Ferðaþjónustuhús á landbúnaðarsvæðum

Vísað er til eftirfarandi ákvæða í Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022:
Kafli 4.8 LANDBÚNAÐARSVÆÐI.

Verslun og þjónusta / ferðaþjónusta:

„Samkvæmt  Aðalskipulagi þessu er heimilt að stunda starfsemi í verslun  og þjónustu á landbúnaðarsvæðum, sé hún með eðlilegum hætti tengd búrekstri og/eða ferðaþjónustu s.s. bændagistingu, smásölu á bú- og handverksvörum, e.t.v. bæjarsöfn o. fl.  Heimilt er að reisa mannvirki fyrir þess konar starfsemi, þ.e. hús allt að 100 m², sé það staðsett við heimahús.........“

1. Samkvæmt framanskráðu samþykkir skipulags- og umhverfisnefnd að heimilað verði að byggja stök hús eða húsaþyrpingar fyrir ferðaþjónustu allt að 100 m² sem uppfylla fyrrgreind skilyrði þar sem aðstæður leyfa án þess að gerð verði krafa um gerð deiliskipulags.  Lögð er áhersla á að form og litasetning nýrra ferðaþjónustuhúsa séu samræmd við þau hús sem fyrir eru á jörðinni.1)

2. Þeir sem hyggjast ráðast í fyrrgreindar framkvæmdir skulu senda inn umsóknir um slíkt til skipulags- og umhverfisnefndar Þingeyjarsveitar og umsóknum skulu fylgja uppdrættir sem sýna afstöðu, grunnmynd, útlit og snið fyrirhugaðra mannvirkja Nefndin metur í hverju tilfelli fyrir sig hvort umsóknir fullnægi fyrrgreindum skilyrðum.  Að því gefnu skulu byggingaráformin grenndarkynnt fyrir næstu nágrönnum og öðrum hagsmunaaðilum eins og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um og jafnframt skal leita umsagnar eftirtalinna stofnana eftir því sem við á:

Umhverfisstofnunar
Minjastofnunar Íslands
Vegagerðarinnar
Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.

3. Skipulags- og byggingarfulltrúi annast grenndarkynningu í umboði skipulags- og umhverfisnefndar og gefur út byggingarleyfi að uppfylltum tilskildum skilyrðum. 

 

Samþykkt á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Þingeyjarsveitar 15.12.2016.
Með breytingum1)  16.03.2017.