85. fundur

Fundargerð

Fræðslunefnd

12.11.2020

85. fundur

haldinn í fjarfundi fimmtudaginn 12. nóvember kl. 15:30

Fundarmenn
Margrét Bjarnadóttir, formaður
Hanna Sigrún Helgadóttir
Heiða Guðmundsdóttir, í forföllum Böðvars Baldurssonar
Hjördís Stefánsdóttir
Sigurbjörn Árni Arngrímsson
Jóhann Rúnar Pálsson, skólastjóri Þingeyjarskóla
Anna Gerður Guðmundsdóttir, fulltrúi kennara við Þingeyjarskóla
Kristrún Kristjánsdóttir, fulltrúi foreldra við Þingeyjarskóla
Hanna Sigrún Helgadóttir 
Starfsmenn

Gísli Sigurðsson, skrifstofustjóri Þingeyjarsveitar, sat fundinn undir lið 1

Fundargerð ritaði: Hanna Sigrún Helgadóttir 

Dagskrá:

  1. Fjárhagsáætlun Þingeyjarskóla fyrir árið 2021.
  2. Gjaldskrár v. leikskóla og tónlistarskóla í Þingeyjarsveit.
  3. Gjaldskrá fyrir mötuneyti skóla Þingeyjarsveitar.
  4. Málefni frá skólastjóra m.a. starfið, fjöldi nemenda og mönnun í grunnskóla-, leikskóla- og tónlistarskóladeildum, staða framkvæmda

 

Margrét setti fundinn.

  1. Fjárhagsáætlun Þingeyjarskóla fyrir árið 2021

Farið yfir fjárhagsáætlun grunnskóladeildar, leikskóladeilda og tónlistardeildar Þingeyjarskóla fyrir árið 2021.

Fræðslunefnd leggur til að fjárhagsáætlunin verði samþykkt.

 

  1. Gjaldskrá v. leikskóla og tónlistarskóla í Þingeyjarsveit.

Margrét lagði fram tillögur að gjaldskrám fyrir leik- og tónlistarskóla í Þingeyjarsveit.

Tillaga um að báðar gjaldskrár taki verðlagsbreytingum, um 2,8% en hækki ekki að öðru leyti.

Fræðslunefnd samþykkir gjaldskrár vegna leikskóla og tónlistarskóla í Þingeyjarsveit fyrir sitt leyti.

  1. Gjaldskrá fyrir mötuneyti skóla Þingeyjarsveitar

Gert er ráð fyrir að fæði leik– og grunnskólanemenda verði áfram endurgjaldslaust.

Tillaga um að gjaldskrá fyrir aðra hækki sem nemur verðlagsbreytingum, um 2,8%.

Fræðslunefnd samþykkir gjaldskrár fyrir mötuneyti skóla Þingeyjarsveitar fyrir sitt leyti.

 

  1. Málefni frá skólastjóra m.a. starfið, fjöldi nemenda og mönnun í grunnskóla-, leikskóla-, og tónlistarskóladeildum, staða framkvæmda.

Jóhann fer yfir helstu atriði úr skólastarfinu og það hvernig kennslu er háttað þessa dagana.

Hann segir COVID-19 óneitanlega hafa haft töluverð áhrif á allt skólahald og ekki útséð hvernig hlutirnir þróast í framhaldinu.

Félagsmiðstöðvastarf liggur allt niðri og öll hefðbundin sund og íþróttakennsla.

Tekist hefur að hólfa af leikskólann að mestu þó svo að heilmikil krosstengsl séu á milli starfsstöðvanna, þ.e. Barnaborgar og grunnskóla/tónlistardeilda vegna starfsmannabarna og mötuneytis.

Töluverð forföll hafa verið, það sem alla jafnan hefði þýtt að starfsfólk mæti í vinnu á ekki við í dag. Ætlast til þess að fólk haldi sig heimavið ef það er með minnstu einkenni.

Hann segir skólann ekki hafa fengið mikil viðbrögð við breyttum skólatíma. Aðeins þó þar sem foreldrar hafi lýst óánægju með að yngsta stigið fái ekki fullan vinnudag. Einnig hafi borist spurningar um það af hverju ekki sé bara fjarnám þennan tíma.

71 nemandi stundar nám í grunnskóladeild, 24 í leikskóladeildum (18 í Barnaborg og 6 í Krílabæ), 50 nemendur stunda sérnám í tónlist.

Í grunnskóladeild eru nú 5 umsjónahópar í þremur teymum. Fyrst 1. bekkur og 2. – 3. bekkur, þá 4. – 5. bekkur og 6. – 7. bekkur og svo 8. – 10. bekkur.

Kennslutímafjöldi með skiptikennslu og sérkennslu er 314 á þessu skólaári. Stundir í sér- og stuðningskennslu eru 30 og stundir á bókasafni 5.

Allir nemendur fá tónmenntarkennslu og fer tónlistarkennari í leikskóladeildirnar einu sinni í viku. Íþróttakennari fer líka í leikskóladeildirnar einu sinni í viku.

Stoðþjónusta er með svipuðu sniði í vetur og fyrri vetur. Hefur skólinn verið að byggja sig upp sem sjálfbæra einingu hvað varðar hefðbundna skólaþjónustu. Skólasálfræðingur er Hjördís Ólafsdóttir og er hún jafnframt í hlutverki námsráðgjafa við skólann, Ásta Margrét Rögnvaldsdóttir er iðjuþjálfi og Helga Sigurbjörg Gunnarsdóttir sérkennslufulltrúi. Aðalbjörn Jóhannsson og Ólöf Ellertsdóttir eru stuðningsfulltrúar. Að auki koma kennarar að stoðþjónustunni með ýmsum hætti. Við skólann er starfrækt áfram svokallað stoðteymi skólans sem má segja að sé ígildi nemendaverndarráðs. Í því sitja skólasálfræðingur, sérkennslufulltrúi, iðjuþjálfi og lestrarfræðingur. Tveir kennarar við skólann hafa öðlast LOGOS greiningarréttindi.

Nýlega var gerður samningur við Tröppu vegna talmeinaþjónustu. Berglind Júlíusdóttir talmeinafræðingur er búsett á Húsavík og er á vegum Tröppu. Einnig er áframhaldandi samstarf við Kelduna varðandi snemmtæka íhlutun. Keldan er úrræði á vegum félagsþjónustu Þingeyinga.

Samtals í dag eru 40 starfsmenn við Þingeyjarskóla í 34,7 stöðugildum. Þar af eru kennsla og stjórnun grunnskóladeildar 14,2 stöðugildi. Í tónlistardeild er 2,1 stöðugildi og stöðugildi annars starfsfólks eru 8,9. Í leikskóladeildum eru 9,4 stöðugildi.

Þegar venjulegt skólastarf er í gangi er frístund fyrir yngstu nemendur skólans eftir hefðbundið skólastarf nemenda. Frístundin er mönnuð af skólaliðum. Félagsaðstaða félagsmiðstöðvarinnar Skjálfanda er nýtt eins og kostur er, eins rými skólans og útisvæði.

Félagsmiðstöðvastarf er þó nokkuð og verið að prófa ýmsar útfærslur á því en COVID hefur sett strik í reikninginn hvað það varðar.

Skólinn er áfram í samstarfi við Framhaldsskólann á Laugum. Þar fá nemendur á unglingastigi verklega raungreinakennslu og býðst þeim að taka þátt í íþróttavalgreinatímum á Laugum. Sem fyrr býðst nemendum 10. bekkjar að taka framhaldsskólaáfanga við skólann.

Framkvæmdir hafa ekki verið miklar á þessu ári. Unnið var við leikskólalóð Barnaborgar og var framkvæmdafé að hluta nýtt til búnaðarkaupa fyrir skólann.

Varðandi framkvæmdaþörf þá er aðkallandi að byggja útigeymslu á lóð Krílabæjar og koma þarf húsvörslu og viðhaldi á húsnæði Krílabæjar í betri farveg. Huga þarf að gluggum og málningu á húsnæði skólans.

Kristrún kemur því á framfæri frá foreldrafélaginu að þær raddir heyrast að foreldrar vilja að börnin fái sem mestan tíma í skólanum. Einnig að það þurfi að klára vinnu á lóð Krílabæjar sem er að sumu leyti börnunum hættuleg. Möl berst upp á fallvarnarmottur við kastala og mála þarf staura í girðingu.

Fram fór töluverð umræða um kosti og galla mismunandi fyrirkomulags kennslu á tímum Covid-19. Komu ýmis sjónarmið fram en allir eru sammála um að starfsfólk skólans er að vinna gott starf.

Fræðslunefnd þakkar starfsfólki Þingeyjarskóla fyrir þeirra góðu störf á tímum Covid-19.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:00