50. fundur

Fundargerð

Fræðslunefnd

24.11.2014

50. fundur

haldinn í Þingeyjarskóla mánudaginn 24. nóvember kl. 15:30

Fundarmenn

Margrét Bjarnadóttir, formaður                                              
böðvar Baldursson                            
Hanna Sigrún Helgadóttir                              
Vagn Sigtryggsson
Sigurlaug Svavarsdóttir
Harpa Hólmgrímsdóttir, skólastjóri Þingeyjarskóla
Birna Óskarsdóttir, deildarstjóri Krílabæjar
Aðalsteinn Már Þorsteinsson, fulltrúi kennara við Þingeyjarskóla
Pétur Bergmann Árnason, fulltrúi foreldra á leikskólanum Barnaborg
Jón Sverrir Sigtryggsson, fulltrúi foreldra við Þingeyjarskóla - Hafralækjarstarfsstöð
Fulltrúi Norðurþings mætti ekki.

Starfsmenn

Gerður Sigtryggsdóttir, aðalbókari Þingeyjarsveitar sat fundinn undir liðum 1 – 3

Fundargerð ritaði: Hanna Sigrún Helgadóttir

Margrét Bjarnadóttir setti fundinn       

Dagskrá:

1.         Fjárhagsáætlun Þingeyjarskóla fyrir árið 2015

2.         Drög að gjaldskrá fyrir mötuneyti í leik- og grunnskólum Þingeyjarsveitar

3.         Gjaldskrár v. leikskóla- og tónlistarnáms í Þingeyjarsveit

4.         Erindi frá sveitarstjórn: Umsögn um skýrslur vegna Þingeyjarskóla þ.e. skýrslu HLH ehf. um rekstur og framtíðarskipulag Þingeyjarskóla, skýrslu frá Skólastofan.is um skólaskipan og skýrslu frá Ráðbarður sf. um viðhalds og rýmisþörf

5.         Málefni frá skólastjóra

6.         Önnur mál

 

1.         Fjárhagsáætlun Þingeyjarskóla fyrir árið 2015

Gerður kemur því á framfæri að launakostnaður fyrir Hafralækjarskóla árið 2012 kom ekki inn í bókhald Þingeyjarsveitar fyrr en frá 1. ágúst 2012 og því er samanburðurinn í skýrslu Haraldar Líndal Haraldssonar ekki réttur þar sem hann bar þá saman launakostnað fyrir tímabilið 1.8 – 31.12 2012 við allt árið 2013. Hækkun á launalið var því um 8 % en ekki 50 - 60 % eins og fram kom í skýrslunni.

Gert er ráð fyrir 3,4 % hækkun á rekstrarkostnað nema skólastjóri hafi óskað eftir breytingum á liðum. Laun leikskólakennara hækka um 2 % frá 1. mars, kennarar hækka um 2% frá 1. janúar og félagar í Framsýn hækka um 2,45 % 1. janúar.

Farið yfir fjárhagsáætlun fyrir leikskóladeildirnar Krílabæ og Barnaborg.

Athuga þarf hvort lækka þurfi áætlun fyrir heitt vatn á Barnaborg.

Fræðslunefnd minnir á að nauðsynlegt er að ráðast í endurbætur á lóð Krílabæjar.

Fræðslunefnd samþykkir áætlunina fyrir sitt leyti.

Farið yfir fjárhagsáætlun fyrir grunnskóladeildirnar.

Hækka þarf áætlun fyrir  innri leigu á húsnæði Hafralækjarskóla.

Einnig vor gerðar breytingar á einstökum liðum.

Fræðslunefnd beinir því til skólastjóra að skoða samræmingu á fyrirkomulagi gæslu milli starfsstöðva.

Fræðslunefnd samþykkir áætlunina fyrir sitt leyti með áorðnum breytingum.

Farið yfir fjárhagsáætlun fyrir tónlistardeildirnar.

Töluverð óvissa í launalið áætlunar vegna verkfalls tónlistarkennara.

Fræðslunefnd samþykkir áætlunina fyrir sitt leyti.

Farið yfir áætlanir fyrir Fræðslunefnd, sameiginlega liði, annan leikskóla- og dagvistunarkostnað, annan grunnskólakostnað og Framhaldsskólann á Laugum

Fræðslunefnd samþykkir áætlunina fyrir Fræðslunefnd fyrir sitt leyti en sameiginlega liði þarf að skoða betur.

2.         Drög að gjaldskrá fyrir mötuneyti í leik- og grunnskólum Þingeyjarsveitar

Áframhald á umræðu um gjaldskrá fyrir mötuneyti frá síðasta fundi. Fræðslunefnd telur æskilegt að samræma gjaldskrár fyrir mötuneyti í skólum Þingeyjarsveitar en að það verði gert í áföngum. 

Fræðslunefnd leggur til að gjaldskrá mötuneyta verði sem hér segir frá 1. janúar 2015:

Þingeyjarskóli – grunnskóladeildir: 490 kr/dag

Þingeyjarskóli – leikskóladeildir: 475 kr/dag m. síðdegishressingu

Stórutjarnaskóli – grunnskóladeild: 550 kr/dag

Stórutjarnaskóli – leikskóladeild: 405 kr/dag (án síðdegishressingar)

Gjaldskrá í Þingeyjarskóla hækkar þá um 40 kr/dag í grunnskóladeildum, um 73 kr/dag í Barnaborg en er óbreytt á Krílabæ. Gjaldskrá í Stórutjarnaskóla lækkar um 30 kr/dag í grunnskóladeild en er óbreytt í leikskóladeild.

3.         Gjaldskrár v. leikskóla- og tónlistarnáms í Þingeyjarsveit

Áframhald á umræðu frá síðasta fundi. 

Fræðslunefnd leggur til að leikskólagjöld hækki um 2 % og tónlistarnám sem nemur verðlagsbreytingum þ.e um 3,4 % frá 1. janúar 2015.

Einnig er lagt til að sett verði inn í gjaldskrá fyrir tónlistarnám að við samkennslu sé veittur 25% afsláttur af gjaldi hvers nemanda sé nemandi eingöngu í samkennslu.

4.         Erindi frá sveitarstjórn: Umsögn um skýrslur vegna Þingeyjarskóla þ.e. skýrslu HLH ehf. Um rekstur og framtíðarskipulag Þingeyjarskóla, skýrslu frá Skólastofan.is um skólaskipan og skýrslu frá Ráðbarður sf. um viðhalds og rýmisþörf.

Aðalsteinn leggur fram eftirfarandi ályktun frá kennarafundi Litlulaugaskóladeildar Þingeyjarskóla 24. Nóvember 2014:

,,Kennurum við Litlulaugadeild Þingeyjarskóla finnst þau vinnubrögð Ingvars Sigurgeirssonar við skýrslugerð sína að senda starfsmönnum drögin til yfirlestrar áður en hún var fullkláruð til fyrirmyndar, þó svo að okkur finnist vanta upp á faglegu hliðina sem hann átti að skoða í henni. Okkur finnst hinsvegar skýrsla Haraldar Líndal Haraldssonar illa unnin, þar sem ekki var nóg gert með þær athugasemdir sem gerðar voru að hálfu skólastjóra við yfirlestur, og því er hún full af staðreyndavillum. Einnig finnst okkur kennurum við Litlulaugadeild að okkur vegið í skýrslu Haraldar þar sem ýjað er að því að menn skammti sér hér yfirvinnu eftir hentugleikum. Þar sem þessar skýrslur eru nú orðnar heimildir um skólahald er það verulega bagalegt að ekki skuli farið rétt með staðreyndir.“

Fræðslunefnd lýsir yfir ánægju með skýrslurnar og telur þær nýtast varðandi ákvarðanatöku um framtíðarskipan Þingeyjarskóla. Einnig munu þær nýtast Fræðslunefnd og skólastjóra í störfum sínum.

5.         Málefni frá skólastjóra

Harpa lýsir yfir áhyggjum af því ástandi sem skapast hefur vegna verkfalls tónlistarskólakennara, það mun m.a. setja mark sitt á hefðbundna viðburði sem á dagskrá eru í desember.

Hafralækjarskóli var með árshátíð sína s.l. föstudag og gekk hún mjög vel og var sótt af um 160 - 170 gestum.

Gerð var skoðanakönnun meðal foreldra á Krílabæ varðandi lengri opnunartíma á leikskólanum. Foreldrar fjögurra barna óskuðu eftir að opnunartími á miðvikudögum væri lengdur til kl. 16:30. Aðra daga var fjöldi þeirra sem myndu nýta lengri vistun undir fjórum börnum.

Fræðslunefnd samþykkir opnun á miðvikudögum til kl. 16:30 fyrir sitt leyti.

Skoða þarf fyrirkomulag húsvörslu og hvernig hún er mönnuð í grunnskólum sveitarfélagsins.

Leikskólakennarar í 6. deild leikskólakennara á Norðurlandi Eystra, um 40 - 50 starfsmenn heimsóttu Krílabæ þann 17. október. Þeir skoðuðu leikskólann og Birna deildarstjóri sagði þeim frá starfinu.

6.         Önnur mál

Margrét segir frá bókunum í síðustu fundargerð fræðslunefndar um bréf sem höfðu borist.

Fleira ekki gert og fundi slitið 19:40