34. fundur

Fundargerð

Brunavarnanefnd

24.11.2021

34. fundur

Brunavarnanefnd

haldinn í Kjarna miðvikudaginn 24. nóvember kl. 14:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson formaður, Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, Sveinn Margeirsson sveitarstjóri Skútustaðahrepps. 

 

Starfsmenn

Lárus Björnsson varaslökkviliðsstjóri og Bjarni Höskuldsson slökkviliðsstjóri. 

 

 

Fundargerð ritaði: Bjarni Höskuldsson slökkviliðsstjóri.

Arnór setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

1. Breyting á reglugerð um starfsemi slökkviliða og áhrif þess á m.a. bakvaktarfyrirkomulag slökkviliðsins auk breytinga á kjarasamningi.

Slökkviliðsstjóri gerði grein fyrir þeim breytingum sem gerðar hafa verið á reglugerð 747/2018 um starfsemi slökkviliða auk breytinga sem verða á kjarasamningi slökkviliðsmanna og taka gildi um næstkomandi áramót.

Síðustu ár hefur málum verið háttað þannig hjá slökkviliðinu að 4 slökkviliðsmenn hafa sinnt „viðbragðsvöktum“ á hverjum tíma, tveir í Þingeyjarsveit og tveir í Skútustaðahreppi. Breytingin sem snýr að kjarasamningnum er sú að 14. kafli sem áður gilti eingöngu um hlutastarfandi slökkviliðsmenn fellur út um áramót og hlutastarfandi þiggja því laun framvegis eftir kjarasamningi slökkviliðs og sjúkraflutningsmanna. Við þá breytingu hækkar bakvaktargreiðsla til slökkviliðsmanna verulega. Þá er og gerð krafa um ráðningarsamning við hvern hlutastarfandi slökkviliðsmann í ákveðnu starfshlutfalli. Nú hefur 15. grein áðurnefndrar reglugerðar verið breytt og ekki er lengur krafa um „klára útkallseiningu, 4 menn auk stjórnanda“. Greinin í reglugerðinni sem allt hefur snúist um er 15. grein. Hún hljóðar svo í dag eftir breytingu.

„15. gr.

Skipulag slökkviliðs.

Í brunavarnaáætlun skal sýnt fram á mannaflaþörf slökkviliðsins. Sé ekki sýnt fram á að annað sé nægjanlegt skal miða við eftirfarandi lágmarksfyrirkomulag á rekstri slökkviliðs:

a. Yfir 15.000 íbúar í einstöku þéttbýli á starfssvæði slökkviliðs: Slökkvilið með fastri mannaðri sólarhringsvakt slökkviliðsmanna á slökkvistöð.

b. Yfir 5.000 íbúar á starfssvæði slökkviliðs: Slökkvilið þar sem slökkviliðsmenn eru á vakt á slökkvistöð á dagvinnutíma. Utan þess tíma er slökkviliðið mannað af slökkviliðsmönnum í hlutastarfi sem ekki hafa fasta viðveru á slökkvistöð en eru skyldugir til að mæta í útköll eftir skilgreindu skipulagi.

c. Undir 5.000 íbúar á starfssvæði slökkviliðs: Slökkvilið er mannað af slökkviliðsmönnum í hlutastarfi sem ekki hafa fasta viðveru á slökkvistöð en eru skyldugir til að mæta í útköll eftir skilgreindu skipulagi.

Í þéttbýli með fleiri en 300 íbúum skal vera útkallseining, nema sýnt sé fram á annað í brunavarnaráætlun.

Mannvirkjastofnun getur sett leiðbeiningar um skipulag slökkviliðs, þ.m.t. um mat á mannaflaþörf slökkviliðs og viðmiðanir um útreikning á þeim tíma sem slökkviliðið er laust og tiltækt.“

Í c lið 15. greinar er nú talað um „skilgreint“ skipulag en var áður „fast“ skipulag auk þess sem ekki er skylt að vera með útkallseiningu í þéttbýli með fleiri en 300 íbúum ef sýnt er fram á annað í brunavarnaráætlun.

Brunavarnanefndin telur brýnt til að viðhalda viðbragði slökkviliðsins og til að standa vörð um öryggi íbúa og annarra að reyna að tryggja tvo slökkviliðsmenn á bakvakt auk stjórnanda. En þar sem kostnaður við launahækkanirnar er verulegur og til þess að missa ekki kostnað við bakvaktir slökkviliðsmanna úr böndunum þá er tillagan sú að tveir menn, í stað fjögurra áður sinni bakvakt hverju sinni. Bakvaktin yrði þá miðuð við kvöld, nætur og helgar en ekki dagvinnutíma á virkum dögum þ.e. frá 08-16. Það er lagt til að þessi útfærsla taki gildi 1. janúar 2022 og verði síðan endurskoðuð eftir 6 mánuði til að sjá hver reynslan verður.

Heildarkostnaður á vikuna yrði því 138.266.- (130.341.-) á meðaltalsvikuna yfir árið.

Heildarkostnaður við tvo menn því 14.190.332.- (13.377.056.-)

Heildarkostnaður sveitarfélaganna við núverandi fyrirkomulag (4 menn) var 10.400.000.-

Þá bíður undirritunar samstarfssamningur Brunvarna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar og Landsvirkjunar þar sem LV mun greiða a.m.k. 1.950.000.- á hverju ári fyrir þrjár æfingar á starfsstöðvum Landsvirkjunar. Greiðslan mun standa undir langstærstum hluta æfingarkostnaðar slökkviliðsins sem gæti verið um 2.604.700.-

Hvað ráðningarsamningum viðkemur telur brunanefnd rétt að fá Tryggva Þórhallsson lögmann til að yfirfara nokkur atriði varðandi ráðningarmálin.

 

2. Fjárhagsáætlun

Brunavarnanefndin leggur til að fjárhagsáætlun vegna reksturs slökkviliðs verði að öðrum leyti óbreytt frá síðasta rekstrarári utan hefðbundinnar vísitöluhækkunnar.

 

3. Önnur mál

Fjöldi útkalla slökkviliðsins það sem af er ári hafa verið 13. Stærsti hluti þess er vegna umferðarslysa. Þess ber að geta að slökkviliðin í landinu hafa samstarfssamning við Vegagerð ríkisins um upphreinsun af og við þjóðvegi landsins eftir umferðarslys og óhöpp. Í því felst að verka upp ýmis spilliefni sem ekki eru mjög náttúruvæn og einnig t.d. brak og glerbrot. Það er ljóst að slökkviliðið er ekki kvatt á vettvang í fjölmörgum tilfellum þar sem þörf væri á upphreinsun. Hvetur brunanefnd slökkviliðsstjóra til að koma málum svo við Neyðarlínuna að slökkviliðið sé fengið til hreinsunarstarfa í öllum þeim tilfellum þar sem spilliefni fara út í náttúruna svo síður hljótist skaði af.

 

 

Fundi lokið kl 15:20