83. fundur

Fundargerð

Fræðslunefnd

26.05.2020

83. fundur

haldinn í Þingeyjarskóla þriðjudaginn 26. maí kl. 20:00

Fundarmenn
Margrét Bjarnadóttir, formaður
Böðvar Baldursson
Hanna Sigrún Helgadóttir
Hjördís Stefánsdóttir
Sigurbjörn Árni Arngrímsson
Jóhann Rúnar Pálsson, skólastjóri Þingeyjarskóla
Anna Gerður Guðmundsdóttir, fulltrúi kennara við Þingeyjarskóla

Olga Hjaltalín Ingólfsdóttir, fulltrúi foreldra við Þingeyjarskóla

Fundargerð ritaði: Hanna Sigrún Helgadóttir

Dagskrá:

  1. Málefni grunnskóla m.a. starfið, skóladagatal, nemendafjöldi, mönnun, kennslustundafjöldi, viðhaldsþörf húsnæðis og lóðar.
  2. Málefni tónlistarskóla m.a. starfið, fjöldi nemenda, mönnun.
  3. Málefni leikskóla m.a. starfið, skóladagatöl, fjöldi nemenda, mönnun, viðhaldsþörf húsnæðis og lóða, staða framkvæmda.
  4. Rekstrarniðurstaða skólans á síðasta ári og staða deilda nú.
  5. Til kynningar: Byggjum brú frá grunnskóla til framhaldsskóla.

 

Margrét setti fundinn.

1. Málefni grunnskóla m.a. starfið, skóladagatal, nemendafjöldi, mönnun, kennslustundafjöldi, viðhaldsþörf húsnæðis og lóðar.

Farið yfir skóladagatal grunnskóladeildar. Starfsfólk kemur til vinnu 17. ágúst og skóli verður settur 21. ágúst. Skólaslit verða 28. maí. Skóladagar eru 180, fimm tvöfaldir dagar. Vetrarfrí er áætlað 19. - 20. október og 25. - 26. febrúar. Skipulagsdagar á starfstíma nemenda eru fimm, þrír og hálfur eru dagsettir á skóladagatali og hafa kennarar samþykkt að taka einn og hálfan skipulagsdag inn á næsta skólaár, þ.e. taka þrjá hálfa daga sem hefðu lítil áhrif á skóladag nemenda. Skipulagsdagar kennara utan starfstíma nemenda eru 8. Jólaleyfi er frá 19. desember – 3. janúar og páskaleyfi 27. mars - 5. apríl. Starfsdagur kennara er 6. apríl.

Fræðslunefnd samþykkir skóladagatal Þingeyjarskóla fyrir sitt leyti.

Útlit er fyrir að 74 nemendur verði í skólanum næsta vetur. Námshópar verða fimm; 1. bekkur, 2.-3. bekkur, 4.-5. bekkur, 6.-7. bekkur og 8.-10. bekkur. Gert er ráð fyrir teymiskennslu/tveggja kennara kerfi eins og kostur er.

Stoðþjónusta mun verða með svipuðu sniði og verið hefur í vetur. Hjördís Ólafsdóttir er skólasálfræðingur við skólann, Ásta Margrét Rögnvaldsdóttir iðjuþjálfi, Helga Sigurbjörg Gunnarsdóttir sérkennslufulltrúi og Aðalbjörn Jóhannsson og Ólöf Ellertsdóttir sem stuðningsfulltrúar. Að auki koma kennarar að stoðþjónustunni með ýmsum hætti. Við skólann er starfrækt s.k. stoðteymi skólans sem má segja að sé ígildi nemendaverndarráðs. Í því sitja skólasálfræðingur, sérkennslufulltrúi, iðjuþjálfi og lestrarfræðingur.

Jóhann segir frá Keldunni sem er nýtt úrræði á vegum Félagsþjónustu Þingeyinga. Vinna snýr að snemmtækri íhlutun fyrir fjölskyldur og skóla. Keldan er teymi þar sem fagaðilar sameinast til að veita aðstoð ef upp kemur vandi barns í daglegu umhverfi eða í skóla. Jóhann segir góða reynslu af þessu samstarfi.

Við Þingeyjarskóla eru u.þ.b. 34 stöðugildi og á bak við þau eru 43 starfsmenn. Þau skiptast þannig að 8,7 stöðugildi eru við leikskóladeildir, 2,1 við tónlistardeildina og 23,19 við grunnskóladeildina. (Ath. að eldhúsið er að mestu sett á grunnskólann).

Aðalsteinn Pétursson og Guðlaug Þorsteinsdóttir létu af störfum í vetur sem skólaliðar. Nýir starfsmenn komu inn um áramót, þeir Guðmundur Árni Heiðarsson og Örn Björnsson sem skólaliðar í hlutastörfum. Anna Sigríður Sveinbjörnsdóttir verður í fæðingarorlofi næsta vetur. Unnið er að ráðningu íþróttakennara.

Fræðslunefnd þakkar þeim Aðalsteini og Guðlaugu kærlega fyrir góð störf í þágu skólans.

Frístund verður áfram fyrir yngstu nemendur skólans eins og verið hefur. Félagsaðstaða Skjálfanda er nýtt eins og kostur er, eins rými innan skólans og útisvæði.

Gert er ráð fyrir að skóladagur nemenda, þ.e. hvenær dags nemendur hefja störf og ljúka, verði með sama sniði og verið hefur.

Stefnt er að áframhaldandi samstarfið við Framhaldsskólann á Laugum. Nemendur hafa getað sótt nokkra valáfanga og getað stundað framhaldsskólaáfanga hjá skólanum. Einnig hefur framhaldsskólinn sinnt verklegri raungreinakennslu í góðri aðstöðu framhaldsskólans. Nemendum framhaldsskólans hefur einnig staðið til boða að taka valáfanga hjá kennurum grunnskólans. Áfram er unnið að þeirri hugmynd að fá Framhaldsskólann á Laugum í samstarf vegna Norðurorgs, söngkeppni grunnskólanna á Norðurlandi.

Stefnt er á enn frekari tæknivæðingu innan skólans. Sveitarstjórn hefur veitt heimild fyrir því að nota 4 milljónir króna sem áttu að fara í viðhald til kaupa á ýmsum búnaði fyrir skólann.

Kennslutímafjöldi með skiptikennslu og sérkennslu verður 314 næsta skólaár.

Fræðslunefnd samþykkir kennslustundafjölda Þingeyjarskóla fyrir sitt leyti.

Lágmarksviðhald verður við skólann á þessu ári. Eins og áður hefur komið fram hefur verið samþykkt að nota hluta áætlaðs viðhaldsfés til búnaðarkaupa hjá skólanum. Stærri framkvæmdir bíða næsta árs.

Stefnt er að því að ljúka frágangi herbergis fyrir iðjuþjálfa í kjallara við hlið tónlistardeildar. Einnig er stefnan að hljóðeinangra skrifstofu skólastjóra.

Jóhann fjallar um kennslu og nám á Covid-19 tímum. Hann segir mjög vel hafa gengið að kenna nemendum í gegnum fjarfund meðan á skólalokun stóð. Ekki féll úr dagur í kennslu fyrir utan skipulagsdagana. Vefkönnun á meðal foreldra sýndi fram á ánægju með fyrirkomulagið. Flestir nemendur efldust dag frá degi í að nýta sér tæknina. Sögðust þó margir hverjir sakna skólans og skólafélaganna. Segja má að þessi vinnubrögð henti sumum nemendum ekki síður en hin hefðbundna kennsla. Jóhann segir að byggt verði á þessari reynslu til framtíðar.

Jóhann fór nánar yfir fyrirkomulag heimakennslu á öllum stigum grunnskóladeildar í samkomubanni.

 

2. Málefni tónlistarskóla m.a. starfið, fjöldi nemenda, mönnun.

Nemendur tónlistardeildar voru 48 í vetur. Kennarar voru þeir sömu og áður, Pétur, Guðni og Ásta Margrét. Tónlistarnemendur á unglingastigi tóku þátt í uppfærslu á Bláa hnettinum sem sýndur var á haustgleði skólans í nóvember og sáu alfarið um undirleik. Á vorgleði skólans stóð til að setja upp verkið Óvitar og voru nemendur á miðstigi langt komnir í æfingum þegar þurfti að hætta við uppsetninguna vegna samkomubanns. Einnig komu nemendur fram á aðventukvöldum á skólasvæði Þingeyjarskóla, samverustundum eldri borgara í skólanum og á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar.

Fjarkennsla var í samkomubanni og voru vortónleikar í formi tónfunda bekkjardeilda sem sendir voru út beint á Facebooksíðu hvers stigs. Þetta gekk mjög vel og skapar þessi reynsla grundvöll fyrir fjölbreyttari starfshætti í framtíðinni. Stefnt er á að nýta tæknina mun meira í sambandi við kennslu og uppákomur nemenda.

Næsta vetur er útlit fyrir sama starfsfólk og í vetur og standa vonir til þess að nemendafjöldi fari aftur yfir 50 eins og verið hefur undanfarin ár.

Jóhann fór nánar yfir fyrirkomulag kennslu tónlistardeildar í samkomubanni.

 

3. Málefni leikskóla m.a. starfið, skóladagatöl, fjöldi nemenda, mönnun, viðhaldsþörf húsnæðis og lóða, staða framkvæmda.

Útlit er fyrir að nemendafjöldi í Barnaborg verði 19 næsta vetur og 6 í Krílabæ. Skóladagatal leikskóladeilda miðar við að starfsmenn leikskóladeilda mæti til skipulagsvinnu eftir sumarlokun 4. ágúst og að deildirnar opni 5. ágúst. Sumarlokun hefst 28. júní 2021. Áætlað er að taka a.m.k. 4 skipulagsdaga á starfstíma leikskólanemenda.

Fræðslunefnd samþykkir leikskóladagatal Barnaborgar og Krílabæjar fyrir sitt leyti.

Bergljót Hallgrímsdóttir lét af störfum við leikskóladeildina Barnaborg síðastliðið haust. Sigríður Guðjónsdóttir var ráðin sem leikskólakennari frá 1. desember og Jana Valborg Bjarnadóttir sem leikskólastarfsmaður frá áramótum.

Fræðslunefnd þakkar Bergljótu kærlega fyrir góð störf í þágu skólans.

Óbreytt starfsmannahald hefur verið á Krílabæ frá hausti og ekki fyrirséðar breytingar.

Leikskóladeildin Barnaborg flutti síðasta sumar í endurbætt og glæsilegt húsnæði. Vel tókst til við þá framkvæmd og er töluverð ánægja með flutninginn. Huga þarf að frekari uppbyggingu leiktækja við skólann, sem nýtast þá bæði leik- og grunnskólanemendum. Hugmyndir eru upp um að koma upp leikaðstöðu austan við núverandi garð og að stækka afgirt svæði fyrir leikskólanemendur.

Aðkallandi verkefni við leikskóladeildina Krílabæ eru að klára vinnu við leikskólalóð, færa til leiktæki sem standa utan girðingar og setja upp vatnspóst. Laga þarf frágang við öryggismottur við kastala, þar þyrfti að framlengja öryggismottur eða þökuleggja. Mála þarf nýju girðingarstaurana svo þeir hafi ekki viðloðun í frosti. Einnig þarf að laga loku á hliði og athuga þarf hvort rétt möskvastærð sé á nýju neti, en börnin ná að klifra í því og komast þannig yfir girðinguna.

Laga þarf þakrennu þar sem lekur yfir útidyrum. Setja þarf upp geymsluhús eða leikfangageymslu á lóð. Í sal leikskólans þarf nýja ljósakúpla eða annan ljósabúnað. Skipta þarf út sandi í sandkassa og vegasalt þarf að skrapa upp og mála.

Jóhann fór yfir fyrirkomulag í leikskóladeildum í samkomubanni.

 

4. Staða umbóta ytra mats grunnskóla.

Umbótaáætlun var gerð síðasta sumar og hún samþykkt af Menntamálastofnun. Jóhann segir Covid-19 hafa sett strik í reikninginn varðandi ýmsa þætti áætlunarinnar. Fengist hefur frestur fram á haust til að skila úttekt á áætluninni. Endurmat áætlunar er í gangi innan skólans.

 

5. Rekstrarniðurstaða skólans á síðasta ári og staða deilda nú.

Margrét fór yfir rekstrarniðurstöðu Þingeyjarskóla á síðasta ári og var stofnunin í heild 3% yfir áætlun.

Staða deilda nú er sú að þær eru nokkurn veginn á áætlun.

 

6. Til kynningar: Byggjum brú frá grunnskóla til framhaldsskóla.

Margrét leggur fram til kynningar skjalið Byggjum brú frá grunnskóla til framhaldsskóla. Skjalið er afrakstur samstarfs grunn- og framhaldsskóla á Norðurlandi eystra. Skjalinu er ætlað að setja fram samræmdan og skýran ramma um upplýsingaflæði milli grunnskóla og framhaldsskóla. Notkun á skjalinu er val og það er sett fram sem tillaga til að auðvelda skil milli skólastiga.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið 21:50