107. fundur

Fundargerð

Skipulags- og umhverfisnefnd

22.11.2018

107. fundur

haldinn í Seiglu fimmtudaginn 22. nóvember kl. 09:30

Fundarmenn

Margrét Bjarnadóttir (varam.)                       

Hlynur Snæbjörnsson                                   

Jóna Björg Hlöðversdóttir                             

Nanna Þórhallsdóttir                                     

Einar Örn Kristjánsson (varam.)

Starfsmenn

Bjarni Reykjalín, skipulags- og byggingarfulltrúi

Helga Sveinbjörnsdóttir, umsjónarmaður fasteigna og framkvæmda   

Fundargerð ritaði: Bjarni Reykjalín

Dagskrá:       

  1. Hólasandslína 3.  Beiðni um umsögn og kynning á frummatsskýrslu.
  2. Jökulsá á Fjöllum.  Tillaga að friðlýsingu vatnasviðs
  3. Þingey og Skuldaþingsey.  Deiliskipulag. 
  4. Vaglaskógur.  Breyting á deiliskipulagi.
  5. Skógar.  Breyting á deiliskipulagi.        

 

 

1.    Hólasandslína 3.  Beiðni um umsögn og kynning á frummatsskýrslu.                 S20180103

 

Erindi dagsett 5. nóvember 2018 frá Skipulagsstofnun þar sem greint er frá því að Landsnet hf hafi tilkynnt til athugunar Skipulagsstofnunar frummatsskýrslu um Hólasandslínu 3, 220 kV raflínu frá Akureyri að Hólasandi.  Línuleiðin er er innan fjögurra sveitarfélaga:  Akureyrarkaupstaðar, Eyjafjarðarsveitar, Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps.  Meðfylgjandi er frummatsskýrsla um mat á umhverfisáhrifum ofangreindrar framkvæmdar:

http://www.skipulag.is/skipulagsstofnun/mal-i-kynningu/safn/holasandslina-3  - Skýrslan og fylgigögn má síðan finna í minni köflum á vefsíðu Landsnets, sjá hér: https://www.landsnet.is/framkvaemdir/verkefni/allar-framkvaemdir/akureyri-holasandur/fylgigogn/ .

Í umsögn skal umsagnaraðili á grundvelli starfssviðs hans gera grein fyrir því hvort hann telji að á fullnægjandi hátt sé gerð grein fyrir fyrirhugaðri framkvæmd og umhverfi, umhverfisáhrifum og mati framkvæmdaaðila á þeim, þörf á að kanna tiltekin atriði frekar, mótvægisáhrifum og vöktun.

 

Einnig óskar Skipulagsstofnun eftir því að í umsögnum komi fram eftir því sem við á, hvaða leyfi framkvæmdin er háð og varðar starfssvið umsagnaraðila.

 

Á fundinn komu fulltrúar frá Landsneti hf,  Árni Jón Elíasson, verkefnastjóri, Rut Kristjánsdóttir, Elín Sigríður Óladóttir, Steinunn Þorsteinsdóttir og Friðrika Marteinsdóttir frá Eflu verkfræðistofu. Kynntu þau frummatsskýrsluna fyrir skipulags- og umhverfisnefnd.

Sveitarstjórnarfulltrúarnir Arnór Benónýsson og Árni Pétur Hilmarsson sátu kynninguna.

 

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar færði m.a. eftirfarandi til bókar á fundi sínum 14. september 2017 vegna umfjöllunar um tillögu að matsáætlun:

„...Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar telur að tillagan geri nægjanlega grein fyrir framkvæmdinni og umhverfi hennar á þessu stigi og gerir ekki athugasemdir við þá umhverfisþætti sem matið á að taka til og að flestu leyti þá valkosti sem leggja á mat á, gagnaöflun sem fyrirhuguð er, hvernig standi til að vinna úr gögnum til að meta umhverfisáhrif og hvernig eigi að setja þau fram í frummatsskýrslu að teknu tilliti til 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 og 17. gr. reglugerðar nr. 665/2015 um mat á umhverfisáhrifum...“

„...Sveitarstjórn telur mikilvægt að fleiri kostir varðandi lagningu jarðstrengs á línuleiðinni verði teknir til skoðunar bæði hvað varðar nýja Hólasandslínu 3 og núverandi Kröflulínu 1 eftir því sem tæknilegir möguleikar leyfa...“

 

Með vísan í bókun sveitarstjórnar telur skipulagsnefnd mikilvægt að kannaður verði möguleiki á því að leggja núverandi Kröflulínu 1 í jörðu af sjónrænum ástæðum á þjóðvegi 1 á kaflanum frá Reykjadalsá og austur fyrir þjóðveg í landi Víða.  Einnig telur nefndin að skoða eigi möguleika á því að fjarlægja núverandi Kröflulínu 1 sunnan við Ljótsstaði í Laxárdal og leggja hana á einu hafi í núverandi línustæði á svipaðan hátt og fyrirhugað er að gera við Hólasandslínu 3 ofar í dalnum.

Nefndin óskar eftir að sá möguleiki verði kannaður að færa línuna sunnan við Illugastaði í Fnjóskadal til að forðast þverun á verndarsvæði við Illugastaðamela þannig að hún liggi á milli verndarsvæða.

Að öðru leyti telur nefndin að á fullnægjandi hátt sé gerð grein fyrir fyrirhugaðri framkvæmd og umhverfi, umhverfisáhrifum og mati framkvæmdaaðila á þeim, mótvægisáhrifum og vöktun, að öðru leyti en því sem hér að framan greinir.

 

Þingeyjarsveit er leyfisveitandi vegna útgáfu framkvæmdaleyfis sbr. reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og ákvörðun um endanlegt línustæði er háð samþykki sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar.

 

2.    Jökulsá á Fjöllum.  Tillaga að friðlýsingu vatnasviðs.                                   

S20180904

Meðfylgjandi erindi var vísað til umfjöllunar skipulags- og umhverfisnefndar af sveitarstjórn á fundi hennar 8. nóvember s.l.:

Umhverfisstofnun vinnur nú að undirbúningi friðlýsinga svæða í verndarflokki rammaáætlunar sbr. 53. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Þar segir að svæði sem falla í verndarflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar sem Alþingi hefur samþykkt skuli friðlýsa gagnvart orkuvinnslu og að friðlýsingin skuli fela í sér að orkuvinnsla er óheimil á viðkomandi svæði. Fyrir liggur til kynningar hjá Umhverfisstofnun tillaga að friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum á grundvelli flokkunar svæðisins í verndarflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar, sbr. ályktun Alþingis nr. 13/141, frá 14. janúar 2013. Í fyrirliggjandi tillögu að friðlýsingu svæðisins kemur m.a. fram að tilgangur og markmið friðlýsingarinnar sé að vernda vatnasvið Jökulsár á Fjöllum: 12 Arnardalsvirkjun og 13 Helmingsvirkjun gegn orkuvinnslu. Umhverfisstofnun óskar eftir að erindi þetta verði einnig kynnt náttúruverndarnefnd sveitarfélagsins. Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 23. janúar 2019.

 

Þar sem landsvæði það sem fyrirhuguð friðlýsing nær til er að mjög litlu leyti innan sveitarfélagamarka Þingeyjarsveitar og óverulegir hagsmunir sveitarfélagins í húfi, að mati nefndarinnar, leggst hún fyrir sitt leyti ekki gegn friðlýsingu svæðisins.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til að sveitarstjórn Þingeyjarsveitar vísi erindinu einnig til umsagnar Náttúruverndarnefndar Þingeyinga.

3.    Þingey og Skuldaþingsey.  Deiliskipulag.                                

S20160904

Tekið fyrir að nýju erindi dags 30. september 2016 frá Ómari Ívarssyni hjá Landslagi ehf, f.h. Héraðsnefndar Þingeyinga, þar sem sótt eru um heimild til að vinna deiliskipulag á kostnað nefndarinnar skv. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 af Þingey og Skuldaþingey skv. meðfylgjandi skipulagslýsingu dags 3. október 2016 frá frá Landslagi ehf.  Á fundi nefndarinnar 12. október 2016 lagði nefndin til við sveitarstjórn að umsækjanda væri heimilað að vinna deiliskipulag á sinn kostnað skv. meðfylgjandi skipulagslýsingu.  Nefndin fól skipulags- og byggingarfulltrúa að leita umsagnar um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum og að kynna hana fyrir almenningi eins og 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um og var það gert  frá og með fimmtudeginum 16. mars til og með fimmtudeginum 6. apríl 2017.

 

Umsagnir bárust frá eftirtöldum aðilum:  Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Minjastofnun Íslands, Náttúruverndarnefnd Þingeyinga, Vegagerðinni og Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd óskaði eftir því á fundi sínum 24. maí s.l. að fá fulltrúa Héraðsnefndar Þingeyinga og skipulagsráðgjafa hennar  á næsta fund nefndarinnar til að gera nánari grein fyrir hugmyndum að skipulagi svæðisins.

 

Á fundinn á fundnefndarinnar 22. júní 2017 komu Reinhard Reynisson frá Héraðsnefnd Þingeyinga og Ómar og Ingvar  Ívarssynir hjá Landslagi ehf og gerðu þeir grein fyrir skipulagslegum forsendum verkefnisins.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd  gerði ekki athugasemdir við áframhaldandi vinnu í samræmi við umræður á fundinum.

 

Innkomin ný gögn, tillaga að deiliskipulagi ásamt greinargerð, dagsett 06.06.2018, frá Landslagi ehf, Ómari Ívarssyni, skipulagsfræðingi. 

 

Skipulags- og umhverfisnefnd gerði ekki athugasemdir við tillöguna á fundi sínum  21. júní s.l. og fól skipulags- og byggingarfulltrúa að kynna hana fyrir íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum eins og. 4. mgr. 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um áður en hún yrði tekin til afgreiðslu í sveitarstjórn. 

 

Kynningarfundurinn var haldinn í Ljósvetningabúð miðvikudaginn 22. ágúst.  Á fundinum kynntu Ómar Ívarsson frá Landslagi ehf og Reinhard Reynisson frá Héraðsnefnd Þingeyinga deiliskipulagstillöguna og svöruðu fyrirspurnum.  Ekki komu fram neinar athugasemdir á fundinum sem gáfu tilefni til breytinga á tillögunni.

 

Tillaga að deiliskipulagi var auglýst skv. 1. mgr. 41 gr. skipulagslaga nr. 123/2010 frá og með 14. september 2018 til og með 26. október 2018. 

 

Athugasemdir/umsagnir bárust frá eftirtölum aðilum:  Umhverfisstofnun, Vegagerðinni, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Minjastofnun Íslands og Náttúruverndarnefnd Þingeyinga,

Umhverfisstofnun (UST) 18. október 2018

Athugasemdir/umsagnir

Svör skipulags- og   umhverfisnefndar

Að mati UST kemur ekki nógu skýrt fram hver   meðhöndlun sorps verður á svæðinu og bendir á landsáætlun um meðhöndlun   úrgangs 2013-2024 og lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

 

 

Bætt er við kafla um sorpgeymslur og sorpgáma. Það eru eftirfarandi   skilmálar settir:

Sorpgeymslur skulu almennt   vera í samræmi við kafla 6.12 í byggingareglugerð (112/2012), Landsáætlun um   meðhöndlun úrgangs 2013-2024, lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs eða   samkvæmt ákvæðum sem Þingeyjarsveit setur. Aðgangur að sorpílátum skal vera   auðveldur og greiður en þess jafnframt gætt að sorpílát séu ekki áberandi.

Bent er á að gera þarf grein fyrir magni og   innihaldi fráveitu, efnasamsetningu og ástandi viðtaka. Þá er bent á   mikilvægi þess að fram komi hvernig fráveitumál verði leyst m.a. þar sem   jarðvegur er rýr þar sem gert er ráð fyrir fráveitu.

 

 

Gerð er nánari grein fyrir fráveitum en áður   í kafla 2.6.3 um fráveitu og talið er að sá kafli sé nú fullnægjandi hvað   fráveitu varðar. Eftir breytingu er umfjöllun á þennan hátt:

Gert er ráð fyrir hreinsivirki   fráveitu og siturlögnum austan fyrirhugaðra bílastæða við salernisbyggingu,   en frárennsli frá salernum, handlaugum og gólfum salernisbyggingar verður   veitt í hreinsivirkið.

Salernisaðstaða og hreinsivirki   þurfa að vera í hæfilegri fjarlægð frá borholu neysluvatns og réttum megin   miðað við grunnvatnsstrauminn sem undir er. Staðsetning hreinsivirkis var   valin m.t.t. þessara sjónarmiða. Staðsetning á skipulagsuppdrætti er aðeins   til leiðbeiningar og skal nákvæm staðsetning hreinsivirkis og siturlagna   unnin í samráði við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra.

Aðgengi að rotþró skal vera   þannig að auðvelt sé fyrir ökutæki að komast að til tæmingar og eftirlits.

Kerfið skal vera í samræmi við   byggingarreglugerð nr. 112/2012 og reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og   skolp. Frágangur siturlagna, rotþróar og frárennslis skal vera vandaður í   alla staði, þannig að engin mengun stafi af.

UST telur bílastæði og þjónustubygging vera   of nálægt Fossselshvísl og Skuldaþingseyjarkvísl og m.a. er bent á að ekki er   heimilt að byggja nær ám en 50 m. Með því að færa mannvirki fjær muni   umhverfi og landslagsheildin fá að njóta sín betur og þá skerðist upplifun   ferðamannsins ekki. Þá er bent á að nægt rými skuli vera fyrir almenning   meðfram ánum svo útivistargildi skerðist ekki.

 

 

Tekið er undir athugasemd og eru bílastæði   ásamt þjónustubyggingu færð fjær Fossselskvísl og Skuldaþingseyjarkvísl.   Vegna þessarar breytingar hliðrast og stækka mörk skipulagssvæðisins   óverulega.  Gert   er ráð fyrir stæði fyrir litlar rútur meðfram aðkomuveginum norðanverðum (B3   á uppdrætti) og svo myndu rúturnar snúa við með því að fara í gegnum   akstursleið almennu stæðanna. Með þessari útfærslu er verið að lágmarka pláss   sem annars fer í snúningshaus stærri bíla. Þá er gert ráð fyrir að   þjónustubygging og áningarstaði sé í vari frá bílastæðunum og gert er ráð   fyrir að vegslóðinn verði nýttur sem gönguleið að brúnni.

 

 

 

 

Vegagerðin 26. október 2018

Athugasemdir/umsagnir

Svör skipulags- og   umhverfisnefndar

Vaðsvegur (8772)   endar skammt norðan við Vað 2 þannig að enginn vegur á vegaskrá er innan eða   við skipulagssvæðið. Eins og fram kemur í greinargerð liggur aðkoma að   deiliskipulagsvæðinu um hlaðið á Vaði 1 og Vaði 2, upp við íbúðarhúsin. Miðað   við fjölda bílastæða sem gert er ráð fyrir á skipulaginu má gera talsverði   aukningu á umferð framhjá þessum bæjum frá því sem er í dag. Þetta hefur   áhrif á íbúa á þessum stöðum vegna ónæðis og eins hefur þetta mikil áhrif á   umferðaröryggi. Það gæti því þurft að huga að uppbyggingu aðkomuvegar og   líklega tilfærslu vegar framhjá þessum bæjum eins og kemur fram í   greinargerðinni. Vegagerðin hefur ekki skoðað hvaða möguleikar eru á   breytingum á vegi og eru engar fjárveitingar í það á næstu árum.

Vegagerðin   gerir ekki athugasemdir við tillögu að deiliskipulagi af Þingey og   Skuldaþingey en bendir á að áhrif þess geta orðið talsverð utan   skipulagssvæðis eins og greint er hér á undan.

Gefur ekki tilefni til svars þar sem umræddur   vegur er utan skipulagssvæðisins en eins og kemur fram í greinargerð   deiliskipulagsins þá er bent á að aðkomuveginn sé of nærri bæjarhlöðunum á   Vaði I og II og að æskilegt sé vegurinn verði færður fjær bæjarhlöðunum.

 

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra (HNE) 10. október 2018

Athugasemdir/umsagnir

Svör skipulags- og   umhverfisnefndar

Bent er á nauðsyn þess að vanda vel til   yfirborðs bílastæða og að leiða þurfi frárennsli af bílastæðum í olíuskilju.   Óskað er eftir lýsingu á stærð og gerð slíkt búnaðar.

 

 

Í kafla 2.2 um bílastæði o.fl. er bætt við að   gert sé ráð fyrir að bílastæði verði með föstu yfirborði og að frárennsli frá   þeim verði veitt í olíuskilju.

Ekki liggur fyrir stærð eða gerð   þess búnaðar og ekki talin þörf á slíkri umfjöllum.

Bent er á annmarka við vatnssalerni á þessum   stað og að því fylgi umtalsvert inngrip inn í náttúruna. Leggja þarf   rafstreng, bora eftir vatni og stórt svæði þarf undir rotþró, siturlagnir og   síubeð. HNE telur að skoða beri að nota þurrsalerni í staðin sem gæti hentað   betur á svo afskekktum stað.

 

Í deiliskipulagi er bætt við umfjöllun um þann möguleika   að í stað vatnssalerna verði þurrsalerni í salernisbyggingu.

 

Minjastofnun Íslands (MI) 24. október 2018

Athugasemdir/umsagnir

Svör skipulags- og umhverfisnefndar

MI bendir á að þar sem gert er ráð fyrir   framkvæmdum innan helgunarsvæða friðaðra eða friðlýstra fornleifa er þörf á   samráði við MI vegna endanlegrar staðsetningar, hönnunar, framkvæmda og   frágangs mannvirkja.

 

 

Í deiliskipulagi er bætt við eftirfarandi   skilmála í kafla um varðveislu minja (2.8).

Með öllu er óheimilt að   ráðast í framkvæmdir í nánd við minjar nema að undangengnu samráði við   Minjastofnun Íslands, sbr. 23. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012.

Bent er á að upplýsingaskilti þurfa að vera í   samræmi við 2. mgr. 22. minjalaga og því þarf að uppfæra kafla 2.7 um skilti.  

 

Í deiliskipulagi er bætt við umfjöllun í kafla 2.7 um   skilti um að upplýsingaskilti skuli vera í samræmi við í 2. mgr. 22.gr. laga   um menningarminjar nr. 80/2010.

 

Náttúruverndarnefnd Þingeyinga 26. október 2018

Athugasemdir/umsagnir

Svör skipulags- og   umhverfisnefndar

Náttúruverndarnefnd   Þingeyinga hvetur Héraðsnefnd Þingeyinga og Þingeyjarsveit til að vinna að   því að svæðið verði friðlýst sem náttúruverndarsvæði. Í friðlýsingu felst   skipulögð umsjón svæðisins og gerð stjórnunar- og verndaráætlunar sem eykur   faglega umsýslu á svæðinu. Í ljósi markmiðs deiliskipulagstillögunnar um að   skipuleggja og útfæra nýjan ferðamannastað má nefna að náttúruverndarsvæði   hafa í eðli sínu mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Nýlegar rannsóknar sýna   fram á að efnahagslegt gildi náttúruverndarsvæða er mjög mikið og því myndi   friðlýsing svæðisins styrkja mjög ferðaþjónustu á svæðinu.

Skuldaþingsey og Þingey ásamt nánasta   umhverfi eru á náttúruminjaskrá sem er listi yfir öll friðlýst svæði á   Íslandi og mörg önnur merkileg svæði sem hafa ekki enn verið friðlýst. Þess   utan er svæðið undir hverfisvernd í aðalskipulagi þar sem markmiðið er að   varðveita svæðið eins og það er núna, auk þess sem sérstök verndarákvæði   gilda um svæðið. Héraðsnefnd Þingeyinga og Þingeyjarsveit eru því   fullmeðvituð um verndargildi svæðisins.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að deiliskipulagstillagan svo breytt þar sem komið hefur verið til móts við innsendar athugasemdir samanber svör nefndarinnar hér að framan verði samþykkt.  Jafnframt verði skipulags- og byggingarfulltrúa falið að annast gildistöku deiliskipulagstillögunnar eins og skipulagslög nr. 123/2010 mæla fyrir um.

 

4.      Vaglaskógur.  Breyting á deiliskipulagi.                                              

S20150402

Erindi sem barst í tölvupósti þann 19. nóvember 2018 frá Ómari Ívarssyni hjá Landslagi, f.h. Skógræktarinnar þar sem óskað er eftir heimild til að breyta þeim hluta gildandi deiliskipulags af Vaglaskógi sem nær yfir svæðið syðst í Stórarjóðri, skv. meðfylgjandi tillöguuppdrætti dagsettum 19. nóvember 2018 frá Landslagi. 

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi felst m.a. í eftirfarandi:

  • Felld er út lóð og byggingarreitur fyrirhugaðrar þjónustubyggingar sem gert var ráð fyrir sunnan Stórarjóðurs ásamt skógarleiksvæði sunnan þjónustubyggingar. Í byggingunni var m.a. gert ráð fyrir möguleika á upplýsingamiðstöð, salerni, grillaðstöðu og aðstöðu fyrir starfsmenn.
  • Í stað þjónustubyggingar er nú gert ráð fyrir lóð og byggingarreit fyrir eldaskála á svæði sunnan Stórarjóðurs og er skálinn staðsettur nokkuð sunnan en fyrirhuguð þjónustubygging var staðsett. Eldaskálinn er bygging þar sem gert ráð fyrir bálrými undir þaki í öðrum endanum en salernisaðstöðu og geymslu í hinum endanum. Á milli er opið rými eða áningarstaður. 
  • Gert er ráð fyrir lóð og byggingarreit fyrir salernisbyggingu syðst í Stórarjóðri til að þjónusta tjaldgesti, en í byggingunni er gert ráð fyrir salernum auk möguleika á aðstöðu til þvotta. Byggingin er staðsett það sem núverandi salernisbygging er.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd leggst ekki gegn breytingunni á þessu stigi en leggur áherslu á að gert verði ráð fyrir aðkomu viðbragðsaðila og hreyfihamlaðra að eldaskálanum. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að hún heimili að skipulags- og byggingarfulltrúa verði falið að auglýsa breytingartillöguna breytta skv. ábendingum nefndarinnar eins og 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.  

 

5.    Skógar.  Breyting á deiliskipulagi.                                             

S20150402

Tekið fyrir að nýju en Skipulagsstofnun gerði athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda.

Innkomin breyttur uppdráttur dagsettur 19. nóvember 2018 frá Landslagi, þar sem tekið hefur verið tillit til athugasemda Skipulagsstofnunar.

Eftirfarandi breytingar veru gerðar á fyrri uppdrætti:

  • Ekki er heimilt að hafa íbúðarlóðir á svæðinu þar sem það er skilgreint fyrir frístundabyggð og því eru þær þrjár lóðir þar sem gert var ráð fyrir íbúðarhúsum skilgreindar fyrir frístundahús eins og aðrar lóðir á skipulagssvæðinu.
  • Byggingarreitir innan lóða sem næst eru þjóðvegi nr. 833 voru um 80-90 m frá þjóðvegi en sú breyting er gerð að allir byggingareitir eru að lágmarki 100 m frá þjóðveginum og er það í samræmi við gr. 5.3.2.5 í skipulagsreglugerð.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að hún samþykki breytingu á deiliskipulagi þar sem komið hefur verið til móts við athugasemdir Skipulagsstofnunar og jafnframt verði skipulags- og byggingarfulltrúa falin málsmeðferð vegna gildistöku breytingartillögunnar eins og skipulagslög nr. 123/2010 mæla fyrir um.

Fundi slitið.