109. fundur

Fundargerð

Skipulagsnefnd

17.01.2019

109. fundur

Skipulagsnefnd

haldinn í Kjarna fimmtudaginn 17. janúar kl. 10:00

Fundarmenn

Ásvaldur Æ. Þormóðsson   form.

Sæþór Gunnsteinsson

Nanna Þórhallsdóttir

Jóna Björg   Hlöðversdóttir

Hlynur Snæbjörnsson

Starfsmenn

Bjarni Reykjalín, fyrrv. skipulags- og byggingarfulltrúi

Guðjón Vésteinsson, skipulagsfulltrúi

Helga Sveinbjörnsdóttir, byggingarfulltrúi og umsjónarmaður fasteigna

Fundargerð ritaði: Helga Sveinbjörnsdóttir

Dagskrá:                                                      

1.         Eyjardalsvirkjun.  Aðal- og deiliskipulag.

2.         Þeistareykjavirkjun.  Breyting á deiliskipulagi.

3.         Erindi frá Hellarannsóknarfélagi Íslands.

4.         Umsókn um framkvæmdaleyfi v/malartöku í landi Víðivalla

5.         Aðalskipulag Skútustaðahrepps: Breyting vegna söfnunar skólps, hreinsunar og nýtingar á Hólasandi.

6.         Embættisafgreiðslur byggingarfulltrúa 2018.

7.         Önnur mál

 

        

1.      Eyjardalsvirkjun. Umsókn um heimild til skipulagsgerðar og og ósk um breytingu á aðalskipulagi.    

S20180501

Tekið fyrir að nýju.  Á fundi skipulags og umhverfisnefndar 13. desember fól nefndin skipulags- og byggingarfulltrúa að efna til almenns kynningarfundar skv. 2. mgr. 30. gr. og 4. mgr. 40.gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þegar fullnægjandi gögn lægju fyrir.  Lagfærð gögn bárust þann 28. desember s.l.  Haldinn var almennur kynningarfundur í  Kiðagili 14. janúar þar sem tillögurnar, forsendur þeirra og matslýsing voru kynntar fyrir íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum.

Jóna Björg vék af fundi vegna vanhæfis og tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

Þar sem engar athugasemdir komu fram á kynningarfundinum sem gáfu tilefni til breytinga á tillögunum leggur nefndin til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa samhliða tillögu að breytingu á aðalskipulagi og tillögu að deiliskipulagi eins og 1. mgr. 30 gr. og 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mæla fyrir um, þegar ítarlegri gögn skv. umræðum á fundinum hafa borist, og að lokinni athugun Skipulagsstofnunar vegna breytingar á aðalskipulagi.

 2.      Þeistareykjavirkjun. Breyting á deiliskipulagi.    

S20120101

Erindi sem barst í tölvupósti  11. janúar 2019 frá Vali Knútssyni, yfirverkefnastjóra hjá Landsvirkjun, þar sem lagðar eru fram tillögur að breytingum á deiliskipulagi Þeistareykjavirkjunar, sem upphaflega var samþykkt 8. mars 2012. Breytingarnar eru settar fram á tveim breytingablöðum, nr. 010 og 011.

Breyting á veglínu Þeistareykjavegar syðri er sýnd á blaði 010. Veglína er færð til vesturs á um 6,6 km kafla að beiðni Þingeyjarsveitar. Breytingin var tilkynnt Skipulagsstofnun sem úrskurðaði að hún væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Á breytingablaði 011 er gert ráð fyrir eftirtöldum breytingum:

  • Færsla borsvæðis B-D um 300 m til austurs að fjallsrótum Bæjarfjalls ásamt  breytingum á lagnaleiðum, mannvirkjabeltum og afmörkum      hverfisverndarsvæðis. Ennfremur lítilsháttar stækkun á borsvæði B-A.
  • Borsvæði B-P, niðurrennslissvæði, er fært um 1.600 m til suðurs og verður skammt austan  Þeistareykjaveggjar (Klifaveggjar). Mannvirkjabelti M-9 er stækkað að B-P.
  • Merktur er staður fyrir listaverk og áningarstað.

Á blaði 011 eru sýndir þrír kostir á staðsetningu listaverks og áningarstaðar og gerð grein fyrir staðháttum og eiginleikum þeirra. Miðað er við að eftir afgreiðslu skipulagsnefndar verði breytingarblaðið lagfært, greinargerð stytt og einungis einn staður sýndur á uppdrætti.

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við eftirfarandi breytingar á deiliskipulagi:

  1. Breyting á veglínu Þeistareykjavegar syðri.
  2. Borsvæði B-P, niðurrennslissvæði, er fært um 1.600 m til suðurs og verður skammt austan Þeistareykjaveggjar.
  3. Staðsetningu á listaverki skv. tillögu A. 

Nefndin samþykkir að fresta afgreiðslu á færslu borsvæðis B-D en leggur til við sveitarstjórn að hún samþykki að breytingartillagan að öðru leyti verði grenndarkynnt fyrir Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Minjastofnun Íslands sem óveruleg breyting á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem breytingin varðar ekki hagsmuni annarra en framkvæmdaaðila og sveitarfélagsins. Jafnframt leggur nefndin til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falin málsmeðferð vegna grenndarkynningarinnar eins og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.

 3.      Erindi frá Hellarannsóknarfélagi Íslands

S20190101

Erindi dags. 21. nóvember 2018 frá Árna B. Stefánssyni, sem sveitarstjórn vísaði til skipulags- og umhverfisnefndar þann 22.nóvember 2018, þar sem óskað var eftir formlegum viðræðum f.h. Hellarannsóknarfélags Íslands við Þingeyjarsveit um samstarf um verndun, varðveislu og hugsanlegri nýtingu hraunhella í landi sveitarfélagsins.

Skipulags- og umhverfisnefnd tekur jákvætt í erindið og leggur til við sveitarstjórn að boða Hellarannsóknarfélagið til sameiginlegs fundar sveitarstjórnar og skipulags- og umhverfisnefndar til frekari umræðu um samstarf, verndun, varðveislu og hugsanlegri nýtingu hraunhella í landi sveitarfélagsins.

 4.      Umsókn um framkvæmdaleyfi v/malartöku í landi Víðivalla                        

S20190102

Erindi dags. 20.desember 2018 frá Aðalsteini Jónssyni, landeiganda Víðivalla, Stefáni Sveinbjörnssyni f.h. Marin ehf. og Vilhjálmi Valtýssyni f.h. Jarðverks ehf. þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi til efnistöku úr námu E16 (skv. skilgreiningu í Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022) í landi Víðivalla. Áætlað er að vinna 19.000 m3 á næstu tíu árum. Framkvæmdin er háð lögum um mat á umhverfisáhrifum nr.106/2000 og fellur í flokk C.

Í samræmi við 6. gr. laga nr. 106/2000 hefur skipulags- og umhverfisnefnd Þingeyjarsveitar farið yfir tilkynningu framkvæmdaraðila. Nefndin telur að fyrirhuguð efnistaka í landi Víðivalla sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. viðmið í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt og jafnframt verði skipulagsfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið skv. reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

5.  Aðalskipulag Skútustaðahrepps: Breyting vegna söfnunar skólps, hreinsunar og nýtingar á Hólasandi.                                                                                               

S20190103

Erindi dags. 10.janúar 2019 frá Guðjóni Vésteinssyni, skipulagsfulltrúa, f.h. Skútustaðahrepps þar sem óskað er eftir umsögn Þingeyjarsveitar vegna breytingar á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023 vegna söfnunar skólps, hreinsunar og nýtingar á Hólasandi.

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemd við breytinguna og leggur til við sveitarstjórn að hún leggist ekki gegn breytingu á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023  vegna söfnunar skólps, hreinsunar og nýtingar á Hólasandi.

6.  Embættisafgreiðslur skipulags- og byggingarfulltrúa árið 2018.

Fráfarandi skipulags- og byggingarfulltrúi lagði fram yfirlit yfir embættisafgreiðslur sínar árið 2018 sem byggja á samþykkt Sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 25. ágúst 2011 þar sem honum er veitt heimild til fullnaðarafgreiðslu byggingarleyfisumsókna til samræmis við 2. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr.160/2010

Lagt fram til kynningar. Byggingarfulltrúa falið að gera embættisafgreiðslurnar aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins.

7.      Önnur mál

Bjarni Reykjalín er að láta af störfum sem skipulags- og byggingarfulltrúi sveitarfélagsins eftir farsælt sjö ára starf vill umhverfis- og skipulagsnefnd þakka honum gott samstarf og vel unnin störf á undanförnum árum og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.

 

Fundi slitið klukkan 12.03.