76. fundur

Fundargerð

Fræðslunefnd

23.05.2019

76. fundur

haldinn í Þingeyjarskóla fimmtudaginn 23. maí kl. 13:00

Fundarmenn

Margrét Bjarnadóttir, formaður

Böðvar Baldursson

Hanna Jóna Stefánsdóttir                                                                

Hanna Sigrún Helgadóttir

Sigurbjörn Árni Arngrímsson                        

Jóhann Rúnar Pálsson, skólastjóri Þingeyjarskóla

Nanna Marteinsdóttir, deildarstjóri í Barnaborg

Anna Gerður Guðmundsdóttir, fulltrúi kennara við Þingeyjarskóla

Íris Bjarnadóttir, fulltrúi foreldra við Þingeyjarskóla

Olga Hjaltalín Ingólfsdóttir, fulltrúi foreldra við Krílabæ

Fundargerð ritaði: Hanna Sigrún Helgadóttir

Dagskrá:

  1. Málefni grunnskóla m.a. starfið, skóladagatal, nemendafjöldi, mönnun, kennslustundafjöldi, viðhaldsþörf húsnæðis og lóðar.
  2. Málefni tónlistardeildar m.a. starfið, fjöldi nemenda, mönnun.
  3. Málefni leikskóla m.a. starfið, skóladagatöl, fjöldi nemenda, mönnun, viðhaldsþörf húsnæðis og lóða, staða framkvæmda.
  4. Ytra mat grunnskóla: Niðurstöður – drög.
  5. Skólaakstur
  6. Rekstrarniðurstaða skólans á síðasta ári og staða deilda nú.

Margrét setti fundinn.

 

1.         Málefni grunnskóla m.a. starfið, skóladagatal, nemendafjöldi, mönnun, kennslustundafjöldi, viðhaldsþörf húsnæðis og lóðar.

Farið yfir skóladagatal Þingeyjarskóla fyrir skólaárið 2019 - 2020. Helstu breytingar eru að fara á í tveggja anna kerfi í stað þriggja. Skipulagsdagar kennara hefjast 15. ágúst. Skólasetning verður 22. ágúst og skólaslit 29. maí. Skóladagar eru 180, þar af sex tvöfaldir. Jólaleyfi verður  20. desember – 5. janúar og páskafrí 4. – 13. apríl, skipulagsdagur verður 14. apríl. Skipulagsdagar eru fimm á starfstíma nemenda, einn þeirra skiptist á tvo hálfa daga og á eftir að tímasetja þá. Vetrarfrí er dagana 21. og 22. október annars vegar, og 27. og 28. febrúar hins vegar. Haustgleði verður 8. nóvember og vorgleði 26. mars.

Fræðslunefnd samþykkir skóladagatal Þingeyjarskóla fyrir sitt leyti.

Kennslustundafjöldi með skiptitímum og sérkennslu verður 307. Við stofnunina eru 34,2 stöðugildi, með leikskóladeildum og tónlistardeildum.

Fræðslunefnd samþykkir kennslustundafjölda Þingeyjarskóla fyrir sitt leyti.

Þorbjörg Jóhannsdóttir, kennari, lætur af störfum í vor. Kristrún Kristjánsdóttir hefur sótt um árs leyfi frá kennslu. Helga Sigurbjörg Gunnarsdóttir hefur verið ráðin í starf sérkennara í stað Þorbjargar. Unnið er að ráðningu íþróttakennara.

Fræðslunefnd þakkar Þorbjörgu vel unnin störf í þágu skólans.

Nemendafjöldi næsta vetur verður um 69-70. Umsjónarhópar eru áætlaðir fimm, 1.-2. bekkur, 3.-4. bekkur, 5. bekkur, 6.-7. bekkur og 8.-10. bekkur, í þremur teymum.

Jóhann segir frá því að skólinn hafi verið í ytra mati í vor.

Jóhann segir að 9. bekkur hafi undanfarin ár farið á Lauga í Sælingsdal og hefur verið ánægja með það. Sú starfsemi mun flytja á Laugarvatn næsta vetur og ætlar skólinn að halda áfram þátttöku í því starfi.

9. – 10. bekkur fór til Svíþjóðar á marimbanámskeið og í skólaferðalag í vor, stefnt er að því að farið verði í slíka utanlandsferð á tveggja ára fresti.

Félagsmiðstöðin hefur fengið nafnið Skjálfandi og hefur hún sótt um að ganga í SAMFÉS. Félagsmiðstöðin tók þátt í Norðurorgi, söngkeppni félagsmiðstöðva á norðurlandi, í fyrsta sinn í vetur.

Samstarf hefur verið við Litlu kvíðameðferðarstöðina sl. vetur en breyting verður þar á og mun Hjördís Ólafsdóttir vera sálfræðingur skólans næsta vetur.

Töluverð samvinna hefur verið við Framhaldsskólann á Laugum. Jóhann segist vonast eftir áframhaldandi samstarfi.

Eldhúsið var tekið í gegn á síðasta ári. Til stóð að fara í anddyrið í vor en Jóhann segist vilja fresta því og nýta hluta viðhaldsfjár ársins í búnaðarkaup. Næsta stóra viðhaldsverkefni yrði svo að fara í verkgreinaaðstöðu vorið 2020. Sú aðstaða myndi nýtast leikskólanemendum sem og grunnskólanemendum.

 

2.         Málefni tónlistardeildar m.a. starfið,  fjöldi nemenda, mönnun.

Nemendur við tónlistardeild voru 54 á haustönn og 53 á vorönn, og er það svipaður fjöldi og undanfarin ár

Nemendur deildarinnar komu fram á ýmsum viðburðum í skólastarfinu.

Kennarar eru Pétur Ingólfsson, deildarstjóri, og Guðni Bragason. Einnig kennir Ásta Margrét Rögnvaldsdóttir söng og Marcin Lasarz hefur verið stundakennari í fiðluleik. Gert er ráð fyrir óbreyttri mönnun í tónlistardeild næsta vetur og að nemendafjöldi verði svipaður og verið hefur.

Tónmennt er kennt í öllum bekkjum og er marimbahljóðfærið m.a. notað í tónmenntakennslu.

Verið er að útbúa aðstöðu fyrir rafmagnshljóðfæri í kjallara, í hluta þess rýmis sem nú hýsir frístund.

 

3.         Málefni leikskóla m.a. starfið, skóladagatöl, fjöldi nemenda, mönnun, viðhaldsþörf húsnæðis og lóða, staða framkvæmda.

Jóhann fór yfir leikskóladagatal 2019-2020. Skipulagsdagar leik- og grunnskóladeilda eru samræmdir. Að auki er skipulagsdagur í leikskóladeildum 6. ágúst. Lokað verður milli jóla- og nýárs.

Leikskólinn opnar fyrir nemendur eftir sumarleyfi 7. ágúst og síðasti dagur fyrir sumarlokun 26. júní 2020. Sumarlokun er 5 vikur.

 

Fræðslunefnd samþykkir leikskóladagatal Barnaborgar og Krílabæjar fyrir sitt leyti.

Jóhann segir frá starfinu á Krílabæ. Nemendafjöldi næsta vetur er áætlaður 5 nemendur. Setja á upp kastala á lóðinni í sumar og ganga þarf frá fallvörnum auk almenns viðhalds á tréverki.

Nanna segir að í Barnaborg hafi verið 24 börn í vetur, gert er ráð fyrir um 20 börnum næsta vetur, þar af tveimur undir 1 árs aldri. Pétur tónlistarkennari hefur komið einu sinni í viku í báðar leikskóladeildirnar. Foreldrakaffi fór fram í matsal Þingeyjarskóla í vor. Börnin tóku virkan þátt í skipulagningu skemmtiatriða og veitinga.

Nanna segist hlakka til að flytja í nýtt húsnæði. Framkvæmdir ganga vel og vonast er til þess að hægt verði að flytja fyrir opnun leikskólans í haust.

Skipulag starfsins er í mótun.

 

4.         Ytra mat gunnskóla: Niðurstöður – drög.

Jóhann fór yfir niðurstöður úr ytra mati og segir þær ánægjulegar. Tekur fræðslunefnd undir það með skólastjóra.

Skýrsluhöfundar munu kynna niðurstöðurnar fyrir starfsfólki skólans auk fræðslunefndar og sveitastjóra þann 3. júní næstkomandi.

Lokaskýrsla verður aðgengileg inn á heimasíðu skólans eftir að umbótaáætlun hefur verið unnin.

 

5.         Skólaakstur

Margrét segir frá því að samningar við skólabílstjóra renni út nú í vor. Sveitarstjórn hefur samþykkt að fara í útboð og voru útboðsgögn unnin í samráði við Ríkiskaup. Auglýsing mun birtast á næstu dögum.

 

6.         Rekstrarniðurstaða skólans á síðasta ári og staða deilda nú.

Margrét fór yfir rekstrarniðurstöðu Þingeyjarskóla á síðasta ári og var stofnunin í heild á áætlun.

Staða deilda nú er sú að þær eru á áætlun.

 

Í lok fundar skoðuðu fundarmenn stöðu framkvæmda í nýju rými Barnaborgar.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið 15:15