Grunn- og leikskólum lokað framyfir páska

Ákveðið var í gær að loka grunn- og leikskólum Þingeyjarsveitar frá og með 24. mars og framyfir páska. Leikskólar verða þó opnir fyrir skilgreinda forgangshópa eftir þörfum. Nemendur á öllum stigum grunnskólans fá fjarkennslu á þessum tíma og lögð verður áhersla á reglulegt fjarnám og fasta rútínu eins og hægt er.

Þessi ákvörðun er tekin þar sem æ erfiðar reynist að halda úti skólastarfi í samræmi við fyrirmæli yfirvalda og einnig þar sem smit vegna COVID-19 eru farin að greinast í nágrenni við okkur. Við höfum þurft að meta stöðuna daglega en nú hefur þessi ákvörðun verið tekin og ljóst hvernig skólastarfi verði háttað fram að páskum, staðan verður svo tekin eftir það um framhaldið.

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.