52. fundur

Fundargerð

Fræðslunefnd

19.03.2015

52. fundur

haldinn í Þingeyjarskóla fimmtudaginn 19. mars kl. 15:30

Fundarmenn

Margrét Bjarnadóttir, formaður                                              
Böðvar Baldursson                            
Hanna Sigrún Helgadóttir                              
Vagn Sigtryggsson
Sigurlaug Svavarsdóttir
Harpa Hólmgrímsdóttir, skólastjóri Þingeyjarskóla
Jóhann Rúnar Pálsson, verðandi skólastjóri Þingeyjarskóla
Birna Óskarsdóttir, deildarstjóri Krílabæjar
Aðalsteinn Már Þorsteinsson, fulltrúi kennara við Þingeyjarskóla
Nanna Marteinsdóttir, fulltrúi foreldra við Barnaborg
Jón Sverrir Sigtryggsson, fulltrúi foreldra við Hafralækjarskóla
Elín Eydís Friðriksdóttir, fulltrúi foreldrafélags Litlulaugaskóla og Krílabæjar

Fundargerð ritaði: Hanna Sigrún Helgadóttir

Margrét Bjarnadóttir setti fundinn       

Dagskrá:

1.            Kynning – Jóhann Rúnar Pálsson nýráðinn skólastjóri.

2.            Erindi frá Bergljótu Hallgrímsdóttur vegna bókunar í fundargerð Fræðslunefndar frá 11. desember 2014.

3.            Málefni frá skólastjóra m.a. starfið undanfarið, starfið framundan, skólaaðlögun skólahóps Krílabæjar.

4.            Erindi frá foreldri sem óskar eftir að sveitarfélagið setji sér reglur um samskipti leik- og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarfélög.

5.            Viðhald og framkvæmdir við húsnæði Þingeyjarskóla og Krílabæjar fyrir næsta skólaár.

6.            Önnur mál.

1.         Kynning – Jóhann Rúnar Pálsson nýráðinn skólastjóri.

Margrét kynnir viðauka við starfslýsingu skólastjóra vegna skipulagsbreytinga á starfsemi skólans sem sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkti á fundi sínum þann 18. desember 2014. Skv. viðaukanum gegnir Harpa Þ. Hólmgrímsdóttir, núverandi skólastjóri, starfi skólastjóra Þingeyjarskóla til 31. júlí 2015 og lýkur skólaárinu 2014-2015. Jóhann Rúnar Pálsson er ráðinn frá 15. mars 2015 og gegnir 50% starfi til 1. apríl en 100% starfi eftir það. Hann mun sinna sérstökum verkefnum sem snúa að skipulagi vegna sameiningar beggja starfsstöðva skólans sem og undirbúningi næsta skólaárs til 1. ágúst 2015 en þá tekur hann formlega við stöðu skólastjóra.

Jóhann Rúnar segir frá sér og sínum högum.

2.         Erindi frá Bergljótu Hallgrímsdóttir vegna bókunar í fundargerð Fræðslunefndar frá 11. desember 2014.

Margrét les erindi frá Bergljótu Hallgrímsdóttur:

Ég undirrituð geri athugasemd við eftirfarandi bókun, tilvitnun í fundargerð frá fræðslunefndarfundi 11. des. 2014 hefst:

Birna leggur fram eftirfarandi bókun:

Krílabæ 10. Desember 2014

Bókun gerð á starfsmannafundi.

"Við starfsmenn Krílabæjar hörmum þá ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar að flytja grunnskólahald frá Litlulaugum án þess að því fylgi greinargerð sem styðji þá ákvörðun.

Í því framhaldi finnst okkur vanta að við fáum að vita hver stefna sveitarfélagsins er varðandi leikskólahald í Krílabæ.

Hvernig hugsa menn sér samvinnu við grunnskóla sveitarfélagsins, sem samkvæmt nýútkominni skólastefnu gerir ráð fyrir miklu samstarfi þessara skólastiga? Hvernig hugsa menn sér íþrótta- og sundkennslu sem vakið hefur athygli víða og aðrir hafa fetað í fótspor okkar með, auk tónlistarkennslu sem hefur verið hluti af stefnu leikskólans (þ.e. listir)? Auk mötuneytismála og fleiri þátta sem hafa verið í samstarfi við grunnskólann fram að þessu?"

Tilvitnun lýkur

Ég undirrituð starfsmaður Krílabæjar frábið mér að vera bendluð við ofangreinda bókun, einkum fyrstu málsgrein hennar. Þennan dag, 10. desember s.l. var enginn starfsmannafundur haldinn í Krílabæ. Sjálf hefði ég aldrei samþykkt fyrstu málsgrein bókunarinnar og sem einn af starfsmönnum Krílabæjar get ég ekki setið undir því né látið það óátalið að slík klausa standi athugasemdalaust í fundargerðabókum hreppsins. 

Með vinsemd
Bergljót Hallgrímsdóttir
Leikskólakennari
Krílabæ

Fræðslunefnd harmar þessi mistök og vill koma á framfæri að á umtöluðum fundi kom fram að Bergljót stæði ekki að þessari bókun. Fræðslunefnd áréttar að fulltrúar á fræðslunefndarfundum vandi það sem þeir leggja fram. Ef bóka á ályktun verður hún að vera frá formlegum fundi eða með nöfnum þeirra sem leggja hana fram.

3.         Málefni frá skólastjóra m.a. starfið undanfarið, starfið framundan, skólaaðlögun skólahóps Krílabæjar.

Harpa segir starfið hafa verið nokkuð hefðbundið. Þó hefur verið eitthvað um mannabreytingar.

Berglind Gunnarsdóttir fór í veikindaleyfi í byrjun október og í fæðingarorlof frá 24. nóvember. Fæðingarorlofi hennar lýkur 24. maí og hefur hún óskað eftir 6 mánaða launalausu leyfi af því loknu.

Guðrún S. Tryggvadóttir tók við hennar starfi og vinnur 3 daga í viku í Litlulaugaskóla og hefur Freydís Anna komið að kennslu 1. og 2. bekkjar á móti henni.

Margrét Jónsdóttir leysti Guðrúnu af í 2 vikur í haust.

Árni Pétur Hilmarsson óskaði eftir að minnka starfshlutfall sitt niður í 80% frá áramótum. Hann heldur kennsluskyldu sinni en minnkaði stjórnunarstörf. Hann er nú í 46% kennslu og 34% stjórnun.

Erla Rut Jónsdóttir, stuðningsfulltrúi, sagði starfi sínu lausu frá 1. mars og var Hanna Þórsteinsdóttir ráðin til að leysa hana af að hluta en á móti hefur starf hennar verið leyst með skipulagsbreytingum.

Bryndís Pétursdóttir lét af störfum sem matráður þann 28. febrúar. Jóhanna Sif Sigþórsdóttir var ráðin í hennar stað. Samningar Guðrúnar, Hönnu og Jóhönnu eru tímabundnir fram á vor.

Þorrablót Þingeyjarskóla var haldið 12. febrúar að Ýdölum.

9. bekkur fór í skólabúðir að Laugum í Sælingsdal fyrstu vikuna í febrúar og fór Hildur Rós með sem fararstjóri.

Á sama tíma fór miðstig í skólabúðir í Kiðagil – Árni Pétur og Aðalsteinn Már fóru sem fararstjórar.

Árshátíð Litlulaugaskóla verður haldin 20. febrúar, leikritið Dýrin í Hálsaskógi verður sett upp og taka allir nemendur grunnskóla og skólahópur Krílabæjar þátt í uppsetningunni.

Farið var í samstarf við Reykjahlíðarskóla og Stórutjarnaskóla um að fá námsráðgjafa til að ræða við nemendur 10. Bekkjar. Námráðgjafi frá VMA hélt fund með nemendum 10. bekkjar og foreldrum þeirra í Stórutjarnaskóla þann 18. febrúar. 

Þrír kennarar fóru á námskeið um stjörnufræði og sólmyrkva á vegum Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness 16. mars og fékk skólinn að gjöf námsefni í stjörnufræði.

PISA könnun verður lögð fyrir þann 27. mars n.k.

Skipulagðar hafa verið fjórar samskiptastundir skólahópa Krílabæjar og Barnaborgar sem hluti af skólaaðlögun leikskólabarna.

Harpa sagði frá niðurstöðum úr samræmdum prófum.

4.         Erindi frá foreldri sem óskar eftir að sveitarfélagið setji sér reglur um samskipti leik- og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarfélög.

Margrét segir frá erindi sem barst frá foreldri sem óskaði eftir því að sveitarfélagið setji sér reglur um samskipti leik- og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarfélög. Hún fer einnig yfir tillögur starfshóps á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins um með hvaða hætti skuli staðið að samskiptum skóla og trúfélaga á öllum skólastigum. Tillögurnar er að finna á vefslóðinni: http://www.menntamalaraduneyti.is/menntamal/vidmid/ Í kjölfarið fóru fram umræður um efnið.

Fræðslunefnd þakkar erindið og beinir því til skólastjórnenda að hafa til hliðsjónar tillögur starfshóps Mennta- og menningamálaráðuneytisins varðandi þessi samskipti að svo stöddu.

5.         Viðhald og framkvæmdir við húsnæði Þingeyjarskóla og Krílabæjar fyrir næsta skólaár.

Margrét segir að til standi að stofnaður verði hópur skipaður byggingarfulltrúa, sveitarstjóra og skólastjórum sem hefur umsjón með skipulagsbreytingum og endurbótum á húsnæði Þingeyjarskóla og kemur jafnframt með tillögu að forgangsröðun framkvæmda fyrir næsta skólaár. 

Áætlað er að þegar starfsemi tónlistardeilda flytjist að mestu að Hafralæk fái leikskólinn Krílabær salinn og kaffiaðstöðu til umráða en tónlistardeild haldi a.m.k. tveimur herbergjum í húsnæðinu.

Varðandi Barnaborg er útlit fyrir að fleiri börn verði þar næsta vetur en áætlað hafði verið og því þurfi að nota Víðigerði áfram sem leikskólahúsnæði.

Fræðslunefnd mælir með því að leikskólinn Barnaborg haldi húsnæði Víðigerðis næsta ár. Einnig vill fræðslunefnd minna á að við skipulagsbreytingar og endurbætur á húsnæði Hafralækjarskóla verði þess gætt að rýra ekki möguleika á flutningi leikskólans Barnaborgar og Bókasafns Aðaldæla í húsnæðið.

6.         Önnur mál

Fram kom umræða um starfsmannamál leikskólans Krílabæjar í ljósi þess að þar verði stofnaður sjálfstæður leikskóli. Fræðslunefnd vill beina því til sveitarstjórnar að könnuð verði réttindi og staða starfsmanna við stofnun nýrrar stofnunnar.

Einnig kom fyrirspurn um hvort að starfsfólk leikskóladeildarinnar Barnaborgar haldi sjálfkrafa sínum starfsréttindum eða hvort þeir fari í gegnum sama ferli og starfsmenn grunn- og tónlistarskóladeilda. 

Margrét segir frá breytingum á reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla nr. 584/2010 en hún heitir nú reglugerð um stuðning við nemendur með sérþarfir í grunnskólum nr. 148/2015

 

Fleira ekki gert og fundi slitið 18:15