71. fundur.

Fundargerð

Fræðslunefnd

17.09.2018

71. fundur.

haldinn í Þingeyjarskóla mánudaginn 17. september kl. 15:00

Fundarmenn
Margrét Bjarnadóttir, formaður
Böðvar Baldursson
Hanna Jóna Stefánsdóttir                                                                 
Hanna Sigrún Helgadóttir
Sigurbjörn Árni Arngrímsson                         
Jóhann Rúnar Pálsson, skólastjóri Þingeyjarskóla
Birna Óskarsdóttir, deildarstjóri Krílabæ
Þorbjörg Jóhannsdóttir, fulltrúi kennara við Þingeyjarskóla
Íris Bjarnadóttir, fulltrúi foreldra við grunnskóladeild Þingeyjarskóla
Olga Hjaltalín Ingólfsdóttir, fulltrúi foreldra við Krílabæ
Hrannar Gylfason, fulltrúi foreldra við Barnaborg
Starfsmenn
 
Fundargerð ritaði: Hanna Sigrún Helgadóttir

Dagskrá:

  1. Kosning varaformanns og ritara
  2. Erindisbréf fræðslunefndar ásamt erindisbréfi fyrir allar nefndir lögð fram
  3. Málefni frá skólastjóra m.a. starfið, fjöldi nemenda og mönnun í grunnskóla-, leikskóla- og tónlistarskóladeildum, staða framkvæmda
  4. Ráðning leiðbeinanda til íþróttakennslu
  5. Erindi frá sveitarstjórn: Áheyrnarfulltrúar – 18080331
  6. Erindi frá sveitarstjórn: Leikskólar, sumarlokanir og rýmri opnunartímar - 1808033
  7. Innleiðing persónuverndarlaga

Margrét setti fundinn.

 

1.         Kosning varaformanns og ritara

Margrét lagði til að Böðvar Baldursson yrði kjörinn varaformaður og Hanna Sigrún Helgadóttir ritari.

Samþykkt samhljóða

 

2.         Erindisbréf fræðslunefndar ásamt erindisbréfi fyrir allar nefndir lögð fram

Farið yfir erindisbréf fræðslunefndar og erindisbréf allra nefnda.

Samþykkt án breytinga

 

3.         Málefni frá skólastjóra m.a. starfið, fjöldi nemenda og mönnun í grunnskóla-, leikskóla- og tónlistarskóladeildum, staða framkvæmda

Jóhann býður nefndina velkomna í Þingeyjarskóla og óskar henni velfarnaðar í störfum.

Nemendur grunnskóladeildar eru 70, nemendur leikskóladeilda 33 og 54 stunda sérnám í tónlistardeild.

Nú eru samtals 33,8 stöðugildi við stofnunina.

Eldhúsið í skólahúsnæðinu var tekið í gegn í sumar. Næstu verkefni eru anddyri og snyrtingar nemenda og síðan aðstaða fyrir verkgreinar.

Það eru sex umsjónarhópar í skólanum í þremur teymum; 1.-4. bekkur, 5.-7. bekkur og 8.-10. bekkur. Tveir umsjónarhópar eru í hverju teymi.

Kennslustundafjöldi samtals 280 með skiptistundum. Stundir í sér- og stuðningskennslu eru 34 og stundir á bókasafni 6.

Í haust var settur upp s.k. ærslabelgur á skólalóðinni og hefur hann vakið mikla lukku.

Jóhann segir að allir nemendur séu í tónmenntarkennslu og fer tónlistarkennari í leikskóladeildirnar einu sinni í viku.

Unglingastig skólans fær verklega kennslu í raungreinum einu sinni í viku í Framhaldsskólanum á Laugum, auk þess sem verið er að móta samstarf við framhaldsskólann í valgreinum, m.a. í íþróttagreinum. Einnig eru 5 nemendur á unglingastigi í byrjunaráfanga í ensku við FL.

Margrét segir frá því að sveitarstjórn hafi samþykkt flutning á leikskóladeildinni Barnaborg inn í húsnæði grunnskóladeildarinnar. Vinna við undirbúning flutninganna mun hefjast í haust.

Jóhann segir vinnu við innleiðingu á agastefnunni Jákvæður agi vera komna af stað. Kynningarfundur fyrir foreldra verður þriðjudaginn 25. september. Jóhann segist telja að innleiðingin hafi þegar skilað árangri.

 

4.         Ráðning leiðbeinanda til íþróttakennslu

Fræðslunefnd samþykkti undanþágubeiðni frá skólastjóra í tölvupósti 15. maí 2018.

Fræðslunefnd staðfestir afgreiðsluna.

 

5.         Erindi frá sveitarstjórn: Áheyrnarfulltrúar - 18080331

 Tekið til umræðu erindi frá sveitarstjórn um fjölda áheyrnarfulltrúa á fundum fræðslunefndar.

Áheyrnarfulltrúi frá foreldrafélagi Krílabæjar segir stjórn foreldrafélags Krílabæjar vera mótfallna fækkun fulltrúa.

Fræðslunefnd beinir því til foreldrafélagana þriggja að ræða málið innan sinna raða. Einnig beinir hún því til kennara skólans.

 

6.         Erindi frá sveitarstjórn: Leikskólar, sumarlokanir og rýmri opnunartímar - 1808033

Tekið til umræðu erindi frá sveitarstjórn um rýmri opnunartíma leikskóla sveitarfélagsins og styttingu sumarlokana í fimm vikur.

Fræðslunefnd beinir því til stjórna foreldrafélaga leikskóladeildanna að þær haldi félagsfundi til þess að ræða lengd sumarlokunar. Einnig beinir hún því til stjórnar foreldrafélags Krílabæjar að hún kanni þörfina fyrir rýmri opnunartíma.

Fræðslunefnd beinir því til deildarstjóra Krílabæjar að könnuð verði þörf fyrir rýmri opnunartíma í Krílabæ.

 

7.         Innleiðing persónuverndarlaga

Jóhann fór yfir hvernig málin standa. Farið var í gegnum áhættumatsgreiningu í grunnskóladeildinni í vor og verður það gert í leikskóladeildunum í haust. Vinna við innleiðinguna er hafin en ljóst er að mikið verk er framundan.

 

Eftir fundinn sýndi Jóhann fundarmönnum um húsnæði grunnskólans

Fleira ekki gert og fundi slitið 17:15