breytingartillögu en í framkvæmdaleyfi verður skilyrði um mótvægisaðgerðir.

Umhverfisstofnun
Athugasemd 1:
Umhverfisstofnun bendir á að eldhraun falla undir a.lið 2.mgr. 61. gr. laga nr. 60/2012 um náttúruvernd. Í 61.gr. Laganna er kveðið á um sérstaka vernd þeirra jarðminja sem taldar eru upp í 2.mgr. Greinarinnar. Skv. 3.mgr. Ber að forðast röskun þeirra náttúrufyrirbæra sem undir greinina falla, nema brýna nauðsyn beri til og ljóst að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi. Með orðalaginu "brýn nauðsyn" er lögð áhersla á að einungis mjög ríkir hagsmunir geti réttlætt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir. Það er mat Umhverfisstofnunar er sú að tillagan sýni ekki fram á nægilega sterk rök sem réttlætir röskun á ofangreindu verndarsvæði sem skipulagstillagan nær til. Umhverfisstofnun leggur til að fyrirhuguð veglína liggi í nýverandi slóða eins og kostur er og deiliskipulag haldist óbreytt hvað veglínu varðar, til a forðast allt frekara jarðraska á landinu. Auk þess leggur Umhverfisstofnun til að reiðleið verði við hliðina á fyrirhuguðum vegi innan veghelgunarsvæðis. Stofnunin bendir á að skylt er að afla framkvæmdaleyfis, eða eftir atvikum byggingarleyfis, vegna allra framkvæmda sem fela í sér röskun á svæðum sem njóta sérstakrar verndar, sbr. skipulagslög og lög um mannvirki. Á þetta að tryggja að tekið sé til rækilegrar skoðunar hvort framangreint skilyrði sé uppfyllt. Við mat á leyfisumsókn ber að vega saman mikilvægi náttúruminjanna sem í húfi eru og hagsmuni af fyrirhugaðri framkvæmd. Við matið skal litið til verndarmarkmiða 2.gr. og 3.gr. laga um náttúruvernd auk þess sem tekið skal mið af mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi, sbr. 3. og 4 mgr. 61.gr. Ákveði leyfisveitanda að veita leyfi þrátt fyrir framangreint fer stofnunin fram á það, með vísan til 5.mgr. 61.gr., að leyfisveitandi rökstyðji þá ákvörðun sérstaklega og geri grein fyrir öðrum kostum sem skoðaðir hafa verið sem mögulegir valkostir við útfærslu framkvæmdarinnar og ástæðum þess að þeir urðu ekki fyrir valinu. Einnig skal gera grein fyrir fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum, sem og mögulegri endurheimt náttúruverðmæta þegar það á við. Þá skal afrit af útgefnu leyfi sent stofnuninni, sbr. 6.mgr. ákvæðisins. Þess má einnig geta að leyfisveitanda er heimilt, skv. 5.mgr. 61.gr. að binda leyfi þeim skilyrðum sem eru nauðsynleg til að draga úr áhrifum framkvæmdarinnar á þau náttúrufyrirbæri sem verða fyrir röskun.
Umhverfisstofnun gerir ekki athugasemdir við færslu á niðurrennslissvæði á þeim forsendum jarðmyndunum sem falla undir 61.gr.laga nr. 60/2013 um náttúruvernd verði ekki raskað.
Svar 1:
Eins og fram kemur á deiliskipulagsuppdrætti Þeistareykjavirkjunar og tekur til Þeistareykjavegar syðri, verður hluti vegarins á jaðri gróðurlendis og að hluta upp á lítt grónu og sandorpnu hrauni innan landgræðslugirðingar. Breyting á veglínu frá fyrri áformum kemur til vegna beiðni sauðfjárbænda sem nýta landið til beitar og myndi nýr vegur verða utan beitilands og auknir möguleikar skapast á uppgræðslu umhverfis hann auk þess sem sauðfé myndi ekki stafa sama hætta og ónæði af vegi á nýjum stað. Með því að færa veginn út fyrir beitilandið eykst einnig öryggi vegfarenda. Hér skal tekið fram að núverandi vegtenging frá Þeistareykjum að Kísilvegi er um slóð sem ekki er bílfær allt árið en myndi nýtast sem rekstrarleið og reiðleið. Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar taldi að minna jarðrask yrði af þessari legu vegar með nýtingu núverandi slóðar, en að byggja upp nýjan veg nánast í núverandi vegstæði og leggja síðan nýja rekstrarleið og reiðleið um gróið (ósnortið) land.
Á framangreindum deiliskipulagsuppdrætti kemur fram að veglínan verður felld að landi m.a. með því að forðast opnar sprungur og með því að fara suður fyrir stærstu sprungurnar á svæðinu.
Einnig kemur fram að veglínan verði færð af vel grónu landi inn á uppgræðslusvæði á sandorpnu hrauni og þannig geti færslan verið talin jákvæð út frá áhrifum á gróðurfar og m.t.t. beitarsjónarmiða. Fram kemur að við frágang vegsvæðis sé stefnt að því að landið (þ.m.t. gróður og landyfirborð) verði sem fyrst líkast því sem það hafi verið áður en framkvæmdir hófust og að ýtt verði undir eðlilega gróðurframvindu á röskuðum svæðum.
Í ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 2014 vegna matsskyldu Þeistareykjavegar [http://www.skipulag.is/media/attachments/Umhverfismat/1031/201403079.pdf] syðri kemur fram að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hér skal tekið fram að í tengslum við tilkynningu vegarins til Skipulagsstofnunar kom fram í umsögn Umhverfisstofnunar að "Vegurinn mun hafa nokkuð neikvæð áhrif á hraun sem er sandi orpið, en þar sem vegurinn verður að mestu leyti keyrður út á hraunið ættu áhrif að verða minni en ella.“
Í þessu sambandi skal einnig tekið fram að í skipulagsáætlunum fyrir svæðið hafa verið afmörkuð hverfisverndarsvæði vegna náttúrufars og minja og er sú breyting sem hér um ræðir með Þeistareykjavegi syðri utan slíkra svæða. Vegurinn er í heild um 47 km og þótt hér sé á takmörkuðum kafla tekið mið af sjónarmiðum sauðfjárbænda og landgræðslu þá samræmist það stefnu í svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum um að “Leggja skal ríka áherslu á vandaða hönnun og frágang allra mannvirkja og taka mið af landslagi, náttúrufari og hagsmunum annarra atvinnugreina, m.a. hefðbundins landbúnaðar á svæðinu“.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur að framangreind rök séu nægjanlega sterk sem réttlæta breytta veglínu Þeistareykjavegar syðri m.t.t. röskunar á sandorpnu hrauni þar sem færslan er talin jákvæð út frá áhrifum á gróðurfar og m.t.t. beitarsjónarmiða og auknum möguleikum til uppgræðslu.

Athugasemd 2:
Áningarstaður. Í greinargerð er gert ráð fyrir heimild fyrir þjónustubyggingu. Umhverfisstofnun telur mikilvægt að það fram komi í tillögunni að stærð byggingar, mænishæð og að staðsettur verður byggingarreitur fyrir bygginguna. Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að það komi fram í forsendum tillögunnar hver sé áætlaður fjöldi gesta sem mun heimsækja svæðið sem hér er til umfjöllunar. Með þeim forsendum væri hægt að rökstyðja umfang tillögunnar, stærð bílastæðis, þjónustubyggingar og áningarstaða, sem og umfang göngustíga.
Svar 2:
Byggingarreitur verður settur inn á skipulagsuppdrátt og skilgreind mesta hæð byggingar. Einnig verða settar inn upplýsingar um áætlaðan fjölda gesta í texta.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að tillaga að breyttu deiliskipulagi Þeistareykja verði samþykkt með áorðnum breytingum vegna innkominna athugasemda umsagnaraðila og nefndarinnar. Skipulagsfulltrúa verði jafnframt falið að senda þeim sem athugasemdir gerðu svör nefndarinnar við þeim og að annast gildistöku deiliskipulagstillögunnar eins og 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.

 

     

2.

Þeistareykjavegur syðri - ósk um framkvæmdaleyfi - 1902017

 

Tekið fyrir að nýju erindi sem barst frá Val Knútssyni, f.h. Landsvirkjunar þann 11.febrúar 2019 varðandi umsókn um framkvæmdaleyfi vegna lagningar á Þeistareykjavegi syðri í Þingeyjarsveit. Jafnframt er óskað eftir leyfi fyrir efnistöku úr opinni námu á Þeistareykjum, námu ÞRN-2. Meðfylgjandi gögn er yfirlit af fyrirhuguðum vegi, kennisnið ásamt teikningu af fyrirhuguðum tímabundnum vegslóða.

Landsvirkjun hyggst hefja framkvæmdir við Þeistareykjaveg sumarið 2019 og er áætlaður verktími 3 sumur. Sumrin 2019 og 2020 verður unnið að uppbyggingu vegar en sumarið 2021 verður lagt efra burðarlag og bundið slitlag. Uppbygging nýs vegar er á 17,15 km löngum kafla. Um er að ræða veg í vegflokki C7 skv. flokkun Vegagerðarinnar.

Framkvæmdasvæðið er í landi Þeistareykja í Þingeyjarsveit og Grímsstaða í Skútustaðahreppi.

Áætlað er að nota alls 250.000 m3 úr námu ÞNR-2 á Þeistareykjum.
Annað efni er áætlað að komi úr námum í Skútustaðahreppi.

Erindinu var frestað á 110.fundi skipulagsnefndar þar til kynningarferli á breytingu deiliskipulags Þeistareykjavirkjunar er lokið og því er erindið tekið fyrir að nýju.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd hefur kynnt sér matsskyldu framkvæmdar og álit Skipulagsstofnunnar um mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar.

Skipulags- og umhverfisnefnd tekur undir niðurstöður í áliti Skipulagsstofnunnar varðandi umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar. Nefndin leggur til að við útgáfu framkvæmdaleyfis verði sett eftirfarandi skilyrði í samræmi við álit Skipulagsstofnunnar:
Tryggja þarf að framkvæmdir auki ekki eyðingu gróðurs á svæðinu og öll gróðursár verði grædd upp strax að framkvæmdum loknum.
Ef votlendi verður raskað þarf að endurheimta a.m.k. jafnstórt votlendissvæði og það sem raskast.

Með vísan til 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er gætt að því að fylgt sé ákvæðum náttúruverndarlaga. Umsótt framkvæmd hefur verið umhverfismetin og ekki er óvissa um áhrif framkvæmdar. Framkvæmd fer um svæði sem njóta verndar skv. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013.
Skipulags- og umhverfisnefnd vísar til þess að málsmeðferð samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga varðar framkvæmdaleyfisumsóknir, óháð því hvort mat á umhverfisáhrifum hefur farið fram. Umrædd framkvæmd hefur að hluta fengið ítarlega málsmeðferð við umhverfismat áætlana og umhverfismat framkvæmdar. Álit Skipulagsstofnunar er að hluti framkvæmdarinnar sé ekki líklegur til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Málsmeðferðin hefur að áliti skipulags- og umhverfisnefndar hvílt á því markmiði að forðast óþarfa rask á eldhraunum, þó í því ljósi að slíkt rask sé nauðsynlegt vegna markmiða að baki framkvæmd og gróðurfars- og jarðfræðilegum staðháttum við Þeistareykjasvæðið.

Nefndin leggur til við sveitarstjórn að umsókn Landsvirkjunar vegna lagningar Þeistareykjavegar syðri verði samþykkt þegar breytt deiliskipulag Þeistareykjavirkjunar hefur öðlast gildi. Þegar breytt deiliskipulag hefur öðlast gildi eru lagaskilyrði til útgáfu framkvæmdaleyfis, sbr. 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 uppfyllt. Jafnframt verði skipulagsfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við fyrirliggjandi drög að framkvæmdaleyfi, reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og einnig 13. -16. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

     

3.

Vaglaskógur - breyting á deiliskipulagi - 1902042

 

Tekið fyrir að nýju erindi sem barst í tölvupóstu þann 19.nóvember 2018 frá Ómari Ívarssyni hjá Landslagi, f.h. Skógræktarinnar þar sem óskað er eftir heimild til að breyta þeim hluta gildandi deiliskipulags af Vaglaskógi sem næst yfir svæðið syðst í Stórarjóðri, skv. meðfylgjandi tillöguuppdrætti dagsettum 19.nóvember 2018 frá Landslagi.

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi felst m.a. í eftirfarandi:

Felld er út lóð og byggingarreitur fyrirhugaðrar þjónustubyggingar sem gert var ráð fyrir sunnan Stórarjóðurs ásamt skógarleiksvæði sunnan þjónustubyggingar. Í byggingunni var m.a. gert ráð fyrir möguleika á upplýsingamiðstöð, salerni, grillaðstöðu og aðstöðu fyrir starfsmenn.

Í stað þjónustubyggingar er nú gert ráð fyrir lóð og byggingarreit fyrir eldaskála á svæði sunnan Stórarjóðurs og er skálinn staðsettur nokkuð sunnan en fyrirhuguð þjónustubygging var staðsett. Eldaskálinn er bygging þar sem gert ráð fyrir bálrými undir þaki í öðrum endanum en salernisaðstöðu og geymslu í hinum endanum. Á milli er opið rými eða áningarstaður.

Gert er ráð fyrir lóð og byggingarreit fyrir salernisbyggingu syðst í Stórarjóðri til að þjónusta tjaldgesti, en í byggingunni er gert ráð fyrir salernum auk möguleika á aðstöðu til þvotta. Byggingin er staðsett það sem núverandi salernisbygging er.

Á 107.fundi nefndarinnar var bókað:
Skipulags- og umhverfisnefnd leggst ekki gegn breytingunni á þessu stigi en leggur áherslu á að gert verði ráð fyrir aðkomu viðbragðsaðila og hreyfihamlaðra að eldaskálanum. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að hún heimili að skipulags- og byggingarfulltrúa verði falið að auglýsa breytingartillöguna breytta skv. ábendingum nefndarinnar eins og 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.

Breyttur uppdráttur barst 22.1.2019 og erindið var auglýst frá 25.janúar 2019 - 8.mars 2019.

Athugasemdir bárust frá Umhverfisstofnun, Minjastofnun, Vegagerðinni, Náttúruverndarnefnd Þingeyinga og Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra.

 

Athugasemdir/Umsagnir

Minjastofnun Íslands,
Athugasemd 1:
Fornleifaskráning hefur verið unnin á skipulagssvæðinu. Samkvæmt skráningu lenda níu kolagrafir í breytingartillögunni innan byggingarreits eða undir þjónustuvegi og göngustíg. "Fornleifum [...] jafnt þeim sem eru friðlýstar sem þjóðminjar og þeim sem njóta friðunar í krafti aldurs, má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, spilla, granda eða breyta, hylja, laga, aflaga eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands." Með hliðsjón af þessu fer Minjastofnun fram á að deiliskipulagi verði breytt á þann veg að það hafi ekki áhrif á skráðar menningarminjar.

 


Svar 1:
Stígur og þjónustuvegur verður færður á uppdrætti sem og byggingarreitur minnkaður til að koma til móts við athugasemd. Sett verður í greinargerð að forðast skuli að framkvæma við fornminjar og séu slíkar framkvæmdir háðar leyfi/umsögn Minjastofnunar Íslands áður en framkvæmt er.

Athugasemd 2:
Rétt er einnig að vekja athygli á 2.mgr. 24.gr. Laga um menningarminjar nr. 80/2012 en þar segir: "Ef fornminjar sem áður voru ókunnar finnast við framkvæmd verks skal sá sem fyrir því stendur stöðva framkvæmd án tafar. Skal Minjastofnun Íslands láta framkvæma vettvangskönnun umsvifalaust svo skera megi úr um eðli og umfang fundarins. Stofnuninni er skylt að ákveða svo fljótt sem auðið er hvort verki megi fram halda og með hvaða skilmálum. Óheimilt er að halda framkvæmdum áfram nema með skriflegu leyfi Minjastofnunar Íslands"
Svar 2:
Vísan í umrædd lög verður bætt inn í greinargerð.

Vegagerðin
Athugasemd:
Tenging þjónustuvegar við Vaglaveg (8637) er nokkuð nálægt gatnamótum við Vaglaskógarveg (836). Ef möguleiki er að færa tengingu fjær gatnamótum er það til bóta. Þar sem um er að ræða þjónustuveg fyrir þjónustubíla og neyðarbíla og því mjög takmörkuð umferð verður um tengingu fellst Vegagerðin á hana. Gæta þarf samt að því að útsýni sé nægjanlegt og að gróður skyggi ekki á umferð. Eins er mælt með því að þjónustuvegurinn verði merktu þannig að almenn umferð verði ekki um hann.
Svar:
Nefndin tekur undir sjónarmið Vegagerðarinnar að gætt verði að útsýni og vegurinn verði merktur sem þjónustuvegur.

Náttúruverndarnefnd Þingeyinga
Athugasemd:
Náttúruverndarnefnd Þingeyinga gerir ekki athugasemdir við framkomnar breytingartillögu
Svar:
Gefur ekki tilefni til svars

Umhverfisstofnun:
Athugasemd 1:
Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að það komi fram í forsendum tillögunnar hver sé áætlaður fjöldi ferðamanna sem mun heimsækja svæðið sem hér er til umfjöllunar. Með þeim forsendum væri hægt að rökstyðja umfang tillögunnar, stærð bílastæða, þjónustubyggingar (salerna) og áningastaða og umfang göngustíga.
Svar 1:
Áætlun um fjölda ferðamanna verður bætt inn í greinargerð

Athugasemd 2:
Umhverfisstofnun telur að birkiskógur á svæðinu sem tillagan nær til falli undir b. lið 1.mgr. 61.gr. Laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Í greininni er kveðið á um sérstaka vernd þeirra vistkerfa og jarðminja sem taldar eru upp í 1.mgr. Og 2.mgr. Skv. 3. mgr. ber að forðast röskun þeirra náttúrufyrirbæra sem undir greinina falla, nema brýna nauðsyn beri til og ljóst að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi. Með orðalaginu "brýn nauðsyn" er lögð áhersla á að einungis mjög ríkir hagsmunir geti réttlætt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir. Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að það komi fram í tillögunni rök sem réttlæta röskun birkitrjáa, hvort aðrir valkostir hafa verið skoðaðir sem eru til þess fallnir að þeir raski ekki birkitrjám og til hvaða mótvægisaðgerða verðu gripið.
Svar 2:
Bætt verði í greinargerð rökum sem réttlæta röskun birkitrjáa og mótvægisaðgerðir sem gripið verður til.

Athugasemd 3:
Stofnunin bendir á að í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 kemur eftirfarandi fram í gr. 5.3.2.14., skipulag við vötn ár og sjó. "Við afmörkun lóða á svæðum utan þéttbýlis skal þess gætt að rými sé fyrir aðkomu að og meðfram vötnum, ám og sjó. Utan þéttbýlis skal ekki reisa mannvirki nær vötnum, ám eða sjó en 50 m. ..." Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að það sé nægt rými meðfram Fnjóská, svo að útivistargildi skerðist ekki.
Svar 3:
Gefur ekki tilefni til svars.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra
Athugasemd:
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra gerir ekki athugasemdir við tillögu á breytingum á þeim hluta deiliskipulags af Vaglaskógi sem nær yfir svæðið syðst í Stórarjóðri.
Svar:
Gefur ekki tilefni til svars

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að tillaga að breyttu deiliskipulagi Vaglaskógar verði samþykkt með áorðnum breytingum vegna innkominna athugasemda umsagnaraðila og skipulags- og umhverfisnefndar eftir auglýsingu og að skipulagsfulltrúa verði falið að senda þeim sem athugasemdir gerðu svör nefndarinnar við þeim og að annast gildistöku deiliskipulagstillögunnar eins og 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.

     

4.

Hólsvirkjun - stöðuleyfi G.V. Gröfur - 1903033

 

Erindi sem barst í tölvupósti 19.3.2019 frá Guðmundi V.Gunnarssyni f.h. G.V.Gröfur ehf.
Sótt er um stöðuleyfi fyrir vinnubúðir vegna framkvæmda við Hólsvirkjun í Fnjóskadal.
Áætlað er að hefja uppsetningu vinnubúðanna í apríl 2019, og þær verði síðan fjarlægðar fyrir septemberlok 2020.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd telur byggingaráformin ekki falla undir ákvæði 2.6.1.gr. í byggingarreglugerð um umsókn um stöðuleyfi.
Byggingarfulltrúa er falið að ræða við umsækjenda um mögulegar lausnir.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 11:50