51. fundur

Fundargerð

Fræðslunefnd

11.12.2014

51. fundur

haldinn í Þingeyjarskóla fimmtudaginn 11. desember kl. 20:00

Fundarmenn

Margrét Bjarnadóttir, formaður                                              
Böðvar Baldursson                            
Hanna Sigrún Helgadóttir                              
Vagn Sigtryggsson
Sigurlaug Svavarsdóttir
Harpa Hólmgrímsdóttir, skólastjóri Þingeyjarskóla
Birna Óskarsdóttir, deildarstjóri Krílabæjar
Aðalsteinn Már Þorsteinsson, fulltrúi kennara við Þingeyjarskóla
Pétur Bergmann Árnason, fulltrúi foreldrafélags leikskólans Barnaborgar
Knútur Emil Jónasson, fulltrú foreldrafélags Hafralækjarskóla
Elín Eydís Friðriksdóttir, fulltrúi foreldrafélags Litlulaugaskóla og Krílabæjar

Fundargerð ritaði: Hanna Sigrún Helgadóttir

Margrét Bjarnadóttir setti fundinn  

Dagskrá:

1. Húsnæðið skoðað

2. Erindi frá sveitarstjórn: Umsögn um eftirfarandi tillögu sveitarstjórnar frá fundi 4. desember. Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkir að grunnskólastig Þingeyjarskóla verði sameinað á eina starfsstöð frá og með 1. ágúst 2015. Sú starfsstöð verði í húsnæði Hafralækjarskóla. Starfsemi tónlistardeilda fylgi grunnskólastiginu. Leikskólinn Krílabær verður við þessa breytingu sjálfstæð stofnun.

3. Önnur mál.

 

1. Húsnæðið skoðað

Harpa leiddi fundarmenn um húsakynni Hafralækjarskóla.

2. Erindi frá sveitarstjórn: Umsögn um eftirfarandi tillögu sveitarstjórnar frá fundi 4. desember. Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkir að grunnskólastig Þingeyjarskóla verði sameinað á eina starfsstöð frá og með 1. ágúst 2015. Sú starfsstöð verði í húsnæði Hafralækjarskóla. Starfsemi tónlistardeilda fylgi grunnskólastiginu. Leikskólinn Krílabær verður við þessa breytingu sjálfstæð stofnun.

Margrét fer yfir rökstuðning meirihluta sveitarstjórnar fyrir þeirri tillögu að sameina starfssemi Þingeyjarskóla í húsnæði Hafralækjarskóla. Í kjölfarið fara fram umræður um tillöguna. 

Sigurlaug leggur fram eftirfarandi bókun:

"Ég undirrituð harma mjög og átel það vinnulag sem sveitarstjórn hefur viðhaft í þessu ferli öllu. Allt frá upphafi hefur verið um einstefnu sveitarstjórnarmeirihlutans að ræða án nauðsynlegs samráðs við þá er málið varðar mest.

Við sameiningu Litlulaugaskóla og Hafralækjarskóla virtist unnið hratt, svo hratt að sá gerningur var ekki einu sinni á dagskrá sveitarstjórnarfundar.

Þá strax misstu menn af eða öllu heldur sneiddu hjá þeim tækifærum sem breytingar buðu uppá. Við svona breytingu var grundvallaratriði að virkja fagfólkið, skólastjórnendur og kennara og fá þá til liðs við yfirvöld, búa til spennandi valkosti þar sem skólaþróun og framfarir væru í brennidepli. Þetta var ekki gert og afleiðingin er sú staða sem nú er uppi.

Ennfremur harma ég þá þröngsýni sem ég tel að ráðið hafi för við þessa ákvörðun. Aðeins er stillt upp tveimur kostum, þ.e. þeim sem hér er mælt með og því að byggja nýjan skóla á Laugum, möguleikarnir eru langt um fleiri. Hefði verið farið af stað með víðsýni og framþróun að leiðarljósi í samráði við íbúana stæðum við e.t.v. ekki frammi fyrir sundruðu sveitarfélagi."

Sigurlaug Svavarsdóttir 
Fulltrúi T lista, Sveitunga í fræðslunefnd Þingeyjarsveitar

Fræðslunefndarfulltrúar gera grein fyrir afstöðu sinni. Böðvar og Vagn styðja tillögu sveitarstjórnar en Hanna Sigrún leggur fram eftirfarandi bókun:

"Ég tel að sameining grunnskólastigs Þingeyjarskóla á eina starfsstöð muni hafa jákvæð áhrif félagslega á nemendur skólans og að sá sparnaður sem skapast af nýju fyrirkomulagi geti nýst til að efla faglegt starf skólans.

Þó tel ég að í svo mikilvægu máli þurfi að horfa á heildarmyndina í skólamálum sveitarfélagsins til framtíðar og því er eðlilegt að í kjölfar þessarar ákvörðunar fari fram opin umræða og stefnumótun um framtíð skólahalds vestan Fljótsheiðar.

Skólamál eru eitt stærsta hagsmunamál íbúa sveitarfélagsins og til þess að lágmarka óöryggi og óvissu sem óhjákvæmilega kemur upp við breytingar líkt og þær sem fyrirhugaðar eru, er mjög mikilvægt að íbúar, starfsfólk skólans, foreldrar og nemendur séu upplýstir um hvert framhaldið er, nái tillagan fram að ganga. 

Varðandi leikskólann Krílabæ tel ég mikilvægt að honum verði tryggt nægt rekstrarfé til þess að standa að tónlistar- og íþróttakennslu, einnig að aðlögun elsta árgangs leikskólans að grunnskólanum verði með sem bestum hætti. Skoða þarf fyrirkomulag tónlistarkennslu fyrir framhaldsskólanema og hvernig samstarfi við Framhaldsskólann á Laugum verði framhaldið, bæði varðandi nám grunnskólanemenda við FL og s.k. Eflingartíma sem nemendur á íþróttabraut FL og Umf. Efling hafa boðið uppá fyrir nemendur Þingeyjarskóla. Einnig þarf að upplýsa um fyrirætlanir varðandi íþrótta- og sundkennslu nemenda Þingeyjarskóla. Að lokum er mikilvægt að starfsmenn skólans verði sem fyrst upplýstir um hvernig staðið verður að þeim breytingum á starfsmannahaldi sem verða vegna sameiningarinnar.

Ég tel ekki faglega ábyrgt að taka afstöðu í þessu máli fyrr en sveitarstjórn hefur gefið út hver stefna hennar í áðurnefndum málum er og útlistun á áætluðum fjárhagslegum ávinningi af sameiningunni."

Birna leggur fram eftirfarandi bókun:

Krílabæ 10. Desember 2014
Bókun gerð á starfsmannafundi.

"Við starfsmenn Krílabæjar hörmum þá ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar að flytja grunnskólahald frá Litlulaugum án þess að því fylgi greinargerð sem styðji þá ákvörðun.

Í því framhaldi finnst okkur vanta að við fáum að vita hver stefna sveitarfélagsins er varðandi leikskólahald í Krílabæ.

Hvernig hugsa menn sér samvinnu við grunnskóla sveitarfélagsins, sem samkvæmt nýútkominni skólastefnu gerir ráð fyrir miklu samstarfi þessara skólastiga? Hvernig hugsa menn sér íþrótta- og sundkennslu sem vakið hefur athygli víða og aðrir hafa fetað í fótspor okkar með, auk tónlistarkennslu sem hefur verið hluti af stefnu leikskólans (þ.e. listir)? Auk mötuneytismála og fleiri þátta sem hafa verið í samstarfi við grunnskólann fram að þessu?"

Pétur leggur fram eftirfarandi bókun:

Aðaldal 11.12.2014
Til fræðslunefndar Þingeyjarsveitar.
Ályktun frá stjórnum foreldrafélaga Barnaborgar og Hafralækjarskóla.

"Stjórnir foreldrafélaga Barnaborgar og Hafralækjarskóla lýsa yfir ánægju sinni með að fram sé komin tillaga í skólamálum í sveitarfélaginu. Stjórnir félaganna eru þess fullvissar að ef tillagan nær fram að ganga, komi hún til með að hafa jákvæð áhrif til lengri tíma litið. Við gerum okkur grein fyrir því að aldrei verða allir sáttir í málefnum sem þessum og því er mikilvægt að muna að góður skóli byggir ekki á staðsetningu heldur þeim mannauð sem þar starfar."

Stjórn Foreldrafélags Barnaborgar.
Stjórn Foreldrafélags Hafralækjarskóla.

Margrét leggur fram eftirfarandi bókun:

,,Fræðslunefnd styður tillögu sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um framtíðarskipulag Þingeyjarskóla sem kom fram á 159. fundi hennar 4.desember síðastliðinn enda lítur nefndin svo á að meirihluti foreldra og íbúa á skólasvæðinu vilji hafa skólann á einni starfsstöð þar sem tæplega 80 % íbúa á skólasvæði Þingeyjarskóla samþykktu það í skoðanakönnun.

Fræðslunefnd telur þessa breytingu geta gert góðan skóla enn betri bæði faglega og félagslega fyrir nemendur. Til þess að svo megi verða þarf að leggja metnað í alla vinnu við breytingarnar og tryggja fjármagn til þeirra. Nefndin mælir með að faglegur ráðgjafi verði ráðinn til aðstoðar. Mikilvægt er að nemendur, starfsfólk og foreldrar verði upplýst jafnóðum eins og kostur er.

Fræðslunefnd leggur einnig áherslu á að farið verði í það viðhald á skólahúsnæðinu sem þarf að mati byggingarfulltrúa og eldvarnaeftirlits sveitarfélagsins.

Fræðslunefnd gerir sér grein fyrir að þessar breytingar eru erfiðar fyrir marga en biður starfsfólk, foreldra og aðra íbúa að gæta hófs í orðræðunni.“

Margrét bar þessa bókun upp til atkvæðagreiðslu. Margrét, Böðvar og Vagn greiða atkvæði með bókuninni og Hanna situr hjá.

Sigurlaug greiðir atkvæði á móti og leggur fram eftirfarandi bókun:

"Það er mér óskiljanlegt að vilja fórna þeirri samfellu í skólastarfi sem fyrir er á Laugum, frá leikskóla til stúdentsprófs og jafnvel háskólanáms að einhverju leyti.

Margt bendir til þess að sveitarfélög muni í vaxandi mæli bera ábyrgð á framhaldsskólastiginu, enda er það keppikefli víða að stofna til náms á framhaldsskólastigi.

Því er dapurlegt að sjá tækifæri til þróunar á tengslum grunnskóla og framhaldsskóla hvað varðar kennslu, skólaakstur og nýtingu húsnæðis kastað á glæ að því er virðist án eðlilegrar umræðu, skoðunar eða nýtingar þeirrar reynslu og þekkingar sem þegar hefur verið aflað í þessum samskiptum.

Sú tillaga sem sveitarstjórn teflir hér fram er til þess fallin að draga úr vexti og viðgangi þess kjarna í sveitarfélaginu sem helst hefur verið í uppbyggingu og stofna jafnvel í hættu einum stærsta vinnustaðnum í sveitarfélaginu."

Sigurlaug Svavarsdóttir
Fulltrúi T lista, Sveitunga í fræðslunefnd Þingeyjarsveitar.

3. Önnur mál

Birna kemur því á framfæri að henni finnist að  leikskólinn hafi gleymst í umræðunni um sameiningu skólanna. 

Fleira ekki gert og fundi slitið 22:30