86. fundur

Fundargerð

Fræðslunefnd

26.05.2021

86. fundur

haldinn í Þingeyjarskóla miðvikudaginn 26. maí kl. 20:00

Fundarmenn
Margrét Bjarnadóttir, formaður
Böðvar Baldursson
Hanna Sigrún Helgadóttir
Sigurbjörn Árni Arngrímsson
Jóna Björg Hlöðversdóttir, í forföllum Hjördísar Stefánsdóttur
Jóhann Rúnar Pálsson, skólastjóri Þingeyjarskóla
Nanna Marteinsdóttir, deildarstjóri í Barnaborg
Kristrún Kristjánsdóttir, fulltrúi foreldra við Þingeyjarskóla
Anna Gerður Guðmundsdóttir, fulltrúi kennara við Þingeyjarskóla, boðaði forföll

 

Fundargerð ritaði: Hanna Sigrún Helgadóttir

Dagskrá:

  1. Málefni grunnskóla m.a. starfið, skóladagatal, nemendafjöldi, mönnun, kennslustundafjöldi, viðhaldsþörf húsnæðis og lóðar.
  2. Málefni tónlistardeildar m.a. starfið, fjöldi nemenda, mönnun.
  3. Málefni leikskóla m.a. starfið, skóladagatöl, fjöldi nemenda, mönnun, viðhaldsþörf húsnæðis og lóða.
  4. Staða umbóta ytra mats grunnskóla.
  5. Rekstrarniðurstaða skólans á síðasta ári og staða deilda nú.
  6. Til kynningar: Skólar á grænni grein (Grænfánaverkefnið) verkefni sem rekið er af Landvernd.

 

Margrét setti fundinn.

1. Málefni grunnskóla m.a. starfið, skóladagatal, nemendafjöldi, mönnun, kennslustundafjöldi, viðhaldsþörf húsnæðis og lóðar.

Farið var yfir skóladagatal grunnskóladeildar. Skólasetning er áætluð 23. ágúst 2021 og skólaslit 30. maí 2022. Skóladagar nemenda eru 180, fimm tvöfaldir dagar. Litlujól verða 17. desember. Kennsla hefst 4. janúar eftir jólaleyfi og 19. apríl eftir páskaleyfi. Skipulagsdagar á starfstíma nemenda eru fimm, fjórir og hálfur eru dagsettir á skóladagatali en hálfur dagur er ómerktur. Fimm undirbúningsdagar verða fyrir skólasetningu og 3 frágangsdagar eftir skólaslit. Vetrarfrí verður 18.-19. október og 24.-25. febrúar.

Jóhann segir frá starfinu í vetur en Covid hefur haft töluverð áhrif á allt skólastarf. Hann segir þó að ýmislegt jákvætt hafi fylgt þeim takmörkunum sem skólastarfinu voru settar. Starfsfólk er t.d. orðið fært í flestum þeim rafrænu lausnum sem bjóðast í sambandi við kennsluna og þátttöku nemenda í stafrænum lausnum. Beinar útsendingar voru frá haust- og vorgleði og gekk það mjög vel. Tónlistarskólinn hefur einnig náð að halda úti tónleikum í streymi.

Hnökrar voru á framkvæmd samræmdra prófa í 9. bekk og varð próftakan valkvæð í kjölfarið. Allir nemendur náðu að ljúka íslenskuprófinu en þrír nemenda ákváðu að taka öll prófin. Útkoma nemenda afar góð.

Nemendur 9. bekkjar fóru á vordögum í ungmennabúðirnar að Laugarvatni. Er það í annað sinn sem búðirnar eru starfræktar þar. Samstarf hefur verið við Borgarhólsskóla á Húsavík með þessar ferðir.

Þessa dagana er 9. og 10. bekkur í skólaferðalagi og eru þau nú stödd í Vestmannaeyjum.

Nemendur í 7. bekk tóku þátt í Stóru upplestrarkeppninni og hefur árangur nemenda skólans þar verið mjög góður í gegnum tíðina.

Anna Sigríður Sveinbjörnsdóttir kennari sem búin er að vera í fæðingarorlofi í vetur hefur ákveðið að segja starfi sínu lausu. Kristjana Helgadóttir hættir núna í vor eftir áratuga starf við stofnunina. Kristjana hóf störf við stofnun þáverandi Hafralækjarskóla haustið 1972 og hefur starfað nánast óslitið við skólann síðan.

Fræðslunefnd þakkar þeim Önnu Sigríði og Kristjönu fyrir þeirra störf í þágu skólans.

Gert er ráð fyrir að nemendafjöldi næsta vetur verði um 70. Fimm nemendur munu útskrifast úr grunnskólanum í vor og sex nemendur koma í 1. bekk í haust.

Til kennslu eru áætlaðar 317,5 stundir með sérkennslu og skiptistundum. Námshópar verða 5; 1.-2. bekkur, 3.-4. bekkur, 5.-6. bekkur, 7. bekkur og 8.-10. bekkur. Teymi verða þrjú; yngsta stig (1.-4. bekkur), miðstig (5.-7. bekkur) og unglingastig (8.-10. bekkur).

Fræðslunefnd samþykkir skóladagatal og kennslustundafjölda grunnskóladeildar og tónlistardeildar Þingeyjarskóla fyrir sitt leyti.

Stoðþjónusta hefur verið með líkum hætti og undangengið ár. Í sk. stoðteymi skólans eru sálfræðingur, iðjuþjálfi, sérkennslufræðingur og lestrarfræðingur. Reiknað er með því að inn í teymið komi líka talmeinafræðingur. Stoðteymið hefur starfað töluvert með Keldunni.

Yngstu nemendur skólans taka sundnámskeið vor og haust á Laugum.

Áætlað er að fara erlendis með 9. – 10. bekk að vori 2022. Stefnt er að því að allir nemendur skólans eigi þess kost að fara erlendis á vegum skólans meðan á grunnskólagöngu þeirra stendur og vera í samstarfi við erlenda aðila/skóla. Nýta á tónlistina í þessu sambandi.

Vonandi verður áframhald á samstarfi Framhaldsskólans á Laugum og Þingeyjarskóla.

Örn Björnsson sem áður leysti Önnu Sigríði Sveinbjörnsdóttur af í fæðingarorlofi mun verða í fæðingarorlofi frá ágúst og fram í mars 2022. Berglind Júlíusdóttir kennari og talmeinafræðingur hefur verið ráðin inn í þá stöðu.

Varðandi viðhaldsþörf þá þarf að huga að lóðamálum, girðingum, slætti o.fl. Til stendur að malbika bílastæði og merkja fyrir framan skólahúsnæðið. Brýnt er að koma upp skiltum með hraðatakmörkunum við heimreiðina. Setja á upp rólur og klifurgrind sunnan við skólann.

Jóhann segir frá frístundarstarfi nemenda yngsta stigs og frá starfi í félagsmiðstöðinni Skjálfanda. Félagsmiðstöðin hefur nýlega fengið samþykkta aðild að Samfés.

Einnig segir hann frá þeirri vinnu sem er í gangi við að búa til merki fyrir Þingeyjarskóla.

2. Málefni tónlistardeildar m.a. starfið, fjöldi nemenda, mönnun.

Nemendur í Tónlistardeild Þingeyjarskóla eru 52 á vorönn og læra á píanó, gítar, bassa, harmonikku, fiðlu, trommur, þverflautu, trompet auk söngs.

Mönnun er óbreytt og sem fyrr er mikið og gott samstarf við aðrar deildir skólans.

Nemendur sáu um undirleik á leiksýningum skólans á haust- og vorgleði og komu fram á jóla- og vortónleikum í gegnum streymisveitur.

Stefnt er að svipuðu starfi næsta vetur.

3. Málefni leikskóla m.a. starfið, skóladagatöl, fjöldi nemenda, mönnun, viðhaldsþörf húsnæðis og lóða.

Farið yfir skóladagatal leikskóladeilda. Tveir skipulagsdagar eru á skóladagatali á starfstíma nemenda en aðrir skipulagsdagar leikskóladeilda verða auglýstir með minnst mánaðar fyrirvara. Sumarleyfistími er frá 24.júní – 2. ágúst 2022.

Fræðslunefnd samþykkir skóladagatal leikskóladeilda Þingeyjarskóla fyrir sitt leyti.

Í dag eru 27 leikskólanemendur í leikskóladeildunum. 20 í Barnaborg og 7 í Krílabæ. 6 nemendur útskrifast úr leikskólanum og útlit fyrir að a.m.k. 4 leikskólabörn komi inn á nýju skólaári.

Í Barnaborg á að setja upp hreiðurrólu í sumar. Í Krílabæ þarf að ljúka framkvæmdum á lóð og sinna öðru almennu viðhaldi á húsi, s.s. málningu o.fl.

Sigríður Guðjónsdóttir leikskólakennari lætur af störfum nú í vor og á síðasta árið hættu þær Áslaug Anna Jónsdóttir og Hólmfríður Kristjánsdóttir sem höfðu verið í töluverðan tíma leikskólastarfsmenn við Barnaborg.

Fræðslunefnd þakkar þeim Sigríði, Áslaugu Önnu og Hólmfríði fyrir þeirra störf í þágu skólans.

Nanna segir að vel hafi gengið í Barnaborg og góður andi í starfsmannahópnum. Hún segir að nýja húsnæðið hafi reynst mjög vel og henti yngstu börnunum sérstaklega vel. Agnes Þórunn Guðbergsdóttir kennari kom til starfa um áramót. Elsti árgangur leikskólans fer í sund þrjú skipti í næstu viku og mun Valgerður íþróttakennari leiða tímana.

Gera þarf lagfæringar á loftræstikerfi í Barnaborg og klára frágang á skólalóð.

Byrjað var að nota Seesaw appið í báðum leikskóladeildum. En það gefur foreldrum innsýn í leikskólastarfið og auðveldar utanumhald um ferilmöppur nemenda.

4. Staða umbóta ytra mats grunnskóla

Jóhann fór yfir stöðuna á umbótum vegna ytra mats. Vinnan er á áætlun og mun Menntamálastofnun óska eftir greinargerð vorið 2022.

5. Rekstrarniðurstaða skólans á síðasta ári og staða deilda nú.

Margrét fór yfir rekstrarniðurstöðu Þingeyjarskóla á síðasta ári og var stofnunin í heild um 3% yfir áætlun.

Staða deilda nú er sú að þær stefna aðeins fram úr áætlun.

6. Til kynningar: Skólar á grænni grein (Grænfánaverkefnið) verkefni sem rekið er af Landvernd.

Margrét leggur fram til kynningar bréf frá Landvernd um verkefnið skólar á grænni grein sem um 200 skólar á öllum skólastigum taka þátt í.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 22:10