69. fundur

Fundargerð

Fræðslunefnd

30.04.2018

69. fundur

haldinn í Stórutjarnaskóla mánudaginn 30. apríl kl. 15:00

Fundarmenn

Margrét Bjarnadóttir, formaður
Böðvar Baldursson                                                                
Hanna Sigrún Helgadóttir                             
Vagn Sigtryggsson
Sigurlaug Svavarsdóttir boðaði forföll
Ólafur Arngrímsson, skólastjóri Stórutjarnaskóla
Jónas Reynir Helgason, fulltrúi kennara við Stórutjarnaskóla
Helgi Ingason, fulltrúi foreldra við Stórutjarnaskóla

Fundargerð ritaði: Hanna Sigrún Helgadóttir

Dagskrá:

  1. Málefni grunnskóla m.a. starfið, skóladagatal, nemendafjöldi, mönnun, kennslustundafjöldi, viðhaldsþörf húsnæðis og lóðar
  2. Málefni tónlistarskóla m.a. starfið, fjöldi nemenda, mönnun
  3. Málefni leikskóla m.a. starfið, fjöldi nemenda, mönnun, sumaropnun
  4. Kynning á reglum Þingeyjarsveitar um kostnaðarþátttöku og leikskóladvöl barna utan lögheimilissveitarfélags
  5. Rekstrarniðurstaða skólans á síðasta ári og staða deilda nú

 

Margrét setti fundinn. 

1. Málefni grunnskóla m.a. starfið, skóladagatal, nemendafjöldi, mönnun, kennslustundafjöldi, viðhaldsþörf húsnæðis og lóðar.

Farið yfir skóladagatal Stórutjarnaskóla fyrir skólaárið 2018-2019. Skóladagar eru 180, þar af fjórir tvöfaldir. Gert er ráð fyrir að starfsmannafundur verði 15. ágúst. BKNE-þing 17. ágúst og haustþing samskólasamstarfs verði í Stórutjarnaskóla 20. ágúst. Skólinn verður settur fimmtudaginn 23. ágúst. Jólafrí 19. desember – 3. janúar og páskafrí 13. – 23. apríl. Skólaslit verða 31. maí.

Ólafur leggur fram áætlun um kennslustunda- og nemendafjölda næsta skólaár. Gert er ráð fyrir að nemendur verði 40 í fjórum hópum og kennslustundir 182 (167 til almennrar kennslu og 15 til sérkennslu). Kennsla og störf á bókasafni verði 6 tímar.

Gert er ráð fyrir einni breytingu á starfsmannahópnum, Agnes Þórunn Guðbergsdóttir, sem séð hefur um sérkennslu, verður í leyfi næsta vetur. Laufey Eiríksdóttir hefur verið ráðin í hennar stað í 50% stöðu.

Búið er að endurnýja gler í hluta glugga á austurhlið skólans og er áætlað að klára þá framkvæmd í vor. Einnig á að fara í endurbætur á smíðastofunni fyrir haustið. Búið er að endurnýja baðherbergi í starfsmannaíbúð. Eftir á að malbika hluta af bílaplani, ekki er gert ráð fyrir að klára það að svo stöddu.

Nemendur 9. bekkjar tóku samræmd próf og komust allir nemendur í gegnum prófin þrátt fyrir tæknileg vandamál á landsvísu. Nemendur 10. bekkjar tóku þátt í PISA könnun.

Forvinna er hafin í skólanum vegna innleiðingar nýrrar persónuverndarlöggjafar.

Fræðslunefnd samþykkir kennslustundafjölda og skóladagatal Stórutjarnaskóla fyrir sitt leyti.

Fræðslunefnd býður Laufeyju Eiríksdóttur velkomna til starfa.

 

2. Málefni tónlistarskóla m.a. starfið, fjöldi nemenda, mönnun

Gert er ráð fyrir að kennslustundafjöldi verði 30 kennslustundir eins og verið hefur og starfsmannahald verði óbreytt frá því sem nú er.

Allir nemendur skólans eru í kór.

Skólahljómsveit Stórutjarnaskóla vann til verðlauna á Nótunni, uppskeruhátíð tónlistarskóla, og kom hún fram á lokahátíð í Hörpu 4. mars sl.

Fræðslunefnd óskar nemendum og kennurum tónlistardeildar til hamingju með góðan árangur.

 

3. Málefni leikskóla m.a. starfið, fjöldi nemenda, mönnun, sumaropnun

Útlit er fyrir að nemendafjöldi næsta haust verði 8 nemendur og starfsmannahald óbreytt frá því sem nú er.

Opnunartími leikskóladeildar breyttist um áramót og er leikskólinn nú opinn frá 8-16 mánudaga-fimmtudaga og 8-13 á föstudögum.

Sumaropnun hefst 3. júní og verður opið frá kl. 8 - 16 fjóra daga vikunnar, mánudaga til fimmtudaga. Sumaropnun stendur til 5. júlí og opnar leikskólinn að nýju, eftir 7 vikna sumarfrí, 24. ágúst.

Skóladagatal leikskólans fylgir skóladagatali grunnskólans fyrir utan sumaropnun.

Ólafur vill koma á framfæri þökkum til fræðslunefndar og sveitarstjórnar fyrir það traust og frelsi sem starfsfólk Stórutjarnaskóla hefur notið undanfarin ár til þess að halda utan um og skipuleggja faglegt starf í samreknum leik-, grunn- og tónlistarskóla. Hann telur að það sé lykilatriði varðand vel heppnaðan samrekstur.

Fræðslunefnd samþykkir skóladagatal og sumaropnun leikskólans fyrir sitt leyti.

 

4. Kynning á reglum Þingeyjarsveitar um kostnaðarþátttöku og leikskóladvöl barna utan lögheimilissveitarfélags.

Margrét lagði fram reglur Þingeyjarsveitar um kostnaðarþátttöku og leikskóladvöl barna utan lögheimilissveitarfélags til kynningar.

 

5. Rekstrarniðurstaða skólans á síðasta ári og staða deilda nú

Margrét fór yfir rekstrarniðurstöðu Stórutjarnaskóla á síðasta ári. Samanlagt fóru deildirnar lítillega fram úr áætlun.

Staða deilda nú er sú að reksturinn er á áætlun.

Þar sem þetta er síðasti fundur fræðslunefndar í Stórutjarnaskóla á kjörtímabilinu þakkar nefndin skólastjóra og áheyrnarfulltrúum gott samstarf.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið 16:25