Gistirekstur á íbúðarsvæðum

Vísað er til eftirfarandi ákvæða í Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022:
Kafli 4.3 Íbúðarsvæði.

Þéttbýli/íbúðarbyggð:
Á íbúðasvæðum skal fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði.  Þar má þó einnig gera ráð fyrir starfsemi sem eðlilegt er að þar sé til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis, s.s. verslunum, hreinlegum iðnaði handiðnaðarfyrirtækjum, þjónustustarfsemi og leiksvæðum, eða annarri starfsemi sem hvorki verður ætlað að muni valda óþægindum, vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar né dragi að sér óeðlilega mikla umferð.

Heimild til takmarkaðs gistirekstur í íbúðarhverfum skal háð eftirfarandi ákvæðum:

1. Heimild til reksturs takmarkaðrar gistiþjónustu í íbúðarbyggð miðast við „Minna gistiheimili“ skv. skilgreiningu í 9. gr. reglugerðar nr. 1277 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.  Hámarks fjöldi gesta allt að tíu.

2. Sýslumaður gefur út rekstrarleyfi

3. Rekstraraðili skal hafa lögheimili í húsnæðinu.

4. Rekstraraðili skal sækja um leyfi til sveitarfélagsins til breyttrar starfsemi í viðkomandi íbúðarhúsnæði.

5. Með umsókn skal skila inn upplýsingum um áætlaðan fjölda gesta og nákvæmum teikningum af fyrirhuguðu útleiguhúsnæði þar sem gerð er grein fyrir skiptingu á íverurými rekstraraðila og útleigðu rými.  Einnig skal gerð grein fyrir eldvörnum og flóttaleiðum og nægjanlegum fjölda bílastæða fyrir áætlaðan fjölda gesta innan lóðar.

6. Byggingarfulltrúi skal kynna fyrir nágrönnum umsóknir um rekstur gistiþjónustu.

7. Útleigt rými verður skilgreint sem atvinnuhúsnæði og Innheimt verða af því fasteignagjöld skv. flokki C.