30. fundur

Fundargerð

Brunavarnanefnd

20.05.2020

30. fundur

Brunavarnanefnd

haldinn í fjarfundi miðvikudaginn 20. maí kl. 13:30

Fundarmenn

Arnór Benónýsson formaður

Dagbjört Jónsdóttir

Þorsteinn Gunnarsson

Bjarni Höskuldsson slökkviliðsstjóri

Lárus Björnsson varaslökkviliðsstjóri.

Fundargerð ritaði: Þorsteinn Gunnarsson

Dagskrá:

  1. Brunavarnaáætlun Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar

Slökkviliðsstjóri fór yfir Brunavarnaáætlun Brunavarna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Á seinasta fundi var samþykkt að leggja uppfærða brunavarnaáætlun fyrir sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar.

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps samþykkti áætlunina með eftirfarandi breytingum:

  • Kaup á froðubúnaði í slökkvibifreið í Mývatnssveit verður 2021 í stað 2020.
  • Taka út það sem er í sviga, þ.e. nýja slökkvistöð, en hafa endurbætur á slökkvistöð áfram inni.
  • Færa kaup á sérhæfðari búnaði til að bregðast við gróðureldum til 2022 því við viljum setja mengunarslys í forgang. Inni á árinu 2021 komi í staðinn kaup á sérhæfðari búnað til að bregast við mengunarslysum í Mývatni og víðar því við vatnsbakkann eru miklir þungaflutningar á hverjum degi, þar á meðal olíubílar.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkti að fresta afgreiðslu brunavarnaráætlunar vegna þess að með því að fresta kaupum á froðubúnaði í slökkvibifreið í Mývatnssveit um eitt ár vöknuðu áhyggjur um nægt vatnsmagn til slökkvistarfa.

Bjarni upplýsti að hann hefði átt samtal við Val Knutsson hjá Landsvirkjun þar sem fram kom að Landsvirkjun óskar eftir því að eiga samtal um aðkomu slökkviliðsins um samstarf við Landsvirkjun þegar kemur að Þeistareykjavirkjun sem og tækjakaup, sem gæti m.a. falist í kaup á froðubúnaði í slökkvibifreiðina í Mývatnssveit.

Nefndin samþykkir að Bjarni haldi því samtali áfram við Landsvirkjun ásamt sveitarstjórunum. Gangi það eftir að Landsvirkjun fjármagni kaup á froðubúnaði í ár er það afar jákvætt skref.

Bjarni fór yfir útfærslu á bakvaktarákvæðum í Brunavarnaráætlun varðandi slökkviliðsstjóra og aðstoðarslökkviliðsstjóra. Þar eru tilteknar fjöldi bakvakta fyrir slökkviliðsstjóra og aðstoðarslökkviliðsstjóra. Nefndin sammála um að sleppa því að tilgreina fjöldi bakvakta í brunavarnaáætluninni.

Um leið og sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar hafa staðfest þessar breytingar er slökkviliðsstjóra falið að senda brunavarnaáætlunina inn til samþykktar hjá HMS.

  1. Kjarasamningar – Bakvaktir – Viðbragðsvaktir

Slökkviliðsstjóri fór yfir nýja kjarasamninga Sambands íslenskra sveitarfélaga og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem gilda frá 1. janúar 2020 til 30. september 2023. Sjá hér: https://www.samband.is/media/kjarasamningar-bsrb/Kalfur_LSS-og-SNS_-2020-2023_LOK.pdf

Þar eru kynntar breytingar hjá hlutastarfandi slökkviliðsmönnum. Í bókun 3 segir:

„Með reglugerð um starfsemi slökkviliða nr. 747/2018 er gerð grundvallarbreyting á starfsemi slökkviliða. Samningsaðilar eru sammála um að aðlaga kjarasamninginn að þeim skipuagsbreytingum og þeim kröfum sem reglugerðin gerir til starfa slökkviliðsmanna. Frá og með 1. janúar 2022 fellur 14. kaflinn úr kjarasamningi aðila án frekari uppsagnar. Frá þeim tíma skulu allir slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn vera ráðnir í starfshlutfall og taka laun samkvæmt starfsmati. Slökkviliðsstjórar og varaslökkviliðsstjórar eru launasettir samkvæmt ákvæðum í fylgiskjali 4. Um réttindi og skyldur þeirra fer að öðru leyti samkvæmt kjarasamningi þessum.“

Ljóst er að þessar breytingar munu gjörbreyta starfsemi slökkviliðsins og kostnaður mun aukast til mikilla muna. Skrifstofustjórum beggja sveitarfélaga er falið að áætla kostnaðaraukann fyrir sveitarfélögin á ársgrundvelli.

  1. Önnur mál

Engin önnur mál.

 

Fundi slitið kl. 14.15.